Hagsjá

Mikil aukning í kortaveltu innanlands

Kortavelta Íslendinga innanlands jókst talsvert í júní. Færri utanlandsferðir gætu haft í för með sér aukna neyslu innanlands í sumar.

15. júlí 2020  |  Hagfræðideild

Samantekt

Seðlabanki Íslands birti nýverið gögn um veltu innlendra greiðslukorta í júní. Alls nam velta tengd verslun og þjónustu innanlands 78,6 mö.kr. og jókst hún um 17% milli ára miðað við fast verðlag sem er veruleg aukning og viðsnúningur frá þróun síðustu mánaða. Í mars og apríl mældist samdráttur milli ára og í maí mældist aukning upp á 2% þegar fyrstu tilslakanir á samkomubanni tóku gildi. Niðurstöður júnímánaðar benda til þess að Íslendingar virðast margir hverjir ætla gera nokkuð vel við sig í sumarfríinu innanlands og gæti neysla innanlands orðið meiri en í fyrri sumarfríum.
Greiðslukortavelta Íslendinga erlendis nam alls tæpum 7,8 mö.kr. í júní, sem er svipað og hefur mælst á síðustu mánuðum frá því að Covid-19-faraldurinn skall á og utanlandsferðir urðu afar fáar. Samanlagt nemur greiðslukortavelta Íslendinga í júní rúmlega 86 mö.kr. sem er mjög áþekk þeirri veltu sem mældist í júní fyrir ári síðan, eða aðeins 0,1% minni miðað við fast verðlag og fast gengi. Það má því segja að Íslendingar hafi bætt sér upp færri utanlandsferðir, og því sem þeir hefðu eytt erlendis, með aukinni neyslu innanlands. Höggið af Covid-19 verður því ef til vill ekki jafn mikið á neyslu Íslendinga innanlands og gera hefði mátt ráð fyrir í upphafi, og heldur minna en samdrátturinn erlendis.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Mikil aukning í kortaveltu innanlands (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara.

No filter applied

Tengdar greinar