Hagsjá

Sögulega lítil hækkun íbúðaverðs árið 2019

Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 3,5% milli ára í fyrra. Raunverð hækkaði einungis um 0,9%. Stöðugleiki á íbúðamarkaði hefur ekki verið meiri í áraraðir.

22. janúar 2020  |  Hagfræðideild

Samantekt

Allt síðastliðið ár voru verðhækkanir mjög hóflegar á fasteignamarkaði. Að jafnaði mældust nafnverðshækkanir milli mánaða um 0,2%. Íbúðaverð hækkaði alls um 3,5% að meðaltali milli ára sem er minnsta hækkun sem hefur orðið á höfuðborgarsvæðinu síðan 1997, ef frá eru talin árin 2009 og 2010 þegar íbúðaverð lækkaði milli ára. Í Þjóðhagsspá okkar, sem kom út í október, spáðum við 3,6% hækkun íbúðaverðs á árinu sem er í samræmi við það sem raungerðist.

Raunverð íbúða stóð nánast í stað milli ára. Það hækkaði aðeins um 0,9% sem er einnig minnsta hækkun á raunverði milli ára síðan 1997. Raunverð lækkaði þó árin 2001 og 2002 og eins 2008-2010.
Framan af var árið 2019 nokkuð tíðindalítið á fasteignamarkaði. Mánaðarleg viðskipti með íbúðarhúsnæði mældust sífellt færri en í samsvarandi mánuði árið á undan, allt frá mars og fram til september. Viðskipti virtust síðan taka verulega við sér í október þegar 60% fleiri íbúðir seldust en í október árið áður.

Ekki er vitað hvað olli þessari aukningu. Það má vera að óvissunni sem ríkti á vormánuðum hafi verið létt. Sú óvissa snéri meðal annars að því hvaða áhrif gjaldþrot WOW air myndi hafa á hagkerfið, eins voru undirritaðir kjarasamningar þar sem umfangsmiklum aðgerðum var lofað á húsnæðismarkaði. Yfirlýsingar, sem ekki voru komnar til framkvæmda, gætu hafa skapað ákveðna biðstöðu, að minnsta kosti fyrst um sinn.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Sögulega lítil hækkun íbúðaverðs árið 2019 (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara.

a7357ed2-3cfd-11ea-9110-005056be2922

No filter applied

Tengdar greinar