Hagsjá

Nær óbreyttur fjöldi fasteignaviðskipta

Fasteignaviðskipti í fyrra voru nánast jafnmörg og árið á undan, en þróunin var misjöfn eftir sveitarfélögum. Desembermánuður var þó líflegri en oft áður.

14. janúar 2020  |  Hagfræðideild

Samantekt

Í desember var 802 kaupsamningum um íbúðarhúsnæði þinglýst á landsvísu, 518 á höfuðborgarsvæðinu og 284 utan þess. Kaupsamningum á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði um 25% frá því í desember árið áður og um 3% utan þess. Til samanburðar mældist 29% samdráttur milli ára á höfuðborgarsvæðinu í desember árið 2018, og 19% samdráttur utan þess. Sömu sögu er að segja um desembermánuð ársins 2017 þegar samdráttur mældist einnig. Nýliðinn desembermánuður var því líflegri en oft áður.
Ef teknar eru saman tölur um fjölda þinglýstra kaupsamninga í öllum mánuðum ársins sést að 10.945 fasteignaviðskipti áttu sér stað á árinu 2019 og voru viðskiptin aðeins 16 færri en árið áður, samkvæmt tölum Þjóðskrár. Munurinn milli áranna í heild er því nánast enginn. Í fyrra var alls 7.267 kaupsamningum þinglýst á höfuðborgarsvæðinu og 3.678 utan þess.

Þó breytingin yfir landið allt væri lítil sem engin milli ára, var þó mismikil breyting eftir sveitarfélögum. Í Kópavogi mældist mesta aukningin milli ára, en þar seldust 11% fleiri íbúðir í fyrra samanborið við árið 2018. Aukningin var einnig mikil á Árborgarsvæðinu þar sem 10% fleiri íbúðir seldust.

Auknar hreyfingar á fasteignamarkaði haldast að einhverju leyti í hendur við fjölgun íbúa. Það kemur því ekki á óvart að aukning íbúa hefur á síðustu árum verið mikil í Mosfellsbæ, Reykjanesbæ og Árborg sem eru einnig þau sveitarfélög þar sem mest aukning hefur orðið í íbúðasölu á síðustu árum. Mörg þeirra sveitarfélaga sem hafa búið við mikla íbúaaukningu á síðustu árum virðast nú vera að byggja færri íbúðir en áður.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Nær óbreyttur fjöldi fasteignaviðskipta (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara.

b0fd750c-36b3-11ea-9110-005056be2922

No filter applied

Tengdar greinar