Hagsjá

Sterk kortavelta, lituð af aðstæðum

Í september jókst kortavelta Íslendinga mest í raf- og heimilistækjaverslunum. Kortavelta innanlands er nokkuð sterk, en þó lituð af samkomu- og ferðatakmörkunum. Heimilin virðast ekki eyða um efni fram.

28. október 2020  |  Hagfræðideild

Samantekt

Við greindum frá því á dögunum að kortavelta Íslendinga jókst talsvert innanlands í september þrátt fyrir að þriðja bylgja faraldursins hafi byrjað að gera vart við sig. Rannsóknarsetur verslunarinnar (RSV) birti síðan sundurliðun á kortaveltunni eftir útgjaldaliðum og þá sést að neyslan virðist lituð af færri samkomum og auknum tíma heima við.

Meiru var eytt í raf- og heimilistækjaverslunum í september í ár, samanborið við september í fyrra. Mörg heimili hafa þurft að koma sér upp vinnuaðstöðu og gæti það skýrt hluta aukningarinnar. Velta jókst einnig talsvert í byggingarvöruverslunum og verslunum með heimilisbúnað, auk áfengisverslana.
Íslendingar keyptu talsvert meira af fötum í september í ár en í september í fyrra, og mælist aukningin meiri en á fyrri mánuðum frá því að faraldurinn hófst. Fækkun utanlandsferða gæti hafa ýtt undir aukin fatakaup fólks hér á landi fyrir haustið.

Minna var eytt á veitingastöðum, í eldsneyti, í menningar- og tómstundastarfsemi auk ferðalaga í september í ár samanborið við september í fyrra. Þetta er líklega bein afleiðing af samkomutakmörkunum og sóttvarnaraðgerðum vegna faraldursins.

Heimilin virðast spara meira nú en áður. Á velti- og óbundnum innlánsreikningum liggja nú mun hærri fjárhæðir en á sama tíma í fyrra, og hefur munurinn aukist frá því að faraldurinn braust út. Sumir gætu verið að fresta neyslu, t.d. að spara fyrir utanlandsferðum sem farið verður í þegar faraldrinum linnir, aðrir gætu verið að koma sér upp varúðarsjóði meðan að óvissan er sem mest í efnahags- og atvinnulífinu.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Sterk kortavelta, lituð af aðstæðum (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara.

No filter applied

Tengdar greinar