Hagsjá

Hófleg hækkun launavísitölu í maí - endurskoðun kjarasamninga framundan

Kaupmáttur launa hefur aldrei mælst hærri en var í apríl þegar hann tók stökk upp á við. Kaupmáttur launa var 0,2% lægri í maí en í apríl, en engu að síður sá næst hæsti sem hefur mælst í einum mánuði. Sú staða er reyndar mjög athyglisverð í ljósi þess að hallað hefur verulega undan fæti í efnahagslífinu.

22. júní 2020  |  Hagfræðideild

Samantekt

Launavísitalan hækkaði um 0,3% milli apríl og maí samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Síðustu 12 mánuði hefur launavísitalan hækkað um 6,4%, sem er aðeins minni ársbreyting en var í síðasta mánuði. Árshækkunartaktur launavísitölunnar var rúmlega 4% allan seinni hluta ársins 2019, en tók stökk upp á við nú í apríl og maí.
Svo virðist sem launabreytingar sem tengjast kjarasamningum opinberra starfsmanna hafi að langmestu leyti mælst í launavísitölunni í apríl og það sama megi segja um áfangahækkanir á almenna markaðnum.

Það sem af er árinu hefur launavísitalan hækkað að meðaltali um 1% á mánuði. Útlit er fyrir að hægja muni á hækkun vísitölunnar á seinni helmingi ársins þar sem næstu áfangahækkanir samkvæmt kjarasamningum verða ekki fyrr en 1. janúar á næsta ári, verði kjarasamningar enn í gildi þá, en samkvæmt ákvæðum samninga á að fara fram mat á forsendum þeirra í september.

Það kann að skjóta skökku við að launabreytingar séu að mælast þetta miklar miðað við þá stöðu sem hagkerfið hefur verið í á síðustu mánuðum. Í því sambandi er mikilvægt að halda því til haga að launavísitölunni er ætlað að sýna launabreytingar fyrir fastan vinnutíma þannig að breytingar á vikulegum vinnutíma og fjöldi vinnustunda hafa almennt ekki áhrif á vísitöluna. Launavísitalan endurspeglar þannig verðbreytingu vinnustundar fyrir fastan vinnutíma. Breytingar á reglulegum aukagreiðslum eins og álags- og bónusgreiðslum sem eru gerðar upp með reglulegum launagreiðslum koma beint inn í launavísitölu en vinnutímabreytingarnar ekki.

Launavísitalan er því ekki góð aðferð til þess að mæla tekjuþróun. Í því samhengi fer betur á að skoða t.d. vísitölu heildarlauna, þar sem breytingar á vinnutíma fólks koma inn í myndina. Þá gefa breytingar á atvinnutekjum eða ráðstöfunartekjum einnig góða mynd af tekjuþróun í samfélaginu, en upplýsingar um þær stærðir eru yfirleitt seint á ferðinni.

Kaupmáttur launa hefur aldrei mælst hærri en var í apríl þegar hann tók stökk upp á við. Kaupmáttur launa var 0,2% lægri í maí en í apríl, en engu að síður sá næst hæsti sem hefur mælst í einum mánuði. Sú staða er reyndar mjög athyglisverð í ljósi þess að hallað hefur verulega undan fæti í efnahagslífinu.

Sé litið á launabreytingar hjá stóru hópunum á vinnumarkaðnum frá 1. ársfjórðungi 2019 fram til sama tíma 2020 sést að launin á almenna markaðnum hækkuðu um 5,6% á þessum tíma á meðan þau hækkuðu um 2,9% á þeim opinbera. Mæld launavísitala hækkaði um 4,9% á sama tíma.

Þessar tölur ná einungis fram á 1. ársfjórðung í ár og er ljóst að frá og með apríl 2020, þegar áhrif kjarasamninga á almenna markaðnum komu að fullu inn í launavísitöluna, mun þessi munur sem myndaðist á síðasta ári á milli almenna og opinbera markaðarins fara að renna aftur í eðlilegt horf.

Af starfsstéttum hækkuðu laun iðnaðarmanna og tækna og sérmenntaðs fólks mest milli ára, um og yfir 7%. Laun stjórnenda og verkafólks hækkuð minnst. Tiltölulega lítil launabreyting verkafólks kemur á óvart í ljósi markmiða lífskjarasamningsins um meiri hækkun lægstu launa en annarra.

Flestir hópar hafa nú lokið kjarasamningum nema kennarar og hjúkrunarfræðingar. Samkomulag hefur nú náðst um öll meginatriði kjarasamnings hjúkrunarfræðinga, þar á meðal um breytt vinnufyrirkomulag í dagvinnu og vaktavinnu. Ekki tókst að útkljá deilu um laun hjúkrunarfræðinga í samningaviðræðum. Ríkissáttasemjari lagði til miðlunartillögu um öll atriði kjarasamnings hjúkrunarfræðinga nema launin, en sú spurning verður ákvörðuð í gerðardómi, verði miðlunartillagan samþykkt.

Af hálfu samninganefndar ríkisins hefur því verið haldið fram að launakröfur hjúkrunarfræðinga hafi gengið mun lengra en almennt hefur verið samið um innan ramma lífskjarasamningsins og verður spennandi að sjá hver niðurstaða gerðardóms verður fari málið í þann farveg.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Hófleg hækkun launavísitölu í maí - endurskoðun kjarasamninga framundan (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara.

0eaeab23-b483-11ea-9115-005056be2922

No filter applied

Tengdar greinar