Hagsjá

Efnahagsaðgerðir stjórnvalda vegna faraldursins fyrir fyrirtæki

Stuðningslánum (brúarlánum) var ætlað að sporna gegn rekstrarvanda fyrirtækja með því að bankar veittu fyrirtækjum lán með allt að 70% ríkisábyrgð. Seinni hluta október höfðu stuðningslán að fjárhæð um 5,9 ma.kr. verið veitt 742 fyrirtækjum sem þýðir að meðalupphæð hvers láns er einungis um 8 m.kr. Af því má vera ljóst að það eru fyrst og fremst lítil fyrirtæki sem nýta sér þetta úrræði.

9. nóvember 2020  |  Hagfræðideild

Samantekt

Allt frá því í mars hafa stjórnvöld staðið fyrir mótvægisaðgerðum vegna Covid-19. Það hefur gerst í allnokkrum áföngum og er yfirlýst markmið þeirra að verja grunnstoðir samfélagsins, vernda þá hópa sem á þurfa að halda, og veita viðspyrnu með ýmsum hætti sem snýr að fólki og fyrirtækjum.
Stjórnvöld hér á landi tóku snemma þá ákvörðun að taka ekki á yfirstandandi kreppu með niðurskurði og skattahækkunum eins og yfirleitt hefur verið gert. Þess í stað er reynt að beita ríkisútgjöldum til þess að styðja sem best við fyrirtæki og heimili til þess að lágmarka skakkaföll.

Við framlagningu fjárlaga var gert ráð fyrir að halli á rekstri ríkissjóðs í ár næmi nærri 270 mö.kr. og að álíka halli yrði á næsta ári. Sífellt er verið að taka nýjar ákvarðanir í ljósi nýrra aðstæðna þannig að samanlagður halli í ár og næsta ár gæti nálgast 600 ma.kr.

Úrræði sem hafa staðið fyrirtækjum til boða eru fjöldamörg. Má þar nefna greiðslu launakostnaðar á uppsagnarfresti, frestun skattgreiðslna, brúarlán til atvinnulífs og lokunar- og tekjufallsstyrki.

Í lok síðustu viku voru t.d. samþykkt lög um tekjufallsstyrki á Alþingi og var mikil samstaða um þær aðgerðir, m.a. í þá átt að skilyrði fyrir styrkjum verði rýmkuð þannig að styrkir standi fleirum til boða. Í upphaflegu frumvarpi var gert ráð fyrir að þessi stuðningspakki myndi kosta rúma 14 ma.kr., en nú er áætlaður kostnaður kominn í nálægt 23 ma.kr. Þetta einstaka mál er gott dæmi um hvernig þessi mál hafa þróast á síðustu mánuðum. Nú þegar farið er að hilla undir lok ársins og vonir standa enn til þess að versta ástandið sé yfirstaðið er hægt að horfa til baka á hvernig hinar ýmsu aðgerðir hafa verið nýttar og komið út.

Markmið frestunar skattgreiðslna var að gera launagreiðendum kleift að fresta skilum á staðgreiðslu skatts og tryggingagjaldi á árinu 2020. Í upphafi var heimiluð frestun á skilum helmings fjárhæðar sem var á gjalddaga 1. mars um mánuð. Síðar var heimiluð frestun á allt að þremur gjalddögum á tímabilinu 1. apríl-1. desember 2020 fram til 15. janúar 2021. Frestun tekjuskatts var töluverð í upphafi tímabilsins en hefur síðan farið minnkandi. Í september og október voru frestanir hverfandi, en aftur á móti hafa vanskil aukist töluvert.

Stuðningslánum (brúarlánum) var ætlað að sporna gegn rekstrarvanda fyrirtækja með því að bankar veittu fyrirtækjum lán með allt að 70% ríkisábyrgð. Hvert lán getur numið að hámarki 1,2 milljörðum króna. Þessi aðgerð fór hægt af stað en nú hefur verið sótt um alls 1007 stuðningslán. Heildarfjárhæð umsókna er um 8,6 ma.kr. Seinni hluta október höfðu stuðningslán að fjárhæð um 5,9 ma.kr. verið veitt 742 fyrirtækjum sem þýðir að meðalupphæð hvers láns er einungis um 8 m.kr. Af því má vera ljóst að það eru fyrst og fremst lítil fyrirtæki sem nýta sér þetta úrræði.

Lánveitendur gerðu með sér samkomulag í lok mars um tímabundna greiðslufresti á lánum til fyrirtækja. Samkomulagið var hluti af viðbrögðum fjármálafyrirtækja og lífeyrissjóða við áætluðum efnahagsáhrifum faraldursins. Þann 21. október voru 462 fyrirtæki í greiðsluhléi og námu skuldir þeirra um 67 mö.kr. Fyrirtækjum í greiðsluhléi hefur fækkað verulega frá því í sumar þegar þau voru í kringum 1.800. Fyrirtæki gátu sótt um frestun greiðslna hjá aðalviðskiptabanka sínum í allt að sex mánuði, en þó ekki lengur en út árið 2020. Hlutdeild atvinnugreina í greiðsluhléi er mjög mismunandi eftir því hvort horft er til fjölda fyrirtækja eða fjárhæðar, en ferðaþjónustan vegur lang þyngst í hvoru tveggja.

Margar þeirra aðgerða sem hefur verið gripið til í umhverfi kreppunnar fela ekki í sér bein útgjöld ríkissjóðs og á það við um sumt af því sem fjallað er um hér. Aðrar aðgerðir, eins og stuðningur til greiðslu launa á uppsagnarfresti, greiðsla launa í sóttkví og hlutabótaleiðin, fela í sér bein útgjöld. Þannig höfðu 351 rekstaraðili fengið greidda rúma 10 ma.kr. vegna greiðslu launa á uppsagnarfresti um miðjan október.

Ljóst er að ríkissjóður getur ekki haldið lengi áfram að taka jafn virkan þátt í aðgerðum gegn kreppunni og hann gerir nú enda er hluta aðgerðanna markaður ákveðinn líftími.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Efnahagsaðgerðir stjórnvalda vegna faraldursins fyrir fyrirtæki (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara.

No filter applied

Tengdar greinar