Hagsjá

Þróun fasteignaviðskipta mjög mismunandi í stærri bæjum

Mikill munur var á þróun fasteignaviðskipta í stærstu bæjum landsins á milli fyrri árshelminga 2013 og 2018. Fjölgun viðskipta hefur verið langmest í Árborg, eða nær þreföldun. Þar á eftir koma Mosfellsbær og Garðabær og síðan Reykjanesbær og Akranes þar á eftir. Seltjarnarnes er lægst með um 12% aukningu, enda er þar um nær fullbyggt sveitarfélag að ræða. Stóru bæirnir þrír á höfuðborgarsvæðinu, Reykjavík, Kópavogur og Hafnarfjörður eru á svipuðum stað með tiltölulega litla fjölgun viðskipta miðað við hina bæina.

12. júlí 2018  |  Hagfræðideild

Samantekt

Viðskipti með fasteignir á höfuðborgarsvæðinu voru eilítið færri í júní en var í maí. Sé litið á fjölda viðskipta fyrri helming ársins í ár voru þau tæplega 2% fleiri en var á sama tíma í fyrra. Í lengra samhengi má sjá að fjölda viðskipta á höfuðborgarsvæðinu fækkaði í fyrsta skipti í langan tíma á milli ára í fyrra. Viðskiptin á öllu árinu 2017 voru álíka mörg og á árinu 2015. Fækkunin hélt áfram fyrstu mánuði ársins 2018 en síðustu mánuðir hafa breytt þeirri mynd nokkuð.

Sé litið á þróun fasteignaviðskipta í stærri bæjum frá árinu 2013 má sjá að fjöldi viðskipta hefur alls staðar aukist, en þó með mjög mismunandi hætti. Hér er þróunin skoðuð með vísitöluformi til þess að einfalda samanburð. Viðskiptin á 2. ársfjórðungi í ár eru alls staðar a.m.k. tvöfalt fleiri en var í upphafi ársins 2013. Mesta aukningin hefur verið í Árborg þar sem fjöldi viðskipta hefur meira en fjórfaldast og á Akranesi hafa þau næstum fjórfaldast. Í þessu sambandi ber að hafa í huga að þarna er einungis um samanburð að ræða milli tveggja tímapunkta og þróunin á öllu tímabilinu hefur verið mismunandi eins og má sjá á mynd.Af bæjunum utan höfuðborgasvæðisins var breytingin í Árborg mest og svo var hún einna minnst á Akureyri. Í samanburði við þessa tvo bæi sýnir  þróunin á höfuðborgarsvæðinu mun minni breytingu milli þessara tímabila. Þegar fjöldi viðskipta hefur rúmlega fjórfaldast í Árborg og 2,5 faldast á Akureyri er „einungis“ um 50% aukningu að ræða á höfuðborgarsvæðinu. Enn ber að ítreka að hér er einungis um samanburð að ræða milli tveggja tímapunkta. Upphaf tímabilsins er valið hér í ljósi þess að Þjóðskrá hefur einungis birt talnaefni um suma bæina frá þeim tíma.

Af sveitarfélögunum sex á höfuðborgarsvæðinu hefur fjöldi viðskipta aukist mest í Mosfellsbæ og Garðabæ á þessu tímabili og minnst í Reykjavík og á Seltjarnarnesi. Reykjavík er langstærsta sveitarfélagið á svæðinu og því afmarkast staða þess mikið af því hvað gerist í Reykjavík. Hver viðbótarsala hefur þannig mun minni áhrif í Reykjavík en t.d. í Mosfellsbæ. Aukningin í Mosfellsbæ og Garðabæ hefur orðið mikil á þessu ári og má segja að þessir bæir skeri sig úr vegna nýlegrar aukningar. Aukningin á tímabilinu er 3,5-föld í Mosfellsbæ og tæplega þreföld í Garðabæ. Í hinum bæjunum er aukningin í kringum 50%.

Sé reynt að draga úr áhrifum sveiflna í minni bæjum má líta á breytinguna milli fyrri árshelmings 2013 og fyrri árshelmings 2018. Niðurstaðan sýnir að munurinn á milli þessara stærstu bæja landsins er mikill. Fjölgun viðskipta hefur verið langmest í Árborg, eða nær þreföldun. Þar á eftir koma Mosfellsbær og Garðabær og síðan Reykjanesbær og Akranes þar á eftir. Seltjarnarnes er lægst með um 12% aukningu, enda er þar um nær fullbyggt sveitarfélag að ræða. Stóru bæirnir þrír á höfuðborgarsvæðinu, Reykjavík, Kópavogur og Hafnarfjörður eru á svipuðum stað með tiltölulega litla fjölgun viðskipta miðað við hina bæina.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Þróun fasteignaviðskipta mjög mismunandi í stærri bæjum (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara.

8cefda72-85a6-11e8-8833-0050568800ef

No filter applied

Tengdar greinar