Hagsjá

Aukin neysla Íslendinga dugir ekki alls staðar til

Íslendingar hafa aukið neyslu sína innanlands verulega eftir að COVID-19-faraldurinn hófst, sem hefur stutt aukna veltu smásöluverslana. Íslendingar ná þó ekki að bæta upp fyrir minni veltu vegna fækkunar ferðamanna á veitinga- og gististöðum.

17. nóvember 2020  |  Hagfræðideild

Samantekt

Veirufaraldurinn hefur breytt ýmsu í neysluvenjum fólks. Íslendingar komust lítið til útlanda í sumar og nýttu margir sumarið til að ferðast innanlands. Frá áramótum hefur kortavelta Íslendinga aukist um 2% innanlands miðað við fast verðlag.

Kortavelta eftir útgjaldaliðum hefur leitt í ljós að kaup á ýmsum varningi til heimilisins hefur aukist, ásamt veltu í áfengis- og matvöruverslunum, þar sem auknum tíma er varið heima. Þegar samkomutakmarkanir leyfðu og sumarfrí voru í hámarki, jókst kortavelta Íslendinga einnig talsvert á gististöðum. Aukin neysla Íslendinga hefur þó ekki vegið fyllilega upp á móti samdrætti sem hefur orðið hjá mörgum fyrirtækjum vegna fækkunar ferðamanna.
Velta samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum sýnir að velta smásöluverslana hefur aukist á sama tíma og samdráttur er mikill hjá fyrirtækjum í gisti- og veitingaþjónustu. Smásala jókst um tæp 4% milli ára á fyrstu 8 mánuðum árs miðað við fast verðlag. Þetta er nokkuð meiri aukning en mældist milli ára í fyrra (1,7%) og allt annar veruleiki en blasir við rekstraraðilum í gisti- og veitingaþjónustu. Þar var samdráttur þegar hafinn í fyrra, enda voru áföll nokkur í ferðaþjónustu áður en Covid-19-faraldurinn hófst. Á fyrstu 8 mánuðum þessa árs hefur velta á gististöðum dregist saman um tæp 60% að raunvirði og velta á veitingastöðum um 27%.

Erlendir ferðamenn hafi verið mun fyrirferðameiri á gististöðum en veitingastöðum og stóðu undir um 90% af kortaveltunni þar í fyrra. Það kemur því ekki á óvart að höggið sé einna mest þar. Á veitingastöðum stóðu ferðamenn undir um þriðjungi kortaveltunnar í fyrra, en í verslunum var hlutfallið ekki nema 8%. Auðvitað er það misjafnt eftir tegund verslunar, en almennt hefur smásala ekki fundið jafn mikið fyrir fækkun ferðamanna og þjónustugreinar á borð við veitinga- og gistiþjónustu.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Aukin neysla Íslendinga dugir ekki alls staðar til (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara.

No filter applied

Tengdar greinar