Hagsjá

Meiri hækkun íbúðaverðs utan höfuðborgarsvæðisins

Á fyrsta ársfjórðungi hækkaði íbúðaverð mest milli ára á Akranesi, um 16%. Til samanburðar hækkaði verð um 3,4% á höfuðborgarsvæðinu. Á Akranesi mældist ekki samdráttur í íbúðasölu í samkomubanni líkt og í öðrum þéttbýliskjörnum.

9. júní 2020  |  Hagfræðideild

Samantekt

Allt frá því í ágúst 2017 hefur árshækkun íbúðaverðs utan höfuðborgarsvæðisins mælst ofar sambærilegum verðhækkunum á höfuðborgarsvæðinu og landinu öllu samkvæmt vísitölu markaðsverðs íbúðarhúsnæðis, sem Hagstofan reiknar. Maímælingin, sem byggir á meðaltali íbúðaverðs síðustu þriggja mánaða á undan, sýndi fram á 10,7% hækkun íbúðaverðs utan höfuðborgarsvæðisins. Til samanburðar nam hækkunin 5,7% á landinu öllu. Hækkunin milli ára í maí utan höfuðborgarsvæðisins er sú mesta síðan í desember 2018.

Samkvæmt gögnum úr Verðsjá Þjóðskrár Íslands hefur verð ríflega tvöfaldast í Árborg á síðustu 5 árum og hækkað um 93% í Reykjanesbæ. Á höfuðborgarsvæðinu mælist til samanburðar um 50% hækkun frá upphafi árs 2015.
Sé litið til þróunar á milli 1. ársfjórðungs 2019 og 2020 má sjá að íbúðaverð hækkaði mest á Akranesi um 16%, næstmest í Árborg um ríflega 10% og um 8% á Akureyri. Á höfuðborgarsvæðinu hefur verð hækkað um 3,4% yfir tímabilið.

Gera má ráð fyrir því að áhrif Covid-19 faraldursins á íbúðamarkaði verði meiri á öðrum ársfjórðungi en þeim fyrsta. Líkt og við höfum áður greint frá voru merki um samdrátt á höfuðborgarsvæðinu í apríl og sömu sögu má segja um aðra þéttbýliskjarna á landinu. Mestur var samdrátturinn í Reykjanesbæ, um 63%. Viðskipti drógust einnig saman á Akureyri og í Árborg. Nokkuð áberandi aukning mældist þó á Akranesi þar sem 34 kaupsamningum var þinglýst í apríl í ár til samanburðar við 19 í apríl í fyrra. Varasamt getur þó verið að lesa í einstaka breytingar milli mánaða og skýrist staðan betur eftir því sem líður á fjórðunginn.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Meiri hækkun íbúðaverðs utan höfuðborgarsvæðisins (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara.

54bc3734-aa4f-11ea-9115-005056be2922

No filter applied

Tengdar greinar