Hagsjá

Vinnumarkaðskönnun – áfram merki um neikvæða þróun

Samkvæmt vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar mældist árstíðaleiðrétt atvinnuþátttaka 78,3% á öðrum ársfjórðungi 2020 sem er lægsta mæling frá 2003. Sé miðað við 12 mánaða hlaupandi meðaltal fór atvinnuþátttaka hæst um mitt ár 2017, en þá fór hún upp í tæp 84%. Samsvarandi tala nú er 79,8% og hefur farið stöðugt lækkandi frá 2017.

8. september 2020  |  Hagfræðideild

Samantekt

Samkvæmt niðurstöðum vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofunnar er áætlað að um 213.700 manns hafi verið á vinnumarkaði í júlí, sem jafngildir 82,2% atvinnuþátttöku. Af þeim voru um 202.600 þús. starfandi og um 10.900 atvinnulausir. Starfandi fólki fækkaði um 5.900 milli ára og atvinnulausum fjölgaði um 5.100. Hlutfall starfandi var 78% í júlí og hafði lækkað um 2,8 prósentustig frá júlí 2019.
Töluverðar sveiflur geta orðið á milli mánaða í tölum um starfandi fólk á vinnumarkaði. Sé litið á 12 mánaða hlaupandi meðaltal hafði fjöldi starfandi ekki breyst mikið allt síðastliðið ár eftir nær stöðuga fjölgun í nokkur ár. Mikil fækkun starfandi frá því í apríl hefur hins vegar töluverð áhrif á meðaltal síðustu 12 mánaða.

Árstíðaleiðrétt hlutfall starfandi mældist 72,8% á 2. ársfjórðungi 2020 og hefur ekki mælst lægra síðan 2003 þegar þessar mælingar hófust. Hlutfallið var um einu prósentustigi lægra á 2. ársfjórðungi nú en það varð lægst eftir fjármálakreppuna.

Í apríl hafði atvinnuþátttaka ekki verið lægri a.m.k. frá árinu 2003, en hún var 75,8% nú í apríl. Atvinnuþátttaka jókst um rúmlega 5 prósentustig í maí og fór upp í 80,9%, en var engu að síður rúmu prósentustigi lægri en í maí 2019.

Árstíðaleiðrétt atvinnuþátttaka mældist 78,3% á öðrum ársfjórðungi 2020 sem er lægsta mæling frá 2003. Sé miðað við 12 mánaða hlaupandi meðaltal fór atvinnuþátttaka hæst um mitt ár 2017, en þá fór hún upp í tæp 84%. Samsvarandi tala nú er 79,8% og hefur farið stöðugt lækkandi frá 2017.

Samkvæmt vinnumarkaðskönnun voru um 10.900 atvinnulausir í júlí, sem samsvarar 5,1% atvinnuleysi. Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar voru um 17.100 skráðir atvinnulausir í almenna bótakerfinu í lok júlí (án skerts starfshlutfalls), sem samsvarar 7,9% atvinnuleysi. Almennt atvinnuleysi að viðbættu atvinnuleysi í hlutabótakerfinu var hins vegar 8,8% í júlí. Eins og oft áður eru sveiflurnar í mældu atvinnuleysi í vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar miklar á milli mánaða. Atvinnuþátttaka hefur minnkað töluvert sem getur haft áhrif á niðurstöður vinnumarkaðskönnunar með þeim hætti að atvinnulausir teljast utan vinnumarkaðar í könnuninni ef þeir eru ekki í atvinnuleit. Í erfiðu atvinnuástandi eins og nú ríkir er líklegt að sú geti verið raunin.

Eins og áður segir hefur starfandi fólki fækkað töluvert á undanförnum mánuðum. Þá hefur vinnutími líka styst. Þannig fækkaði venjulegum vinnustundum í júlí um 0,4 frá fyrra ári. Þetta þýðir að fjöldi unninna stunda, eða vinnuaflsnotkun, hefur farið minnkandi.

Staðan nú hvað vinnuaflsnotkun varðar er allt önnur en á síðustu árum þegar hún var almennt að aukast. Í apríl og maí dróst vinnuaflsnotkun verulega saman, bæði vegna fækkunar starfandi fólks og styttri vinnutíma. Það hægði nokkuð á þessari þróun í júní, en í júlí minnkaði vinnuaflsnotkun aftur um 3,8% milli ára.

Frá því að faraldurinn skall á hafa opinber úrræði til þess að draga úr afleiðingum áfallsins verið í sífelldri endurskoðun. Nú síðast var ákveðið að framlengja hlutabótaleiðina um tvo mánuði. Heimild til tímabundinna greiðslna vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir var framlengd til áramóta. Þá var tímabil tekjutengdra atvinnuleysisbóta lengt tímabundið úr þremur mánuðum í sex og möguleikar atvinnulausra til náms auknir.

Ríkissjóður hefur tekið á sig mikil útgjöld og skuldbindingar til þess að draga úr afleiðingum höggsins sem efnahagslífið hefur orðið fyrir og ekki sér fyrir endann á þeim aðgerðum enn. Framtíðin er áfram óviss og ekki vitað hvort stjórnvöld þurfi enn að bæta í.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Vinnumarkaðskönnun – áfram merki um neikvæða þróun (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara.

No filter applied

Tengdar greinar