Hagsjá

Alltaf mikið fjárhagslegt áfall að missa vinnuna

Sé litið á einfaldan samanburð milli launa í starfi og atvinnuleysisbóta má sjá að meðalmaðurinn á íslenskum vinnumarkaði tapar um 326 þús. kr. af ráðstöfunartekjum á mánuði við að missa starf og fara yfir á venjulegar atvinnuleysisbætur.

11. ágúst 2020  |  Hagfræðideild

Samantekt

Margir urðu fyrir því áfalli að missa vinnuna þegar veirufaraldurinn kom til sögunnar sl. vetur. Skráð atvinnuleysi hefur aukist mikið og á eftir að aukast meira á næstu mánuðum. Hluti þeirra sem hefur misst vinnuna er enn á uppsagnarfresti og óvissan í atvinnulífinu er enn mikil. Það er mikið áfall að missa vinnuna. Hér verður litið með einföldum hætti á efnahagslegar afleiðingar þess að verða atvinnulaus.
Nýjustu opinberar tölur frá Hagstofu Íslands um laun eru fyrir árið 2018. Séu þær tölur framreiknaðar m.v. þróun launavísitölunnar má fá grófa mynd af því hvaða laun fólk í ákveðnum störfum er með í dag.

Verkafólk og skrifstofufólk er að jafnaði með um 600 þús. kr. í laun á mánuði fyrir fullt starf, iðnaðarmenn með tæp 900 þús. og stjórnendur með um 1,3 milljónir. Meðallaun allra á vinnumarkaðnum fyrir fullt starf eru rúmar 800 þús. kr. á mánuði.

Eftir frádrátt tekjuskatts eru útborguð laun verkafólks og skrifstofufólks um 450 þús. kr. á mánuði, laun iðnaðarmanna um 620 þús. kr. og meðalmaðurinn á vinnumarkaði fær um 570 þús. kr.

Hér verður sýndur samanburður sem byggir einungis á launum og tekjuskatti. Það eru til mun fleiri frádráttarliðir sem skerða launaumslagið, t.d. lífeyrissjóðsiðgjöld og stéttarfélagsgjöld. Þau geta verið mismunandi, en þó yfirleitt í beinu hlutfalli við laun. Áhrifin af því að missa vinnuna og fara á atvinnuleysisbætur byggja því að verulegu leyti á útborguðum launum eða bótum og svo tekjuskatti.

Venjulegar fullar atvinnuleysisbætur eru kr. 289.510 á mánuði. Að auki eru greiddar kr. 11.580 með hverju barni undir 18 ára, en ekki er reiknað með slíkum greiðslum hér. Hægt er að fá tekjutengingu bóta í allt að þrjá mánuði í upphafi hvers bótatímabils, sem er 30 mánuðir. Hámarksfjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta í hverjum mánuði verður þó aldrei hærri en kr. 456.404. Tekjutenging bóta skiptir því litlu máli fyrir heildarmyndina ef atvinnuleysistímabil verður langt.

Skatturinn tekur líka sitt af úthlutuðum bótum og því verða útborgaðar bætur um kr. 242.700 miðað við venjulegar bætur og um kr. 348.500 fyrir hámarksbætur.

Sé litið á þennan einfalda samanburð má sjá að meðalmaðurinn á íslenskum vinnumarkaði tapar um 326 þús. kr. af ráðstöfunartekjum á mánuði við að missa starf og fara yfir á venjulegar atvinnuleysisbætur. Miðað við tekjutengdar bætur yrði tjónið um 221 þús. kr. í þrjá mánuði.

Verkafólk og skrifstofufólk tapar rúmum 200 þús. kr. á mánuði að jafnaði, iðnaðarmenn um 380 þús. kr. og stjórnendur um 630 þús. kr. Í öllum tilfellum er um verulegt tekjutjón að ræða fyrir einstaklinginn og fjölskyldu hans. Því hærri sem laun voru í starfi sem tapaðist, því meira tjón. Við það bætist svo að þeir sem verða fyrir slíku tjóni þurfa að jafnaði að draga verulega úr neyslu sinni. Verði atvinnuleysi mikið og langvarandi verða áhrifin á eftirspurn í hagkerfinu augljóslega mikil.

Hér er byggt á tölum um heildarlaun í fullu starfi og þær bornar saman við atvinnuleysisbætur. Hvernig viðkomandi tala er fundin skiptir ekki öllu, samanburður launa flestra verður alltaf óhagstæður miðað við upphæðir atvinnuleysisbóta eins og þær eru í dag.

Eins og áður segir má gera samanburðinn flóknari með því að draga fleiri þætti inn, en það breytir heildarmyndinni ekki mikið. Tölurnar sýna að fjárhagsleg áhrif þess að missa vinnuna eru í flestum tilvikum veruleg.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Alltaf mikið fjárhagslegt áfall að missa vinnuna (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara.

No filter applied

Tengdar greinar