Hagsjá

Ráðstöfunartekjur heimilanna hafa aukist mikið í seinni tíð

Launatekjur vega lang mest á tekjuhlið ráðstöfunartekna. Frá aldamótum hafa launatekjur verið að meðaltali 68% tekna og tilfærslutekjur um 15%. Vægi tilfærslutekna tók kipp upp á við í hruninu og er nú meira en það var á árunum eftir aldamót. Þannig var meðalvægi tilfærslutekna á árunum 2016-2019 15,9% á meðan það var 13,3% á árunum 2000-2003.

22. október 2020  |  Hagfræðideild

Samantekt

Ráðstöfunartekjur heimilanna jukust um 6,1% milli áranna 2018 og 2019. Ráðstöfunartekjur á mann jukust um 3,8% á sama tíma og kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann jókst um 0,7%. Launatekjur heimilanna jukust um 4,3% á milli þessara ára, rekstrarafgangur vegna eigin eignarhalds um 10% og eignatekjur um 6,4%. Þá jukust tilfærslutekjur heimilanna um 10,7% á milli ára, en þar er að mestu leyti að ræða greiðslur frá Tryggingastofnun og lífeyrissjóðum.
Ráðstöfunartekjurnar í fyrra hækkuðu ívið minna en næstu ára á undan. Þannig hækkuðu þær um 9,3% milli 2016 og 2017 og um 7,7% milli 2017 og 2018. Ráðstöfunartekjur hafa að meðaltali hækkað um 8,4% á ári frá aldamótum.

Ráðstöfunartekjur eru eitt þeirra tekjuhugtaka sem er miðað við mannfjölda og er þá talað um ráðstöfunartekjur á mann. Þá er miðað við meðalmannfjölda viðkomandi árs. Ráðstöfunartekjur á mann hafa að jafnaði hækkað um 7% á ári frá aldamótum.

Kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann hefur að meðaltali aukist um 2,3% á ári frá aldamótum, eða alls um tæp 53% á tímabilinu frá 1999 til 2019. Aukning hefur verið á hverju ári nema á árunum 2008-2010. Á árinu 2008 var kaupmáttur ráðstöfunartekna óbreyttur og hann féll svo um 14% og 12% árin þar á eftir.

Umræða um launa- og kjaramál hér á landi einskorðast oft við þróun launavísitölu. Launavísitala mælir allt annað en ráðstöfunartekjur. Þannig mælir launavísitalan laun á vinnustund og þar er ekki hirt um hvort vinnustundum fækkar eða fjölgar. Ráðstöfunartekjur er hins vegar tekjuhugtak sem sýnir hverju heimilin halda eftir þegar t.d. tekjuskattar hafa verið greiddir. Breytingar á vinnutíma, atvinnuþátttöku, sköttum og öðrum álögum hafa þannig engin áhrif á launavísitölu, en mikil áhrif á ráðstöfunartekjur.

Sé litið til baka má sjá að ráðstöfunartekjur hækkuðu mun meira en launavísitala á árunum fyrir hrun. Þá var hagkerfið í mikilli uppsveiflu, vinnutími langur og nýir tekjumöguleikar eins og fjármagnstekjur komu til sögunnar. Þá léku skattalækkanir líka sitt hlutverk þannig að ráðstöfunartekjur hækkuðu mikið. Við hrunið breyttist myndin skyndilega. Atvinnuleysi jókst mikið, fjármagnstekjur hurfu, skattar hækkuðu þannig að ráðstöfunartekjur lækkuðu mikið. Launavísitalan hélt hins vegar áfram á sinni siglingu eins og hún gerir jafnan og gerir enn í dag.

Sé litið á tekjuhliðina er ljóst að launatekjur vega langsamlega mest á tekjuhliðinni. Frá aldamótum hafa launatekjur verið að meðaltali 68% tekna og tilfærslutekjur um 15%. Sé litið yfir allt þetta tímabil má sjá hvernig vægi launatekna og eignatekna minnkaði í hruninu og tilfærslutekjur jukust. Vægi launatekna hefur aukist aftur, en vægi eignatekna er enn mun minna en það var orðið á árunum fyrir hrun. Vægi tilfærslutekna tók kipp upp á við í hruninu og er nú meira en það var á árunum eftir aldamót. Þannig var meðalvægi tilfærslutekna á árunum 2016-2019 15,9% á meðan það var 13,3% á árunum 2000-2003.

Eins og áður segir hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna aukist á hverju ári frá aldamótum nema í þrjú ár, 2008-2010. Mjög líklegt er að kaupmáttur ráðstöfunartekna minnki í ár og á næsta ári, fyrst og fremst vegna aukins atvinnuleysis og styttri vinnutíma. Þá má gera ráð fyrir minni eignatekjum og einnig minni rekstarafgangi frá eigin rekstri. Kaupmáttur launavísitölu mun hins vegar aukast, haldist verðbólga á svipuðum stað og er í dag. Þróun ráðstöfunartekna verður því mjög mismunandi milli þeirra sem halda starfi áfram við sömu aðstæður og áður og hinna sem lenda í atvinnuleysi.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Ráðstöfunartekjur heimilanna hafa aukist mikið í seinni tíð (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara.

No filter applied

Tengdar greinar