Hagsjá

Mikill samdráttur kortaveltu í apríl

Í apríl dróst kortavelta innanlands saman um tæp 13% milli ára, sem er mesti samdráttur síðan 2009. Erlendis dróst kortavelta saman um 67%, en utanlandsferðir voru nánast engar í mánuðinum. Vísbendingar eru um að Íslendingar ætli að verja sumrinu innanlands og verður neysla því í auknum mæli innlend þó áhrif netverslunar erlendis frá séu engu að síður talsverð.

13. maí 2020  |  Hagfræðideild

Samantekt

Seðlabanki Íslands birti fyrr í dag gögn um veltu innlendra greiðslukorta í apríl. Alls nam velta tengd verslun og þjónustu innanlands 54 mö. kr. og dróst saman um 12,9% milli ára miðað við fast verðlag, sem er mesti samdráttur sem hefur mælst síðan í október 2009. Erlendis nam greiðslukortavelta innlendra korta 6 mö. kr. í apríl, sem er 67,4% minni velta en í apríl fyrir ári síðan miðað við fast gengi. Samdráttur erlendis hefur ekki mælst meiri síðan í desember 2008.
Apríl er fyrsti heili mánuðurinn þar sem samkomubann ríkti hér á landi og gefur því ágætis mynd af því hver áhrifin af verulegum takmörkunum daglegs lífs geta verið á neysluvenjur fólks. Kortafærslur voru 23% færri en í apríl fyrir ári síðan í verslunum innanlands, sem bendir til þess að fólk hafi farið mun sjaldnar í verslanir, en þó verslað meira inn í hvert sinn.

Utanlandsferðir Íslendinga voru 99% færri í apríl í ár samanborið við apríl í fyrra og kemur því ekki á óvart að sjá kortaveltu erlendis dragast saman. Það hefði þó mátt búast við enn þá meiri samdrætti í ljósi nær engra utanlandsferða. Við þessar aðstæður kemur í ljós að stór hluti af kortaveltu Íslendinga erlendis frá er vegna netverslunar, til að mynda áskriftum að streymisveitum. Það er því ljóst að hluti einkaneyslunnar verður áfram innfluttur þó svo að ferðalög dragist saman.

Ný könnun EMC rannsókna gaf til kynna að 63% landsmanna telja að þau munu ferðast meira innanlands sumarið í ár en í fyrra. Tæp 60% ætla að ferðast um með tjald, fellihýsi eða húsbíl. Þessi áform eru vel sjáanleg í gögnum Samgöngustofu um nýskráða tjaldvagna og hjólhýsi, en í apríl fjölgaði nýskráningum af slíkri gerð um 63% milli ára. Nýskráðum fólksbifreiðum fækkaði hins vegar um 65% milli ára í apríl en gera má ráð fyrir því að minni umsvif bílaleiga hafi þar meðal annars áhrif.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Mikill samdráttur kortaveltu í apríl (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara.

3ad32c50-9529-11ea-9115-005056be2922

No filter applied

Tengdar greinar