Hagsjá

Vinnumarkaður áfram í svipuðum farvegi – atvinnuleysi eykst ekki að marki

Fyrr á árinu var reiknað með auknu atvinnuleysi eftir því sem liði á árið og að staða á vinnumarkaði myndi versna. Bæði Hagstofan og Vinnumálastofnun mældu 3% atvinnuleysi undanfarna 12 mánuði í júlí. Báðar mælingar sýna töluverða aukningu atvinnuleysis það sem af er árinu, en aukningin virðist hafa stöðvast í bili.

3. september 2019  |  Hagfræðideild

Samantekt

Áætlað er að um 214 þús. manns hafi verið á vinnumarkaði í júlí 2019 samkvæmt niðurstöðum vinnumarkaðskönnunar Hagstofunnar, sem jafngildir 83% atvinnuþátttöku. Af þeim voru rúmlega 208 þús. starfandi og 5.400 atvinnulausir. Atvinnulausir voru því um 1.200 færri en var í júní og 7.400 færri en í maí. Atvinnuleysi var 3% af vinnuafli í júlí, sem er helmingi minna en í maí sl. Starfandi fólk var 2.700 fleira nú í júlí en var í júlí 2018. Sveiflur milli mánaða eru töluverðar og sé miðað við meðaltal síðustu 12 mánaða var fjölgun starfandi á einu ári 2,8% nú í júlí. Sama mánuð árið 2018 var samsvarandi breyting 1,6% og 3,4% í júní 2017. Starfandi fólki á vinnumarkaði heldur því áfram að fjölga með svipuðum hætti og verið hefur.
Tölur Hagstofunnar um atvinnuleysi hafa að jafnaði verið hærri en tölur Vinnumálastofnunar um skráð atvinnuleysi, en þó var ekki svo í júní og júlí. Sé litið á 12 mánaða hlaupandi meðaltal hafa þessir tveir ferlar nálgast hvor annan og voru jafnir nú í júlí. Bæði Hagstofan og Vinnumálastofnun mældu þannig 3% atvinnuleysi undanfarna 12 mánuði í júlí. Báðar mælingar sýna töluverða aukningu atvinnuleysis það sem af er árinu, en aukningin virðist hafa stöðvast í bili. Þannig var skráð atvinnuleysi skv. Vinnumálastofnun hæst 3,7% í apríl en var 3,4% í júní og júlí.

Atvinnuþátttaka í júlí var 83% og minnkaði um eitt prósentustig frá júnímánuði. Atvinnuþátttaka var 84,1% í júlí í fyrra þannig að hún hefur minnkað töluvert á milli ára. Sé litið á 12 mánaða meðaltal dróst atvinnuþátttaka saman um 0,1 prósentustig frá júlí 2018 til sama tíma 2019 og hefur því verið stöðug á þann mælikvarða.

Vikulegur vinnutími var að jafnaði 40 stundir í júlí og hafði fækkað um 1,1 stundir frá fyrra ári. Sé miðað við 12 mánaða meðaltal var vinnutíminn nú í júlí 38,9 stundir sem er 0,2 stundum styttri en í júlí 2018. Þetta er stysti vinnutíminn á þennan mælikvarða í fjölda ára.

Séu breytingar á fjölda starfandi og vikulegum vinnutíma teknar saman mánuð fyrir mánuð hefur vinnuaflsnotkun aukist nær samfellt á síðustu 12 mánuðum nema í febrúar í ár. Nú í júlí var vinnuaflsnotkun (eða fjöldi unninna stunda) 1,4% minni en var í júlí 2018. Fjöldi starfandi jókst um 1,3% á tímabilinu, en vinnutími styttist hins vegar um 2,7%.

Fyrr á árinu var reiknað með auknu atvinnuleysi eftir því sem liði á árið og að staða á vinnumarkaði myndi versna. Þessar tölur Hagstofunnar benda ekki til þess að staðan sé að versna mikið. Atvinnuleysi hefur frekar minnkað að undanförnu, sem er jákvætt. Vinnuaflsnotkun var nokkuð minni en fyrir ári síðan, en hefur samt sem áður þróast með jákvæðum hætti á síðustu mánuðum.

Í nýrri endurskoðaðri þjóðhagsspá Seðlabankans er talið að staðan í ár verði betri en reiknað var með, en að staðan á næsta ári verði frekar verri. Það er enn í góðu samræmi við tiltölulega góða stöðu á vinnumarkaði. Hagfræðideild Landsbankans mun gefa út nýja þjóðhagsspá í lok október og þá verður sýnin e.t.v. orðin skýrari.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Vinnumarkaður áfram í svipuðum farvegi – atvinnuleysi eykst ekki að marki (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara.

a2e414be-cd9a-11e9-910b-005056be2922

No filter applied

Tengdar greinar