Hagsjá

Atvinnuleysi hefur aukist og ýmis merki um kólnandi vinnumarkað

Atvinnuþátttaka hefur minnkað nokkuð stöðugt á síðustu misserum. Nú í janúar var atvinnuþátttaka 80,9% samanborið við 81,6% í janúar 2019. Meðalatvinnuþátttaka síðustu 12 mánuði var 80,9% samanborið við 81,7% í janúar á síðasta ári. Atvinnuþátttakan fer því enn minnkandi og er ekki ólíklegt að þessi þróun sýni að einhverju leyti aukið atvinnuleysi.

4. mars 2020  |  Hagfræðideild

Samantekt

Samkvæmt niðurstöðum vinnumarkaðskönnunar Hagstofunnar er áætlað að um 209 þús. manns hafi verið á vinnumarkaði í janúar 2020, sem jafngildir 80,7% atvinnuþátttöku. Af þeim voru um 201.500 starfandi og 7.400 atvinnulausir. Fjöldi starfandi fólks var sá sami í janúarmánuðum 2019 og 2020, en atvinnulausum hafði fjölgað um 900 milli ára.
Eins og áður segir voru 7.400 manns atvinnulausir í janúar samkvæmt vinnumarkaðskönnun, eða um 3,6% af vinnuafli, sem er 0,9 prósentustigum hærra en í janúar árið áður. Samkvæmt árstíðarleiðréttum tölum Hagstofunnar var fjöldi atvinnulausra 7.000 í janúar, eða 3,4% af vinnuaflinu, sem er 0,5 prósentustigum lægra en var í desember og 0,7 prósentustigum hærra en í janúar 2019.

Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar er atvinnuleysi töluvert meira en könnun Hagstofunnar bendir til því um 9.600 manns voru á atvinnuleysiskrá í lok janúar, sem gefur 4,3% atvinnuleysi.

Í janúar var atvinnuleysi á Suðurnesjum áberandi mest á landinu og gildir það jafnt um karla sem konur. Skráð atvinnuleysi karla á Suðurnesjum var 9% í janúar og 8,6% meðal karla. Í janúar var meðalatvinnuleysi karla 5% og 4,6% meðal kvenna.

Sé litið á meðalatvinnuleysi síðustu 12 mánaða má sjá að það var hæst meðal kvenna á Suðurnesjum, 7,3%, og næst hæst meðal karla á Suðurnesjum, þar sem það var 6,4%. Meðalatvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu var í kringum 4% hjá báðum kynjum síðustu 12 mánuði og rúmlega 3% á Norðurlandi eystra.

Atvinnuþátttakan hefur minnkað nokkuð stöðugt á síðustu misserum og var komin undir 80% í lok síðasta árs. Nú í janúar var atvinnuþátttaka 80,9% samanborið við 81,6% í janúar 2019. Meðalatvinnuþátttaka síðustu 12 mánuði var 80,9% samanborið við 81,7% í janúar á síðasta ári. Atvinnuþátttakan fer því enn minnkandi og eins og áður hefur komið fram í Hagsjám er ekki ólíklegt að þessi þróun sýni að einhverju leyti aukið atvinnuleysi.

Venjulegur vinnutími var 37,9 stundir á viku í janúar og var þannig 0,5 stundum styttri en í janúar 2019. Sé litið á 12 mánaða meðaltal hefur vinnutíminn verið nær óbreyttur allt síðasta ár, frá 39 til 39,2 stundum að jafnaði. Um áramótin tóku gildi ákvæði ýmissa kjarasamninga um styttingu vinnuvikunnar og mun áhrifa þeirrar breytingar fara að gæta í hagtölum.

Fjöldi starfandi fólks var óbreyttur milli janúar 2019 og 2020. Meðalvinnutími styttist um 1,3% á sama tímabili og heildarvinnuaflsstundum fækkaði því um 1,3% milli ára. Vinnuaflsnotkun hefur aukist nokkuð samfellt allt frá árinu 2012, mestmegnis vegna þess að starfandi fólki hefur fjölgað mikið. Svo virðist sem sköpun starfa hafi haldist nokkuð vel í hendur við fjölgun á vinnumarkaði á þeim tíma.

Snemma á árinu 2019 var reiknað með að atvinnuleysi myndi aukast töluvert eftir því sem liði á árið og að staða á vinnumarkaði myndi versna. Þróunin hefur sem betur fer verið eitthvað hægari en verstu spár reiknuðu með. Skráð atvinnuleysi hefur að vísu aukist um tæp tvö prósentustig frá síðustu mánuðum ársins 2018, og atvinnuleysi samkvæmt tölum Hagstofunnar var 0,7% meira nú í janúar en í janúar 2019.

Nú um mánaðamótin var nokkuð um uppsagnir hjá ferðaþjónustufyrirtækjum, enda nokkuð ljóst að óvissa hefur aukist í greininni samhliða því að hinn nýi kórónavírus geti stungið sér niður í fleiri Evrópuríkjum. Innan ferðaþjónustunnar eru menn farnir að búast við samdrætti í fjölda ferðamanna til landsins og slík þróun hefur óneitanlega áhrif á atvinnustig í greininni.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Atvinnuleysi hefur aukist og ýmis merki um kólnandi vinnumarkað (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara.

b2f4419c-5df7-11ea-9113-005056be2922

No filter applied

Tengdar greinar