Hagsjá

Mikill samdráttur í nær öllum atvinnugreinum

Velta samkvæmt VSK-skýrslum dróst saman um 12% milli ára á fyrstu sex mánuðum ársins sem er mesti samdráttur síðan 2009. Velta í atvinnugreinum sem tengjast ferðþjónustu dróst mest saman.

28. ágúst 2020  |  Hagfræðideild

Samantekt

Velta í virðisaukaskattsskyldri atvinnustarfsemi1 hér á landi nam alls 1.980 mö.kr. á fyrri helmingi þessa árs og hefur ekki verið lægri síðan á fyrri hluta ársins 2017. Samdrátturinn milli ára á fyrstu 6 mánuðum ársins nemur 12% miðað við fast verðlag og hefur ekki verið meiri síðan á seinni hluta árs 2009. Það er nokkuð ljóst að hagkerfið er að ganga í gegnum mikla niðursveiflu um þessar mundir, og má rekja samdráttinn í VSK-veltu til fækkunar ferðamanna og minni innlendrar eftirspurnar sökum samkomutakmarkana og aukins atvinnuleysis.
Veltumestu atvinnugreinarnar eru heild- og smásöluverslun2. Velta heildverslana nam 355 mö.kr. á fyrri hluta þessa árs og dróst saman um 10% að raunvirði milli ára. Velta smásöluverslana jókst hins vegar um 4% að raunvirði og nam alls 245 mö.kr. Aukningin í veltu smásöluverslana átti sér stað á sama tíma og velta flestra annarra atvinnugreina dróst saman og er til marks um verulega aukna neyslu Íslendinga innanlands, sem vegur upp á móti tekjusamdrætti af fækkun ferðamanna.

Aðrar atvinnugreinar fundu verulega fyrir hertum samkomutakmörkunum og þar með minni eftirspurn bæði frá heimamönnum og ferðamönnum. Má þar helst nefna veltu ferðaskrifstofa og ferðaskipuleggjanda sem dróst saman um 65% að raunvirði á fyrstu 6 mánuðum árs.

Velta á gisti- og veitingastöðum dróst einnig talsvert saman þó svo að Íslendingar hafi verið duglegir að nýta sér þá þjónustu þegar samkomutakmarkanir innanlands leyfðu. Það virtist þó ekki hafa dugað til að vega á móti samdrættinum, sem var rúm 40% milli ára á fyrri hluta árs.

Við sjáum að á heildina litið virðist samdráttur í VSK-skyldri veltu vera talsverður á fyrstu 6 mánuðum árs, en flestar spár hafa bent til þess að samdrátturinn í ár verði sá mesti í manna minnum. Ákveðnar atvinnugreinar virðast þó verða fyrir meira höggi en aðrar.

 

1) Öll velta að frádreginni lyfja- og landbúnaðarframleiðslu og skógrækt.
2) Að vélknúnum ökutækjum undanskildum.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Mikill samdráttur í nær öllum atvinnugreinum (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara.

1285bd06-e91f-11ea-9115-005056be2922

No filter applied

Tengdar greinar