Hagsjá

Efnahagsaðgerðir stjórnvalda fyrir heimilin vegna faraldursins

Beinn stuðningur stjórnvalda til heimila í tengslum við Covid-19-faraldurinn nemur einungis 12% af heildarumfangi stuðningsaðgerða fyrir heimilin. Stærsti hluti stuðningsins felst í heimild til að ganga á eigin lífeyrissparnað og óbeinum stuðningi í gegnum fyrirtæki. Beinn stuðningur til heimila frá upphafi aðgerða nemur 5,9 mö.kr. af heildarstuðningi upp á u.þ.b. 49 ma.kr.

11. nóvember 2020  |  Hagfræðideild

Samantekt

Beinn stuðningur stjórnvalda til heimila í tengslum við Covid-19-faraldurinn nemur einungis 12% af heildarumfangi stuðningsaðgerða fyrir heimilin. Stærsti hluti stuðningsins felst í heimild til að ganga á eigin lífeyrissparnað og óbeinum stuðningi í gegnum fyrirtæki.
Töluverð umræða hefur verið um það hvort veita eigi stuðning beint til einstaklinga, eða að beina honum að mestu í gegnum fyrirtækin eins og hér hefur verið gert. Inntakið í umræðunni er þá að með því að nota leiðir eins og hlutastarfaleið sé verið að reyna að tryggja óbreytt ástand atvinnulífs. Með því sé hugsanlega verið að halda fyrirtækjum gangandi sem sum hver séu ekki sjálfbær og störfin sem þeim tengjast því ekki sjálfbær heldur. Betra sé að styrkja launafólk og heimili beint, líkt og gert var í Bandaríkjunum í vor, og leyfa atvinnulífinu og markaðsöflunum að aðlaga sig sjálft að nýjum aðstæðum. Þetta eru stórar og erfiðar spurningar og þessi leið í raun ekki verið valin af stjórnvöldum nokkurs ríkis.

Beinn stuðningur til heimila frá upphafi aðgerða nemur 5,9 mö.kr. af heildarstuðningi upp á u.þ.b. 49 ma.kr., skv. upplýsingum stjórnvalda. Þarna er fyrst og fremst um að ræða barnabótaauka sem greiddur var út í vor og endurgreiðslu virðisaukaskatts á vinnulið í endurbótum vegna húsnæðis og bílaviðgerða. Í lok október var búið að afgreiða 6.900 umsóknir vegna bílaviðgerða upp á 135 m.kr. og 7.500 umsóknir vegna endurbóta húsnæðis frá einstaklingum upp á 2,3 ma.kr.

Stór hluti meints stuðnings til heimila eru heimildir til þess að taka úr séreignarsparnað. Í því sambandi er mikilvægt að halda því til haga að þetta er eigin sparnaður heimilanna og því ekki um beinan stuðning stjórnvalda að ræða. Hið sama má segja um greiðsluhlé einstaklinga. Undir lok október voru rúmlega 1.100 einstaklingar í greiðsluhléi og var upphæð skulda þá um 24 ma.kr. Flestir voru í greiðsluhléi í lok maí, rúmlega 4.100 manns, og var upphæð skulda þá rúmir 111 ma.kr.

Alls höfðu einstaklingar tekið út um 18,8 ma.kr. af séreignarsparnaði í lok október 2020. Snemma í faraldrinum var heimilað að taka út 12 m.kr. í jöfnum greiðslum, að hámarki kr. 800 þús.kr. á mánuði. Heimildin er opin til ársloka 2020 þannig að umfangið er ekki ljóst enn, en umfang úttekta hefur minnkað mikið. Stærstur hluti úttektarinnar fór fram á tímabilinu maí til júlí, t.d. voru tæpir 3,6 ma.kr. teknir út í maí og 3,5 ma.kr. í júní. Alls er reiknað með að um 23,5 ma.kr. af séreignarsparnaði heimilanna verði tekinn út vegna faraldursins. Í raun er þessi aðgerð tekjuaukandi fyrir ríkissjóð þar sem greiða þarf fullan tekjuskatt af úttekt séreignarsparnaðar en að sama skapi dragast framtíðarskatttekjur saman.

Bætur vegna hlutaatvinnuleysis eru stærsti útgjaldaliðurinn í aðgerðum stjórnvalda sem snúa að heimilunum, þó með óbeinum hætti sé. Úrræðið tók gildi um miðjan mars 2020 og átti í upphafi að gilda út ágústmánuð, en hefur nú verið framlengt til áramóta. Með hlutabótum var stefnt að því að viðhalda ráðningarsambandi starfsmanna fyrirtækja í rekstrarvanda sem geta tímabundið lækkað starfshlutfall þeirra.

Það sem af er ári hafa útgjöld vegna hlutabóta numið rúmum 21 mö.kr., en reiknað var með útgjöldum á árinu upp á allt að 34 ma.kr. Útgjöld til venjulegra atvinnuleysisbóta nema 30,8 mö.kr., en reiknað hafði verið með að þau yrðu um 56 ma.kr. á árinu. Þá höfðu verið greiddar um 260 m.kr. í lok september vegna greiðslu launa í sóttkví.

Eins og fram hefur komið má ætla að heildarstuðningur við heimilin vegna faraldursins hafi fram að þessu numið um 49 mö.kr. Þar af er beinn stuðningur aðeins um 6 ma.kr. Það er ljóst að fjöldi heimila hefur orðið fyrir verulegum skakkaföllum vegna atvinnuleysis, en útlit er fyrir að það verði áfram hátt næstu mánuði. Það er því mikilvægt að stjórnvöld séu á tánum og tilbúin til þess að grípa til markvissra aðgerða til að milda höggið á þau heimili sem verða fyrir mestum efnahagsáhrifum af faraldrinum.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Efnahagsaðgerðir stjórnvalda fyrir heimilin vegna faraldursins (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara.

No filter applied

Tengdar greinar