Hagsjá

Töluvert dró úr atvinnuleysi í maí - atvinnuleysi er þó áfram mikið

Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar var skráð atvinnuleysi í maí 13% af áætluðum fjölda fólks á vinnumarkaði og hafði minnkað úr 17,8% í apríl. Atvinnuleysi á Suðurnesjum er áfram hið mesta á landinu. Það lækkaði reyndar úr 25,2% í apríl í 19,6% nú í maí. Atvinnuleysi heldur áfram að vera næst mest á höfuðborgarsvæðinu, minnkaði úr 18,7% í apríl niður í 13,5% í maí.

16. júní 2020  |  Hagfræðideild

Samantekt

Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar var skráð atvinnuleysi í maí 13% af áætluðum fjölda fólks á vinnumarkaði og hafði minnkað úr 17,8% í apríl. Um 33.300 manns eru á atvinnuleysisskrá, þar af 16.100 atvinnulausir og 17.200 í minnkuðu starfshlutfalli.

Minnkun atvinnuleysis sem tengist hlutabótaleið er helsta ástæða breytingarinnar, en það lækkaði úr 10,3% í 5,6%. Almenna atvinnuleysið var hins vegar svipað, 7,5% í apríl og 7,4% í maí.

Um 21.500 einstaklingar voru á hlutabótaleiðinni í maí. Þeim fækkaði stöðugt og voru orðnir 17.200 í lok mánaðarins. Gera má ráð fyrir að áfram fækki í hópi þeirra sem fá bætur eftir hlutabótaleið allt fram til ágústloka, enda er gert ráð fyrir að úrræðið renni sitt skeið í ágúst.

Almennt atvinnuleysi mun trúlega aukast nokkuð fram í september enda mikið af hópuppsögnum að koma til framkvæmda síðsumars, einkum í ágúst. Líklegt er að almennt atvinnuleysi fari yfir 8% í júlí til september, en atvinnuleysi tengt hlutabótaleiðinni verði þá hverfandi.

Vinnumálastofnun gerir ráð fyrir að atvinnuleysi lækki nokkuð í júní samhliða því að fólk haldi áfram að skrá sig úr hlutabótaleiðinni. Þegar tímabundnar aðgerðir stjórnvalda taka enda blasir við að hluti þeirra sem nú eru á atvinnuleysisbótum, bæði á hlutabótum og á uppsagnarfresti, komi inn í hefðbundna atvinnuleysistryggingarkerfið.
Atvinnuleysi á Suðurnesjum er áfram hið mesta á landinu. Það lækkaði reyndar úr 25,2% í apríl í 19,6% nú í maí. Almennt atvinnuleysi jókst á Suðurnesjum, fór í 12,2% í maí úr 11,2% í apríl.

Atvinnuleysi heldur áfram að vera næst mest á höfuðborgarsvæðinu, minnkaði úr 18,7% í apríl niður í 13,5% í maí. Suðurland er í þriðja sæti með 12,3% atvinnuleysi og því næst Norðurland eystra með 10,8%. Atvinnuleysi er áfram minnst á Norðurlandi vestra, 6,5% í maí.

Hagstofan birti í síðustu viku tölur um fjölda starfandi á íslenskum vinnumarkaði í janúar og febrúar í ár. Í janúar og febrúar störfuðu að jafnaði um 190.100 manns á aldrinum 16–74 ára á íslenskum vinnumarkaði sem var 1,4% samdráttur miðað við sama tímabil 2019.

Sé þróun á fjölda starfandi hins vegar skoðuð yfir lengri tíma má sjá að merki um fækkun á vinnumarkaði mátti fyrst sjá í upphafi ársins 2019. Fækkun frá fyrra ári kom fyrst fram í mars 2019 og frá því í maí 2019 hefur verið um stöðuga fækkun að ræða. Í júlí 2019 voru um 214 þúsund manns á vinnumarkaði hér á landi, en þeir voru rúmlega 190 þúsund nú í upphafi ársins. Það hefur því fækkað um u.þ.b. 11% á tímabilinu.

Það er ljóst að atvinnuleysi á eftir að verða mikið það sem eftir er ársins. Síðsumars mun fjöldi fólks sem enn fær laun á uppsagnarfresti bætast við fjölda atvinnulausra.

Þróunin á næstu vikum og mánuðum, sérstaklega í ferðaþjónustu, mun gefa nokkuð góðar vísbendingar um hvernig atvinnustigið mun þróast áfram, en líklegt er að tímarnir verði áfram erfiðir.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Töluvert dró úr atvinnuleysi í maí - atvinnuleysi er þó áfram mikið (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara.

4889352c-afb7-11ea-9115-005056be2922

No filter applied

Tengdar greinar