Hagsjá

Fasteignaverð tekur smá kipp upp á við í upphafi árs

Samkvæmt tölum Þjóðskrár hækkaði fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu um 1,0% í janúar. Þar af hækkaði verð á fjölbýli um 1,1% og verð á sérbýli hækkaði um 0,7%. Þetta er mesta hækkun sem mælst hefur á fjölbýli síðan í maí í fyrra þegar verð hækkaði um 2,1%.

21. febrúar 2018  |  Hagfræðideild

Samantekt

Samkvæmt tölum Þjóðskrár hækkaði fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu um 1,0% í janúar. Þar af hækkaði verð á fjölbýli um 1,1% og verð á sérbýli hækkaði um 0,7%. Þetta er mesta hækkun sem mælst hefur á fjölbýli síðan í maí í fyrra þegar verð hækkaði um 2,1%.

Verð á fjölbýli hefur hækkað um 12% á síðustu 12 mánuðum og verð á sérbýli um 15%. Heildarhækkun húsnæðisverðs nemur 13%. Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hafði nú í janúar hækkað um 2,4% á síðustu sex mánuðum, en hækkaði um 8,5% næstu sex mánuði þar á undan. Verðhækkanir hafa verið litlar síðasta hálfa árið og væntingar hafa staðið til þess að meiri ró verði á þessum markaði á næstu misserum. Þessi niðurstaða fyrir janúar þarf ekki að raska þeirri spá.

Viðskipti með fasteignir á höfuðborgarsvæðinu voru minni með fjölbýli í janúar en í síðustu tvo mánuði þar á undan. Viðskipti með sérbýli hafa verið stöðugri síðustu mánuði. Sé litið á fjölda viðskipta í lengra samhengi má sjá að þeim hefur fækkaði í fyrsta skipti í langan tíma milli ára og viðskiptin á árinu 2017 voru álíka mikil og á árinu 2015.


Allt frá árinu 2016 dró í sundur milli hækkunar fasteignaverðs og hækkunar byggingarkostnaðar. Samkvæmt þessum einfalda samanburði varð sífellt hagstæðara að byggja húsnæði til þess að selja. Það tók að breytast sl. sumar þegar hækkanir á raunverði fjölbýlis drógust verulega saman á sama tíma og byggingarkostnaður, mældur með vísitölu byggingarkostnaðar, tók að hækka. Þessir ferlar hafa nú nálgast hvorn annan og innbyrðis staða þeirra er svipuð nú og var á seinni hluta ársins 2016.

Síðustu 2-3 ár hafa einkennst að því að verð á fjölbýli hefur hækkað mun meira en kaupmáttur launa. Sú þróun stöðvaðist um mitt síðasta ár þegar dró verulega úr verðhækkunum fjölbýlis. Einnig dró nokkuð úr hækkunum á kaupmætti  launa á seinni hluta ársins 2017 þannig að þessar stærðir héldust nokkuð vel í hendur á seinni hluta ársins 2017. Það lítur því ekki út fyrir að samhengi þessara stærða taki mikla dýfu niður á við eins og gerðist á árunum eftir hrun.

Eins og alltaf er varasamt að horfa mjög mikið á niðurstöðu einstakra mánaða við mat á verðþróun á fasteignamarkaði. Þróunin á seinni hluta ársins 2017 bendir hins vegar eindregið til þess að kaflaskil hafi orðið á fasteignamarkaðnum á höfuðborgarsvæðinu. Janúartölurnar sýna dálítið frábrugðinn takt, en eftir er að sjá hvort sú þróun heldur áfram.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Fasteignaverð tekur smá kipp upp á við í upphafi árs (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara.

26ee7d4b-16e1-11e8-8924-0050568800ef

No filter applied

Tengdar greinar