Hagsjá

Íbúðaverð hækkar verulega, annan mánuðinn í röð

Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,8% milli mánaða í ágúst. Þetta er annar mánuðurinn í röð þar sem hækkunin mælist yfir 0,5%. Verðhækkanir í sumar voru talsvert meiri en á sama tíma fyrir ári síðan.

18. september 2020  |  Hagfræðideild

Samantekt

Samkvæmt nýbirtum tölum Þjóðskrár Íslands hækkaði íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu að meðaltali um 0,8% milli júlí og ágúst. Verð á fjölbýli hækkaði um 0,7% og verð á sérbýli um 0,9%. 12 mánaða hækkun íbúðaverðs mælist nú 5,2% og hefur ekki verið hærri síðan í janúar 2019. Sérbýli hefur hækkað stöðugt frá því í apríl og mælist 12 mánaða hækkun nú 4,8%. 12 mánaða hækkun fjölbýlis mælist 5,2%.
Síðastliðna 3 mánuði hefur íbúðaverð hækkað að jafnaði um 0,7% milli mánaða. Í fyrra var sambærileg hækkun 0,3%. Það er því nokkuð ljóst að sumarið í ár var mun kröftugra en sumarið í fyrra, og hafa vaxtalækkanir haft veruleg áhrif á eftirspurn eftir húsnæði.

Hvort íbúðaverð haldi áfram að þróast með þessum hætti eða ekki, fer að miklu leyti eftir því hver þróunin verður í efnahagsmálum almennt og hvort vænta megi frekari vaxtalækkana. Heldur hefur dregið úr þeim líkum ef litið er til þróunar verðbólguhorfa, sem hafa heldur versnað síðustu mánuði vegna veikingar krónunnar. Staðan getur þó breyst hratt á tímum sem þessum, hvort sem litið er til þróunar vaxta, verðbólgu eða húsnæðisverðs, og verður tíminn að leiða í ljós hvernig haustið verður. Það er í það minnsta ljóst að sumarið var mun líflegra en gera hefði mátt ráð fyrir þegar faraldurinn hóf að breiða úr sér hér á landi.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Íbúðaverð hækkar verulega, annan mánuðinn í röð (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara.

5850a07b-403d-11e5-af9c-0050568800ef

No filter applied

Tengdar greinar