Hagsjá

Atvinnuleysi – erfitt að mæla stöðuna á tímum mikilla breytinga

5.700 manns voru atvinnulausir í mars samkvæmt vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar eða um 2,7% af vinnafli. Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar voru um 14.200 skráðir atvinnulausir í lok mars (án skerts starfshlutfalls) sem samsvarar 9,2% atvinnuleysi.

5. maí 2020  |  Hagfræðideild

Samantekt

Niðurstöður vinnumarkaðskönnunar Hagstofunnar fyrir mars voru birtar í síðustu viku. Áætlað er að um 205 þús. manns hafi verið á vinnumarkaði í mars 2020, sem jafngildir 78,3% atvinnuþátttöku. Af þeim voru um 199.600 starfandi og um 5.700 atvinnulausir. Starfandi fólki fækkaði um 1.800 milli marsmánaða 2019 og 2020, og atvinnulausum hafði fækkað um 300 milli ára. Sé litið á 12 mánaða hlaupandi meðaltal hefur fjöldi starfandi ekki breyst mikið allt síðastliðið ár eftir nær stöðuga fjölgun í nokkur ár.
Eins og áður segir voru 5.700 manns atvinnulausir í mars samkvæmt vinnumarkaðskönnun, eða um 2,7% af vinnafli. Þarna er um mikla lækkun að ræða frá febrúarmánuði þegar 10.200 voru taldir atvinnulausir, eða um 5% af vinnuafli. Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar voru um 14.200 skráðir atvinnulausir í lok mars (án skerts starfshlutfalls) sem samsvarar 9,2% atvinnuleysi.

Þarna munar mjög miklu á mælingum. Tölur Hagstofunnar eru byggðar á úrtakskönnun þar sem sveiflur eru oft töluverðar milli mánaða. Tölur Vinnumálastofnunar sýna hins vegar skráð atvinnuleysi, þ.e. fjölda þeirra sem fá greiddar atvinnuleysisbætur. Tölur Hagstofunnar og Vinnumálastofnunar um atvinnuleysi hafa sýnt svipaða niðurstöðu síðastliðið ár sé litið til 12 mánaða hlaupandi meðaltals, en nú hefur orðið mikil breyting á.

Meginástæðan, eins og Hagstofan hefur bent á, er sú að vinnumarkaðskönnunin mælir snöggar breytingar á vinnumarkaði illa og auk þess er skilgreining atvinnuleysis mun flóknari hjá Hagstofunni en hjá Vinnumálastofnun.

Niðurstöður Vinnumálastofnunar miðast við stöðu í lok mánaðar, en Hagstofan framkvæmir vinnumarkaðskönnunina í öllum vikum mánaðarins þannig að breytingar í lok mánaðar vega ekki mikið. Hjá Vinnumálastofnun er greiðsla atvinnuleysisbóta forsenda fyrir því að vera talinn atvinnulaus. Hjá Hagstofunni er skilgreining atvinnuleysis flóknari. Til að teljast atvinnulaus þar þarf viðkomandi að vera án vinnu, virkur í atvinnuleit og geta hafið störf innan tveggja vikna. Í núverandi stöðu er erfitt að meta hvort að einstaklingar sem eru án vinnu, eða vita ekki hvort þeir halda vinnu sinni, hefji strax leit að nýrri vinnu. Þá er einnig óljóst hvort einstaklingar í atvinnuleit geti hafið störf innan skamms tíma þegar óvissa ríkir um ráðningarsamband þeirra við fyrri atvinnurekanda. Það er því engan veginn ljóst að þeir sem bjuggu við skort á atvinnuöryggi í mars 2020 uppfylli öll skilyrði þess að teljast atvinnulausir samkvæmt skilgreiningu vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofunnar.

Atvinnuþátttakan hefur minnkað nokkuð stöðugt á síðustu misserum og var komin undir 80% í lok síðasta árs. Nú í mars var atvinnuþátttaka 78,3% samanborið við 81,8% í mars 2019. Meðalatvinnuþátttaka síðustu 12 mánuði var 80,6% samanborið við 81,7% í mars á síðasta ári. Atvinnuþátttakan fer því enn minnkandi og eins og áður hefur komið fram í Hagsjám er ekki ólíklegt að þessi þróun hafi að einhverju leyti sýnt falið atvinnuleysi þar sem jaðarhópar hafi kosið að hverfa af vinnumarkaði í erfiðu árferði. Ekki er ólíklegt að svo verði áfram.

Aldrei hafa fleiri verið á skrá hjá Vinnumálastofnun en nú um mánaðamótin. Þannig munu um 55 þúsund manns fá greiðslur frá stofnuninni á þeim tíma og verður að dreifa greiðslum á nokkra daga.

Alls voru um 18 þúsund manns á atvinnuleysisskrá í almenna kerfinu hjá Vinnumálastofnun undir lok mánaðarins, en þeir voru um 14.200 í lok mars. Þá voru um 37 þúsund í minnkuðu starfshlutfalli. Þeir sem urðu fyrir uppsögnum nú fyrir mánaðamótin fara flestir inn á atvinnuleysisskrá í ágúst batni atvinnuástandið ekki í millitíðinni.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Atvinnuleysi – erfitt að mæla stöðuna á tímum mikilla breytinga (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara.

83d5f54c-8ec0-11ea-9115-005056be2922

No filter applied

Tengdar greinar