Hagsjá

Atvinnuleysi heldur áfram að aukast, en hlutfallslega minna en í síðustu kreppu

Hlutfallsleg aukning atvinnuleysis var miklu meiri í kjölfar kreppunnar 2008 en verið hefur nú í faraldrinum þar sem atvinnuleysi var tiltölulega lítið þegar kreppan skall á 2008. Á fyrra tímabilinu var um næstum fimmföldun atvinnuleysis að ræða á fyrstu mánuðunum, á meðan það hefur rúmlega tvöfaldast á þessu ári. Breytingin var þannig hlutfallslega mun hraðari þá en á þessu ári.

17. nóvember 2020  |  Hagfræðideild

Samantekt

Hlutfallsleg aukning atvinnuleysis var mun meiri í kjölfar kreppunnar 2008 en verið hefur nú í faraldrinum þar sem atvinnuleysi var tiltölulega lítið þegar kreppan skall á 2008. Á fyrra tímabilinu var um næstum fimmföldun atvinnuleysis að ræða á fyrstu mánuðunum, á meðan það hefur rúmlega tvöfaldast á þessu ári.

Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar var almennt skráð atvinnuleysi í október 9,9% af áætluðum fjölda fólks á vinnumarkaði og hafði aukist úr 9,0% frá því í september. Um 25.000 manns voru á atvinnuleysisskrá, þar af 20.252 atvinnulausir og um 4.759 í minnkuðu starfshlutfalli. Atvinnuleysi sem tengist hlutabótaleið hækkaði úr 0,8% í 1,2% milli mánaða. Samanlagt atvinnuleysi var því 11,9% í október, en var 11,1% í september.

Almennt atvinnuleysi hefur aukist stöðugt frá því í júní, en þá hafði það verið stöðugt í 3 mánuði. Reiknað er með að aukningin haldi áfram enn um hríð þar sem mikil óvissa ríkir enn um þróun faraldursins. Vinnumálastofnun reiknar þannig með að almenna atvinnuleysið verði 11,3% í desember. Það þýðir að meðaltal atvinnuleysis á árinu yrði 7,9%. Meðalatvinnuleysi í fyrra var 3,6%.

Í október 2008, þegar fjármálakreppan skall á af fullum þunga, var skráð atvinnuleysi 1,9%. Í febrúar 2020, rétt áður en faraldurinn skall á var atvinnuleysi á landinu öllu 5%, og hafði aukist nokkuð á árinu 2019.

Nú, 8 mánuðum eftir að faraldurinn hófst í febrúar, er atvinnuleysið enn að aukast. Þegar 8 mánuðir voru liðnir frá upphafi fjármálakreppunnar í október 2008 hafði dregið nokkuð úr atvinnuleysinu, en það átti svo eftir að aukast nokkuð aftur. Atvinnuleysið í fjármálakreppunni fór hæst í 9,3% í apríl og maí 2010, eða einu og hálfu ári eftir að kreppan skall á. Atvinnuleysið nú í október er því orðið meira en þegar verst lét í fjármálakreppunni og á eftir að aukast nokkuð enn.
Eins og áður segir var atvinnuleysið mun lægra við upphaf kreppunnar 2008 en það var nú á árinu 2020. Nálgast má nettó áhrif hvorrar kreppu um sig með því að skoða breytingarnar frá upphafspunkti.

Hlutfallsleg aukning atvinnuleysis var miklu meiri í kjölfar kreppunnar 2008 en verið hefur nú. Á fyrra tímabilinu var um næstum fimmföldun atvinnuleysis að ræða, á meðan það hefur rúmlega tvöfaldast á þessu ári. Breytingin á ástandinu var þannig hlutfallslega mun hraðari þá en á þessu ári, en auðvitað þarf að hafa í huga að fjöldi atvinnulausra er meiri nú og þar að auki hafa nokkuð margir verið á hlutabótum á þessu ári sem ekki er talið með í þessum samanburði.

Almennt atvinnuleysi fór úr 18,6% upp 20,1% á Suðurnesjum milli september og október sem þýðir að atvinnuleysið er u.þ.b. tvöfalt meira á Suðurnesjum en á höfuðborgarsvæðinu þar sem það er næst mest. Heildaratvinnuleysið á Suðurnesjum var 21,2% í október.

Í síðustu kreppu var atvinnuleysið einnig mest á Suðurnesjum, en þó mun lægra en það var nú. Fjórum mánuðum eftir upphaf kreppunnar 2008 var atvinnuleysi 13,5% á Suðurnesjum, sem er svipað og var nú í júní 2020. 2008 fór að draga úr atvinnuleysi á Suðurnesjum eftir fjóra mánuði, en það jókst síðan aftur og náði hámarki í febrúar 2010, í 15%. Atvinnuleysi á Suðurnesjum hefur hins vegar aukist stöðugt frá því í júní á þessu ári.

Staðan við upphaf hvorrar kreppu um sig var hins vegar mismunandi. Atvinnuleysið á Suðunesjum var 4,3% í október 2008 og 9,1% í febrúar 2020. Nú í október var atvinnuleysið orðið 2,2 sinnum meira á Suðurnesjum en það var í febrúar í ár. Á sambærilegum tímapunkti í fjármálakreppunni var atvinnuleysið hins vegar orðið 2,8 sinnum meira. Einöngruð áhrif fjármálakreppunnar voru þannig meiri á fyrstu mánuðunum en hefur verið á þessu ári.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Atvinnuleysi heldur áfram að aukast, en hlutfallslega minna en í síðustu kreppu (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara.

5850a07d-403d-11e5-af9c-0050568800ef

No filter applied

Tengdar greinar