Hagsjá

Launavísitala hækkaði lítillega í ágúst – endurskoðun kjarasamninga framundan

Launin á almenna markaðnum hækkuðu um 6,5% á frá 2. ársfjórðungi 2019 fram til sama tíma 2020 og um 7,2% á þeim opinbera. Mæld launavísitala hækkaði um 6,8% á sama tíma. Töluvert bil hafði myndast á milli launaþróunar á almenna og opinbera markaðnum nær allt síðasta ár. Eins og margoft hefur verið fjallað um í Hagsjám breytast laun á almenna og opinbera markaðnum yfirleitt með svipuðum hætti yfir lengri tíma.

23. september 2020  |  Hagfræðideild

Samantekt

Launavísitalan hækkaði um 0,2% milli júlí og ágúst samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Síðustu 12 mánuði hefur launavísitalan hækkað um 6,4%, sem er álíka ársbreyting og var í síðasta mánuði.

Árshækkunartaktur launavísitölunnar var rúmlega 4% allan seinni hluta ársins 2019, en tók stökk upp á við í apríl og maí eftir áfangahækkanir á almennum markaði og kjarasamninga á þeim opinbera. Nú fer hann lítillega lækkandi aftur. Ekki verður um að ræða almennar hækkanir samkvæmt kjarasamningum fyrr en um næstu áramót þannig að reikna má með að launaþróun verði með álíka rólegum hætti fram að því.

Kaupmáttur launa hefur aldrei mælst hærri en var í apríl þegar hann tók stökk upp á við. Kaupmáttur hefur minnkað um 1% síðan í apríl, en er engu að síður með því hæsta sem verið hefur. Vísitala neysluverðs hækkaði um 3,2% milli ágústmánaða 2019 og 2020. Launavísitalan hækkaði um 6,4% á sama tímabili þannig að kaupmáttaraukningin á milli ára er enn töluverð, eða 3,2%.

Þessar tölur eiga við um föst laun þeirra sem búa við óbreytt ráðningarsamband og vinnutíma. Það er hins vegar ljóst að vinnutími hefur styst og atvinnuleysi aukist þannig að ráðstöfunartekjur meðalheimila munu þróast með mun lakari hætti.

Í nýlegri Hagsjá var bent á að meðalmaðurinn á íslenskum vinnumarkaði myndi tapa um 326 þús. kr. af ráðstöfunartekjum á mánuði við að missa starf og fara yfir á venjulegar atvinnuleysisbætur. Miðað við tekjutengdar bætur yrði tjónið um 221 þús. kr. í sex mánuði. Lækkun ráðstöfunartekna þeirra sem missa vinnuna er því veruleg.
Sé litið á launabreytingar hjá stóru hópunum á vinnumarkaðnum frá 2. ársfjórðungi 2019 fram til sama tíma 2020 sést að launin á almenna markaðnum hækkuðu um 6,5% á þessum tíma og um 7,2% á þeim opinbera. Mæld launavísitala hækkaði um 6,8% á sama tíma.

Langan tíma tók að gera kjarasamninga á opinbera markaðnum í þessari samningalotu. Þannig voru stærstu samningarnir innan BSRB gerðir tæpu ári eftir að lífskjarasamningurinn var gerður á almenna markaðnum. Töluvert bil myndaðist því á milli launaþróunar á almenna og opinbera markaðnum nær allt síðasta ár.

Eins og margoft hefur verið fjallað um í Hagsjám breytast laun á almenna og opinbera markaðnum yfirleitt með svipuðum hætti yfir lengri tíma. Það bil sem hefur verið á milli þessara markaða síðasta árið hefur verið óvenjulega stórt og varað óvenju lengi, en með samningum opinberra starfsmanna í vor hefur það verið brúað að mestu leyti.

Af starfsstéttum á almenna markaðnum hækkuðu laun iðnaðarmanna mest milli 2. ársfjórðunga 2019 og 2020, um 7,8%. Laun þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólks hækkuðu næst mest, um 7,7%. Laun stjórnenda hækkuðu minnst á þessu tímabili, eða um 3,8%. Launavísitalan hækkaði um 6,7% á þessu tímabili þannig að laun iðnaðarmanna hafa hækkað meira en meðaltalið og laun stjórnenda töluvert minna.

Þessa dagana fer fram mat á því hvernig tekist hefur að ná markmiðum lífskjarasamningsins og skal því mati lokið fyrir lok september. Nokkur óvissa ríkir um hver niðurstaðan verður, eins og oft áður. Í samræmi við umfjöllunina hér að framan er nokkuð augljóst að markmið samninganna um aukningu kaupmáttar hafa náðst og sama má segja um væntingar um lækkun vaxta. Sjónarmið hafa verið uppi um að eitthvað vanti upp á að yfirlýsingar stjórnvalda hafi verið efndar, t.d. hvað varðar aðgerðir í húsnæðismálum. Það er að sama skapi ljóst að þær væntingar um þróun efnahagslífsins sem lágu til grundvallar lífskjarasamningnum hafa breyst mikið til hins verra. Þær raddir hafa heyrst úr röðum atvinnurekenda að margar lykilforsendur sem upphaflegir samningar byggðu á hafi brugðist og að taka þurfi tillit til þess við mögulega endurskoðun samninga nú.

Miðað við þær aðstæður sem eru í efnahagslífinu í dag skiptir verulegu máli að friður ríki á vinnumarkaði þannig auðveldara sé fyrir stjórnvöld og aðila vinnumarkaðar að vinna sameiginlega að lausnum allra þeirra vandamála sem uppi eru.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Launavísitala hækkaði lítillega í ágúst – endurskoðun kjarasamninga framundan (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara.

5850a07d-403d-11e5-af9c-0050568800ef

No filter applied

Tengdar greinar