Hagsjá

Erfið staða ríkissjóðs – fjárfestingartölur ekki í samræmi við yfirlýsingar

Þrátt fyrir margboðað fjárfestingarátak ríkissjóðs sýndu fyrstu niðurstöður þjóðhagsreikninga fyrir árið 2020 rúmlega 14% samdrátt í opinberri fjárfestingu á milli fyrri árshelminga 2019 og 2020 á verðlagi hvers árs (rúm 11% að raungildi). Þetta skýtur skökku við þar sem fjárfesting ríkissjóðs var um 67 ma.kr. á árinu 2019 og með fjárlögum og fjáraukalögum hafði verið ákveðin aukning upp á 25 ma.kr. frá síðasta ári, eða 37%.

29. september 2020  |  Hagfræðideild

Samantekt

Hið opinbera, og þá sérstaklega ríkissjóður, hefur tekið sér mikið hlutverk í efnahagslífinu á þessu ári. Þessi staða er svipuð í nær öllum nágrannaríkjum, hlutverk ríkissjóðs í efnahagslífinu er orðið mjög stórt og skuldbindingar miklar í samræmi við það.
Þessi staða er hins vegar ekki alveg ný. Þannig hefur verið halli á rekstri ríkissjóðs allt frá upphafi ársins 2019. Það sama gildir raunar einnig um sveitarfélögin sem hafa verið rekin með halla mun lengur. Hallinn hefur aukist verulega á þessu ári. Hvað ríkissjóð varðar var hallinn á árinu 2019 að meðaltali 4,3% af tekjum, en var svo 16% á fyrsta ársfjórðungi 2020 og 28% af tekjum á öðrum. Staða ríkissjóðs byrjaði í raun að snúast við í upphafi ársins 2019 í tengslum við aukna erfiðleika í ferðaþjónustu og gjaldþrot WOW-air. Tekjur ríkissjóðs voru þannig u.þ.b. 21 ma.kr. lægri á 2. ársfjórðungi í ár en var á 2. ársfjórðungi 2019, þannig að tekjuhliðin hefur gefið eftir líkt og útgjaldahliðin.

Sé litið á þróun tekna milli fyrri árshelminga 2019 og 2020 má sjá að heildartekjur hafa dregist saman um rúma 40 ma.kr. á tímabilinu, en þær drógust saman um rúma 5 ma.kr. árið áður. Á fyrri hluta þessa árs hafa skatttekjur dregist saman um tæpa 35 ma.kr. frá fyrra ári samanborið við 6 ma.kr. aukningu árið á undan. Skattar á tekjur og hagnað hafa minnkað mun meira en skattar á vöru og þjónustu. Tryggingagjöld hafa dregist saman um rúma 5 ma.kr. á milli fyrri árshelminga 2019 og 2020.

Heildarútgjöld jukust um 47 ma.kr. á milli fyrri árshelminga 2019 og 2020. Þar var munurinn frá fyrra ári ekki eins mikill og í tekjunum, þar sem útgjöld höfðu aukist um 35 ma.kr. árið áður. Munurinn á milli ára liggur því aðallega í mikilli tekjuminnkun í ár. Fjárframlög skýra stærstan hluta aukningarinnar í ár, eða um 36 ma.kr., sem er um tvöföldun frá sama tíma síðasta ár. Framleiðslustyrkir jukust um 7,7 ma.kr. milli ára og laun um 6,7% sem var nokkuð minna en aukningin árið á undan. Samanlögð tekjuminnkun og útgjaldaaukning ríkissjóðs á milli fyrri árshelminga 2019 og 2020 nemur samtals um 88 mö.kr.

Tveir útgjaldaliðir lækka milli ára, í fyrsta lagi vaxtagjöld, sem kann að vera skammgóður vermir þar sem skuldir ríkissjóðs fara nú ört vaxandi, en á móti kemur að lánakjör ríkissjóðs á mörkuðum hafa batnað mikið á síðustu misserum. Þá dróst fjárfesting saman um 4,5 ma.kr. milli ára.

Fjárfesting ríkissjóðs minnkaði um 17,1% milli fyrri árshelminga 2019 og 2020 og fjárfesting sveitarfélaganna um 9%. Þessar tölur eru óneitanlega nokkuð úr korti í ljósi þess að opinbert fjárfestingarátak hefur verið margboðað, t.d. í tengslum við endurskoðun fjármálastefnu vorið 2019. Það var svo gert í annað skipti í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar nú síðla vetrar um aðgerðir vegna veirufaraldursins. Þá var ákveðið í fjáraukalögum að auka fjárfestingar ríkissjóðs um 19 ma.kr. á árinu 2020 ofan á 7 ma.kr viðbót sem hafði verið samþykkt í fjárlögum ársins. Fjárfesting ríkissjóðs var um 67 ma.kr. á árinu 2019 og með fjárlögum og fjáraukalögum hefur verið ákveðin aukning upp á 25 ma.kr. frá síðasta ári, eða 37%. Og nú er einu sinni enn verið að boða fjárfestingarátak í tengslum við nýja fjármálaáætlun sem verður lögð fram í þingbyrjun.

Þrátt fyrir þetta sýndu fyrstu niðurstöður þjóðhagsreikninga fyrir árið 2020 rúmlega 14% samdrátt í opinberri fjárfestingu á milli fyrri árshelminga 2019 og 2020 á verðlagi hvers árs (rúm 11% að raungildi).

Tölur um opinbera fjárfestingu verða oft fyrir áhrifum af óreglulegum liðum, t.d. þegar ríkissjóður tók við Hvalfjarðargöngum í lok árs 2018 og þegar Vestmannaeyjaferja var gjaldfærð á 2. ársfjórðungi 2019. Sé litið á heildarmyndina er samt nokkuð ljóst að áform síðustu missera um stóraukna opinbera fjárfestingu hafa ekki náðst enn sem komið er, hvort sem litið er á opinberar tölur um þjóðhagsreikninga eða tölur um fjármál hins opinbera.

Hlutverk hins opinbera í hagstjórn og efnahagslífinu verður mikið á næstu árum, og á það einkum við um ríkissjóð. Ríkissjóður er í bílstjórasætinu hvað hagstjórn varðar og verður það á næstu árum. Það ættu því að vera góð skilyrði fyrir stjórnvöld að koma stefnumiðum sínum í framkvæmd. Vonandi hillir undir að stór áform um opinberar fjárfestingar sjái dagsins ljós.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Erfið staða ríkissjóðs – fjárfestingartölur ekki í samræmi við yfirlýsingar (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara.

726752ac-0237-11eb-9117-005056be2922

No filter applied

Tengdar greinar