Hagsjá

Íbúðaverð hækkar um land allt

Hækkun íbúðaverðs mældist á bilinu 3-6% milli ára á þriðja ársfjórðungi í stærstu þéttbýliskjörnum landsins. Hækkunin var víða minni en á fyrri fjórðungum ársins, en engu að síður töluverð í ljósi aðstæðna.

10. nóvember 2020  |  Hagfræðideild

Samantekt

Á þriðja ársfjórðungi hækkaði íbúðaverð mest um 6% milli ára í Reykjanesbæ. Hækkunin var 5% á höfuðborgarsvæðinu, líkt og á Akranesi, en á Akureyri og í Árborg mældist minni hækkun, eða um 3%. Þetta eru nokkuð minni hækkanir milli ára en mældust á fyrri fjórðungum ársins, en engu að síður nokkrar í ljósi versnandi stöðu í atvinnu- og efnahagsmála, sér í lagi á þeim landsvæðum sem hafa reitt sig verulega á ferðaþjónustu.
Frá upphafi árs 2015 hefur íbúðaverð hækkað hraðar utan höfuðborgarsvæðis en á því, þó munurinn virðist vera að minnka. Miklar sveiflur geta verið milli mælinga, sérstaklega á minni svæðum, og því varasamt að lesa mikið í einstaka mælingar. Vísbendingar eru þó um að munurinn milli landsvæða sé að minnka þegar litið er til þróunarinnar fyrr á árinu þegar hækkanir mældust allt að 16% milli ára.

Athygli vekur að viðskipti með íbúðarhúsnæði hafa víða aukist þrátt fyrir þær aðstæður sem nú ríkja. Frá því í maí hefur aukningin í fjölda undirritaðra kaupsamninga verið mest á Vesturlandi, þar sem allt að 58% fleiri íbúðir hafa selst. Viðskipti jukust einnig talsvert á Suðurnesjum og voru 44% fleiri kaupsamningar undirritaðir þar á þriðja ársfjórðungi í ár, en í fyrra. Á höfuðborgarsvæðinu mældist aukningin 26% milli ára á þriðja ársfjórðungi, 17% á Norðurlandi eystra og 4% á Suðurlandi.

Á nær öllum þéttbýlissvæðum sem voru til skoðunar hefur hlutfall nýbygginga á meðal seldra íbúða aukist. Mestu munar í Reykjanesbæ og á Akranesi þar sem hlutfallið hefur aukist um 11 og 13 prósentustig milli ára.

Íbúðamarkaður virðist nokkuð líflegur um land allt, sérstaklega þegar litið er til fjölda viðskipta. Það er líklegt að vaxtalækkanir hafi ýtt undir áhuga fólks á að fjárfesta í íbúðarhúsnæði víðar en á höfuðborgarsvæðinu og uppbygging síðustu ára hafi aukið gæði þess húsnæðis sem í boði er.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Íbúðaverð hækkar um land allt (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara.

5850a07c-403d-11e5-af9c-0050568800ef

No filter applied

Tengdar greinar