Hagsjá

Árshækkun launavísitölu í júní enn mikil – kaupmáttur launa í hæstu hæðum

Kaupmáttur launa hefur aldrei mælst hærri en var í apríl þegar hann tók stökk upp á við. Kaupmáttur hefur minnkað eilítið síðustu tvo mánuði, en engu að síður hærri á síðustu þremur mánuðum en nokkurn tíma áður, sem er reyndar athyglisvert í ljósi þess að hallað hefur verulega undan fæti í efnahagslífinu. Vísitala neysluverðs hækkaði einungis um 2,2% milli aprílmánaða 2019 og 2020. Launavísitalan hækkaði um 6,7% á sama tímabili þannig að kaupmáttaraukningin á tímabilinu er nokkuð augljós.

22. júlí 2020  |  Hagfræðideild

Samantekt

Launavísitalan hækkaði um 0,2% milli maí og júní samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Síðustu 12 mánuði hefur launavísitalan hækkað um 6,7%, sem er ívið meiri ársbreyting en var í síðasta mánuði. Árshækkunartaktur launavísitölunnar var rúmlega 4% allan seinni hluta ársins 2019, en tók stökk upp á við nú í apríl og maí og verið í kringum 6,5%.

Launabreytingar sem tengjast kjarasamningum opinberra starfsmanna eru nú væntanlega komnar að fullu inn í launavísitöluna í apríl og það sama má segja um áfangahækkanir á almenna markaðnum frá í vor.
Það sem af er árinu hefur launavísitalan hækkað að meðaltali um 0,8% á mánuði. Útlit er fyrir að hægja muni á hækkun vísitölunnar á seinni helmingi ársins þar sem næstu áfangahækkanir samkvæmt kjarasamningum verða ekki fyrr en 1. janúar á næsta ári, verði kjarasamningar enn í gildi þá, en samkvæmt ákvæðum samninga á að fara fram mat á forsendum þeirra í september.

Kaupmáttur launa hefur aldrei mælst hærri en var í apríl þegar hann tók stökk upp á við. Kaupmáttur hefur minnkað eilítið síðustu tvo mánuði, en engu að síður hærri á síðustu þremur mánuðum en nokkurn tíma áður, sem er reyndar athyglisvert í ljósi þess að hallað hefur verulega undan fæti í efnahagslífinu. Vísitala neysluverðs hækkaði einungis um 2,2% milli aprílmánaða 2019 og 2020. Launavísitalan hækkaði um 6,7% á sama tímabili þannig að kaupmáttaraukningin á tímabilinu er nokkuð augljós.

Sé litið á launabreytingar hjá stóru hópunum á vinnumarkaðnum frá apríl 2019 fram til sama tíma 2020 sést að launin á almenna markaðnum hækkuðu um 6,8% á þessum tíma á meðan þau hækkuðu um 7,8% á þeim opinbera. Mæld launavísitala hækkaði um 6,8% á sama tíma.

Kjarasamningar stórra hópa opinberra starfsmanna voru loksins gerðir í mars 2020 þannig að áhrif voru að mestu leyti komin inn í launavísitöluna, í apríl. Hinn mikli munur á launabreytingum á almenna markaðnum og þeim opinbera hefur þannig náð að jafnast aftur.

Eins og margoft hefur verið fjallað um í Hagsjám breytast laun á almenna og opinbera markaðnum yfirleitt með svipuðum hætti yfir lengri tíma. Það bil sem hefur verið á milli þessara markaða síðasta árið hefur verið óvenjulega mikið og varað óvenju lengi, en með samningum opinberra starfsmanna í vor hefur það verið brúað.

Af starfsstéttum hækkuðu laun skrifstofufólks mest milli aprílmánaða 2019 og 2020, um 8,7%. Laun iðnaðarmanna hækkuð næst mest, um 8,3%. Laun stjórnenda hækkuðu minnst á þessu tímabili, eða um 4%. Eins og áður segir hækkaði launavísitalan um 6,8% á þessu tímabili þannig að laun stjórnenda hafa minnkað töluvert minna en meðaltalið. Verðbólgan á tímabilinu var 2,2% þannig að kaupmáttur launa stjórnenda hefur aukist á þessu tímabili þrátt fyrir að laun hafi hækkað mun minna en hjá öðrum hópum.

Flestir stærstu hóparnir hafa nú lokið kjarasamningum nema kennarar á öllum skólastigum. Næsti stóri viðburður á launahluta vinnumarkaðsins verður mat á því hvernig tekist hefur að ná markmiðum samninganna, en því mati á að vera lokið í septemberlok. Ekki er deilt um að markmið um kaupmátt og lækkun vaxta hafa náðst. Nokkuð augljóst er að ákvæði um launahækkanir vegna aukningar hagvaxtar munu ekki koma til. Úr herbúðum verkalýðshreyfingarinnar hafa heyrst raddir um að eitthvað vanti upp á að yfirlýsingar stjórnvalda, t.d. hvað varðar húsnæðismál, hafi verið efndar.

Það nýja í stöðunni er að samtök atvinnurekenda gætu séð sér hag í að segja samningnum upp. Ljóst er að margar lykilforsendur sem upphaflegir samningar byggðu á hafa brugðist eftir að áföll vegna faraldursins tóku að dynja á hagkerfinu. Töluverð óánægja heyrðist úr herbúðum atvinnurekenda vegna áfangahækkana launa í apríl, sem einhverjir vildu fresta eða minnka. Næstu áfangahækkanir eru 1. janúar 2021 og má vænta þess að umræða komi upp hversu mikil innistæða verði fyrir þeim hækkunum.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Árshækkun launavísitölu í júní enn mikil – kaupmáttur launa í hæstu hæðum (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara.

5850a07c-403d-11e5-af9c-0050568800ef

No filter applied

Tengdar greinar