Hagsjá

Töluverð lækkun á fasteignaverði í nóvember

Samkvæmt tölum Þjóðskrár lækkaði fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu um 0,7% í nóvember. Lækkanir á fasteignaverði eru frekar sjaldgæfar milli mánaða og þarf að fara aftur til sumarsins 2014 til þess að finna jafn mikla lækkun og þessa.

20. desember 2017  |  Hagfræðideild

Samantekt

Samkvæmt tölum Þjóðskrár lækkaði fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu um 0,7% í nóvember. Þar af lækkaði verð á fjölbýli um 0,9% og verð á sérbýli um 0,2%. Lækkanir á fasteignaverði eru frekar sjaldgæfar milli mánaða og þarf að fara aftur til sumarsins 2014 til þess að finna jafn mikla lækkun og þessa.

Verð á fjölbýli hefur hækkað um 13,8% á síðustu 12 mánuðum og verð á sérbýli um 19%. Heildarhækkun húsnæðisverðs nemur 15,1%. Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hafði nú í nóvember hækkað um 1,8% á síðustu sex mánuðum, en hækkaði um 13,1% næstu sex mánuði þar á undan. Tími mikilla verðhækkana virðist því nær örugglega vera liðinn og vænta má að meiri ró verði á þessum markaði á næstu misserum.Veruleg hækkun fasteignaverðs á síðustu misserum hefur orðið samhliða mjög lítilli verðbólgu og reyndar hefur verðbólga án húsnæðis verið neikvæð í langan tíma. Raunhækkun húsnæðisverðs mælt á föstu verðlagi án húsnæðis hefur því verið veruleg. Þannig var raunverð fasteigna nú í nóvember um 18% hærra en það var í desember 2016. Þar af var raunverð fjölbýlis um 17% hærra og raunverð sérbýlis um 22% hærra.

Viðskipti með fasteignir á höfuðborgarsvæðinu voru mun meiri í nóvember en í marga mánuði þar á undan og gildir það sérstaklega um fjölbýli þar sem viðskipti hafa ekki verið meiri síðan í mars sl. Viðskipti með sérbýli tóku einnig vel við sér eftir lægð undanfarna tvo mánuði. Sé litið á fjölda viðskipta í lengra samhengi má sjá að þeim hefur heldur fækkað frá síðasta ári og stefnir nú í að þau verði svipuð og á árinu 2015. Tímabili síaukinna viðskipta lauk því á árinu 2016, í bili a.m.k.

Á tímabilinu frá september fram í miðjan desember voru viðskipti með nýtt húsnæði í fjölbýli einungis um 10% af viðskiptum. Nýjar íbúðir sem seldar voru á þessu tímabili voru að jafnaði um 6% stærri en þær eldri og um 19% dýrari, ef tekið er mið af fermetraverði. Það kemur ekki á óvart að fermetraverð á nýjum í búðum sé mun hærra en á þeim eldri, enda oft um að ræða nýjar íbúðir inni í grónum hverfum.

Á síðustu misserum hafa tveir meginþættir togast á sem áhrifaþættir verðbólgu, fasteignaverð og styrking gengis. Hefði fasteignaverð ekki hækkað með viðlíka hætti og raunin var hefði mælst verðhjöðnun hér á landi í nokkurn tíma. Verðtölurnar frá því í nóvember snúa þessari þróun algerlega við þar sem fasteignaverðið mun nú draga verðlag og þar með verðbólgu niður á við.

Eins og alltaf er varasamt að horfa mjög mikið á niðurstöðu einstakra mánaða við mat á verðþróun á fasteignamarkaði. Þróun síðustu mánaða bendir hins vegar eindregið til þess að kaflaskil hafi orðið á markaðnum á höfuðborgarsvæðinu.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Töluverð lækkun á fasteignaverði í nóvember (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara

58df6cd2-e563-11e7-8924-0050568800ef

No filter applied

Tengdar greinar