Hagsjá

Ríkissjóður verður í lykilhlutverki hagstjórnar á næstu árum

Nú er gert ráð fyrir að halli á rekstri ríkissjóðs í ár nemi nærri 270 mö.kr. og að álíka halli verði á næsta ári þannig að samanlagður halli í ár og næsta ár nálgist 600 ma.kr. Afkoman verður áfram neikvæð næstu ár og skuldir munu aukast verulega í samræmi við það.

15. október 2020  |  Hagfræðideild

Samantekt

Hér á landi, eins og víðast hvar í heiminum, hafa stjórnvöld tekið þá ákvörðun að taka ekki á yfirstandandi kreppu með niðurskurði og skattahækkunum eins og yfirleitt hefur verið gert. Þess í stað á að beita ríkisútgjöldum til þess að styðja sem best við fyrirtæki og heimili til þess að lágmarka skakkaföll og stefna að því að sem flestir séu tilbúnir til þess að leggjast á árarnar með styrkum hætti þegar farsóttinni linnir.

Staða ríkissjóðs var mjög góð í ársbyrjun, en hún hefur versnað mikið. Tekjur hafa lækkað verulega m.v. áætlanir og útgjöld hækkað mikið. Á þessu ári hefur myndast stórt gat miðað við það sem stefnt var að. Nú er gert ráð fyrir að halli á rekstri ríkissjóðs í ár nemi nærri 270 mö.kr. og að álíka halli verði á næsta ári þannig að samanlagður halli í ár og næsta ár nálgist 600 ma.kr. Afkoman verður áfram neikvæð næstu ár og skuldir munu aukast verulega í samræmi við það.

Til samanburðar má nefna að hallinn á rekstri ríkissjóðs árið 2008, þegar bankahrunið varð, nam tæpum 200 mö.kr. Þá tók ríkissjóður á sig miklar skuldir til að endurreisa bankakerfið en fékk öll fjárútlát vegna þess til baka nokkrum árum síðar. Nú er aðstoðinni beint til heimila og fyrirtækja og við verðum að vona að þau verði í það sterkri stöðu þegar við komum út úr kreppunni að auknar tekjur þaðan gefi álíka tækifæri til að endurgreiða skuldir. Til þess að það takist þarf að halda mjög vel á spilunum og nauðsyn nýsköpunar og vel launaðra starfa skiptir þar miklu máli. Spurningin um framleiðniaukningu og fjölgun vel launaðra starfa hefur raunar aldrei verið brýnni en einmitt nú.

Skuldir hins opinbera höfðu minnkað verulega á síðustu árum og voru orðnar tiltölulega lágar í lok 2019 miðað við margar nágrannaþjóðir. Opinberar skuldir voru um 30% af landsframleiðslu á árinu 2019, en nú er reiknað með að þær verði komnar vel yfir 60% á árinu 2022.
Samdrátturinn í efnahagslífinu og aðgerðir stjórnvalda auka skuldir mjög hratt, hér á landi sem og í nálægum löndum. Skuldir ríkissjóðs skv. viðmiði laga um opinber fjármál gætu þannig aukist úr 23% af VLF í árslok 2019 í 46% árið 2022.

Í fjárlögum ársins 2020 var gert ráð fyrir lækkun heildarskulda um 72 ma.kr. og að þær yrðu um 820 ma.kr. í lok ársins. Nú stefnir hins vegar í að skuldir ríkissjóðs verði 1.250 ma.kr. í lok þessa árs, eða um 430 ma.kr. hærri en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Skuldir A-hluta ríkissjóðs aukast því um u.þ.b. 270 ma.kr. að nafnvirði á næsta ári og samtals um rúmlega 600 ma.kr. árin 2020 og 2021. Til samanburðar voru heildarskuldir ríkissjóðs mestar árið 2012, eða 82% af VLF og 62% af VLF miðað við skuldareglu laga um opinber fjármál.

Útgjöld ríkissjóðs vegna atvinnuleysis munu aukast um rúm 150% milli áranna 2019 0g 2020. Jafnvel þótt reiknað sé með því í fjármálaáætlun að atvinnuleysi verði komið niður í 4,5% á árinu 2025 verða útgjöld til atvinnuleysis tæplega 50% hærri að nafnverði en var 2019.

Í umræðu dagsins um fjármál hins opinbera er mikið komið inn á nauðsyn nýsköpunar. Í samræmi við það verða útgjöld ríkissjóðs til nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina aukin töluvert á næstu árum. Þannig verður aukningin á næsta ári um 50% miðað við núverandi stöðu.

Ljóst er að ríkissjóður getur ekki haldið lengi áfram að taka jafn virkan þátt í aðgerðum gegn kreppunni og hann gerir nú. Skuldasöfnuninni verður að linna eins fljótt og auðið er. Samkvæmt fjármálaáætlun er stefnt að því að stöðva skuldaaukningu hins opinbera sem hlutfall af landsframleiðslu eigi síðar en á lokaári fjármálaáætlunarinnar, þ.e. á árinu 2025.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Ríkissjóður verður í lykilhlutverki hagstjórnar á næstu árum (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara.

No filter applied

Tengdar greinar