Hagsjá

Ríkisreikningur 2019 – staðan ekki eins sterk og verið hefur

Samkvæmt ríkisreikningi var heildarafkoma ríkissjóðs neikvæð um 39 ma. kr. í fyrra miðað við hagskýrslustaðal. Fjárlög ársins 2019 gerðu hins vegar ráð fyrir að heildarafkoma yrði jákvæð um 29 ma. kr. Þarna hefur því orðið til neikvæður munur upp á tæpa 70 ma. kr. miðað við fjárlög. Það má greinilega sjá á ríkisreikningi ársins 2019 að tekið var að þyngja á í hagkerfinu. Árin tvö á undan var lokaniðurstaða ríkisreiknings í góðu samræmi við samþykkt fjárlög, en í fyrra var róðurinn greinilega orðinn þyngri.

16. júlí 2020  |  Hagfræðideild

Samantekt

Fjársýsla ríkisins birti nýlega ríkisreikning fyrir árið 2019 og er hann í þriðja sinn í samræmi við ný lög um opinber fjármál sem byggja meðal annars á alþjóðlegum reikningsskilastöðlum fyrir opinbera aðila.

Niðurstaða ríkisreiknings var að rekstrarafkoman var jákvæð um 42 ma. kr. til samanburðar við 84 ma. kr. afgang árið 2018. Tekjur námu samtals 830 ma. kr. og rekstrargjöld 809 ma. kr. Þar með er ekki öll sagan sögð. Afkoma ríkissjóðs samkvæmt ríkisreikningi er ekki alveg sambanburðarhæf við tölur í fjármálaáætlun og fjárlögum. Til að fá réttan samanburð þarf að aðlaga niðurstöðu ríkisreiknings að þeim hagskýrslustaðli sem notaður er í fjárlögum og fjármálaáætlun.

Á þeim grunni var heildarafkoma ríkissjóðs neikvæð um 39 ma. kr. í fyrra sem er um 24 ma. kr. lakari niðurstaða en endurskoðuð áætlun ársins gerði ráð fyrir. Fjárlög ársins 2019 gerðu hins vegar ráð fyrir að heildarafkoma yrði jákvæð um 29 ma. kr. Þarna hefur því orðið til neikvæður munur upp á tæpa 70 ma. kr. miðað við fjárlög.
Það má greinilega sjá á ríkisreikningi ársins 2019 að tekið var að þyngja á í hagkerfinu. Árin tvö á undan var lokaniðurstaða ríkisreiknings í góðu samræmi við samþykkt fjárlög, en í fyrra var róðurinn greinilega orðinn þyngri. Erfitt er að gera samskonar samanburð fyrir árin á undan þar sem stöðugleikaframlög og álíka óreglulegir þættir höfðu mikil áhrif á lokauppgjör ríkissjóðs.

Heildarskuldir ríkissjóðs eins og þær birtast í efnahagsreikningi voru um síðustu áramót um 1.920 ma. kr., og höfðu hækkað um tæp 20% milli ára að nafnvirði. Langtímaskuldir hækkuðu um tæp 22%, en stór þáttur í þeirri hækkun var færsla upp á tæpa 180 ma. kr. vegna hlutdeildar ríkissjóðs í skuldum dótturfélaga með neikvæða eiginfjárhlutdeild og kemur þessi færsla fyrst og fremst til vegna breytinga á Íbúðalánasjóði.

Ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar voru 721 ma. kr. í lok árs 2019 og jukust um tæp 12% sem er meira en var árin tvö þar á undan. Ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar hækkuðu um rúm 20% milli áranna 2015 og 2016 og um 17% árið þar á undan. Á árinu 2019 hafði ríkissjóður greitt um 270 ma. kr. upp í lífeyrisskuldbindingar.

Vegna mikils hagvaxtar á síðustu árum hafa skuldir ríkissjóðs sem hlutfall af vergri landsframleiðslu lækkað mun meira en nafnvirði þeirra.

Vaxtagjöld ríkissjóðs drógust saman um u.þ.b. fimmtung milli 2018 og 2019, en vaxtatekjur drógust enn meira saman, eða um 72%. Vaxtajöfnuður var því neikvæður um tæpa 56 ma. kr. á árinu 2019 sem er álíka stærð og var 2018.

Eins og búast mátti við var ríkisreikningur 2018 sá síðasti í bráð sem sýndi styrka stöðu ríkissjóðs og verulega árlega útgjaldaaukningu í takt við mikla aukningu tekna. Dregið hefur verulega úr hagvexti og ríkissjóður hefur á þessu ári lent í einhverju mesta áfalli í manna minnum. Á fyrri hluta ársins samþykkti Alþingi tvenn fjáraukalög, samtals að upphæð um 79 ma. kr. og fyrirsjáanlegt er að niðurstaða ríkisreiknings á árinu 2020 verði neikvæður um einhver hundruð milljarða. Ríkissjóður býr hins vegar að góðu gengi áranna á undan og er því í tiltölulega góðri stöðu til þess að takast á við þau vandamál sem framundan eru.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Ríkisreikningur 2019 – staðan ekki eins sterk og verið hefur (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara.

5850a07c-403d-11e5-af9c-0050568800ef

No filter applied

Tengdar greinar