Hagsjá

Verulegur slaki á vinnumarkaði

Starfandi fólki á vinnumarkaði fækkaði um 0,9% frá því í september í fyrra. Venjulegum vinnustundum fækkaði um 2,8% á sama tíma. Þetta þýðir að fjöldi unninna stunda, eða vinnuaflsnotkun, minnkaði um 3,8% milli ára. Vinnuaflsnotkun hefur nú minnkað í 7 mánuði í röð.

23. október 2020  |  Hagfræðideild

Samantekt

Samkvæmt niðurstöðum vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofu Íslands er áætlað að um 207.100 manns hafi verið á vinnumarkaði í september, sem jafngildir 79,2% atvinnuþátttöku. Af fólki á vinnumarkaði voru um 198.500 starfandi og um 8.500 atvinnulausir og í atvinnuleit. Starfandi fólki fækkaði um 1.900 milli ára og atvinnulausum fjölgaði um 1.800. Hlutfall starfandi var 76% í september og hafði minnkað um 1,5 prósentustig frá september 2019.
Í apríl var atvinnuþátttaka 75,8% og hafði ekki verið lægri a.m.k. frá árinu 2003 þegar vinnumarkaðskönnunin hófst. Atvinnuþátttaka mældist meiri í maí og júní en hefur minnkað og mældist 79,2% nú í september.

Sé miðað við 12 mánaða hlaupandi meðaltal fór atvinnuþátttaka hæst um mitt ár 2017, en þá fór hún upp í tæp 84%. Samsvarandi tala nú er 79,8% og hefur verið tiltölulega stöðug síðustu 5 mánuði.

Samkvæmt vinnumarkaðskönnun voru um 8.500 atvinnulausir í september, sem samsvarar 4,1% atvinnuleysi, og hafði atvinnuleysi þá minnkað milli mánaða. Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar voru um 18.400 skráðir atvinnulausir í almenna bótakerfinu í lok september (án skerts starfshlutfalls), sem samsvarar 9% atvinnuleysi. Almennt atvinnuleysi að viðbættu atvinnuleysi í hlutabótakerfinu var hins vegar 9,8% í september og hafði aukist um 0,4 prósentustig frá mánuðinum á undan. Nánar verður fjallað um mismunandi mælingar á atvinnuleysi síðar í Hagsjánni.

Venjulegur vinnutími styttist verulega milli ágúst og september og hefur nú styst 6 mánuði í röð miðað við sama mánuð í fyrra. Vinnutími var 37,7 stundir í september sem er 1,1 stund styttra en var í september í fyrra.

Starfandi fólki á vinnumarkaði fækkaði um 0,9% frá því í september í fyrra. Venjulegum vinnustundum fækkaði um 2,8% á sama tíma. Þetta þýðir að fjöldi unninna stunda, eða vinnuaflsnotkun, minnkaði um 3,8% milli ára. Vinnuaflsnotkun hefur nú minnkað í 7 mánuði í röð.

Í greinargerð með niðurstöðum vinnumarkaðskönnunar fyrir september bendir Hagstofan á ýmsa örðugleika varðandi mælingu á atvinnuleysi. Þátttakendur í vinnumarkaðskönnun þurfa að uppfylla þrjú skilyrði til að teljast atvinnulausir. Í fyrsta lagi að vera án vinnu, í öðru lagi að vera í virkri atvinnuleit og í þriðja lagi að geta hafið störf innan tveggja vikna. Sérstakar aðstæður og óvissa á vinnumarkaði nú flækja þessi skilyrði. Þannig eru tengsl starfsmanna við fyrri atvinnurekanda ekki alltaf ljós, t.d. vegna tímabundinna lokana fyrirtækja og hlutabóta. Þá bendir Hagstofan einnig á að líklegt sé að þeir sem eru á atvinnuleysisskrá taki síður þátt í rannsókninni en þeir sem ekki eru á skrá. Slík brottfallsskekkja getur leitt til vanmats á atvinnuleysi í vinnumarkaðsrannsókninni.

Atvinnulausir samkvæmt mælingum Vinnumálastofnunar eru þeir sem hafa rétt til bóta. Staðan er hins vegar sú að tæpur fimmtungur þeirra sem fellur undir almennt atvinnuleysi hjá Vinnumálastofnun eru skilgreindir utan vinnumarkaðar í vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar og falla þá í hóp þeirra sem hafa þörf fyrir atvinnu. Sá hópur endurspeglar atvinnulausa og hlutastarfsfólk sem vill vinna meira en einnig þá sem ekki teljast til vinnuaflsins þar sem þeir uppfylla ekki eitt af fyrrnefndum þremur skilyrðum atvinnuleysis. Það þarf því ekki að koma á óvart að mælingar Hagstofunnar á atvinnuleysi eru töluvert frábrugðnar tölum Vinnumálastofnunar.

Niðurstöður vinnumarkaðskönnunar eru dökkar og koma ekki á óvart. Kórónuveirufaraldurinn hefur augljóslega haft mikil áhrif á íslenskan vinnumarkað. Vinnumarkaðurinn hefur tekið miklum og óvæntum breytingum eftir því sem áhrif faraldursins hafa orðið meiri. Þá er einnig ljóst að sú mikla óvissa sem hefur fylgt ástandinu hefur haft töluverð áhrif á mælingar vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofunnar.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Verulegur slaki á vinnumarkaði (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara.

No filter applied

Tengdar greinar