Hagsjá

Tekjuþróun landsmanna á réttri leið eftir mikið fall

Sé litið á meðaltekjur í stærstu bæjum landsins eru Seltjarnarnes og Garðabær í nokkrum sérflokki. Kópavogur kemur þar á eftir, en þar voru meðaltekjur á árinu 2016 um 20% lægri en á Seltjarnarnesi. Af stærstu bæjunum voru tekjurnar lægstar í Árborg og Reykjanesbæ, um 10% undir landsmeðaltali.

12. október 2017  |  Hagfræðideild

Samantekt

Í vikunni birti Hagstofa Íslands tölur um tekjuþróun hér á landi síðustu ár. Heildartekjur Íslendinga náðu hámarki á árinu 2007, en féllu svo mikið á árunum 2008-2010. Meðaltekjur lækkuðu um 34% að raungildi á milli áranna 2007 og 2010. Tekjuþróun hefur svo verið upp á við frá árinu 2011, sérstaklega á árunum 2014 til 2016, þegar þær hækkuðu um 20%.Sé litið á einstakar tegundir tekna kemur í ljós að bæði atvinnutekjur og fjármagnstekjur tóku að falla mikið á árinu 2008, og á það einkum við um fjármagnstekjurnar sem lækkuðu um þriðjung á því ári. Fjármagnstekjurnar höfðu reyndar hækkað verulega á árunum þar á undan. Atvinnutekjur tóku að aukast að raungildi á árinu 2010 en fjármagnstekjurnar fóru ekki að þróast upp á við fyrr en árið 2012, eða tveimur árum seinna.

Á árinu 2016 voru meðaltekjur eftir sveitarfélögum hæstar á Seltjarnarnesi og næst hæstar í Garðabæ. Meðaltekjur í Garðabæ voru um 35% hærri en þær voru að meðaltali í landinu öllu. Það er athyglisvert að höfuðborgin kemst ekki á lista 10 tekjuhæstu sveitarfélaga, en hún var í 12. sæti. Annars eru nokkur sveitarfélög með sterkan sjávarútveg í hópi þeirra sveitarfélaga þar sem tekjur eru hæstar.

Sé litið á tekjur í stærstu bæjum landsins eru Seltjarnarnes og Garðabær í nokkrum sérflokki. Kópavogur kemur þar á eftir, en þar voru meðaltekjur á árinu 2016 um 20% lægri en á Seltjarnarnesi. Af stærstu bæjunum voru tekjurnar lægstar í Árborg og Reykjanesbæ en þar voru þær um 10% undir landsmeðaltali.

Sé litið á fjármagnstekjur á árinu 2016 kemur í ljós að þær eru miklar í sumum smærri sveitarfélaganna. Slíkt kemur ekki á óvart þar sem háar tekjur fárra hafa meiri áhrif í smærri sveitarfélögum en stórum. Á árinu 2016 voru meðalfjármagnstekjur hæstar í sveitarfélaginu Ölfusi, um 2,3 m. kr. á árinu. Þar á eftir komu Seltjarnarnes, Dalabyggð og Hornafjörður.

Hlutfall fjármagnstekna í stærstu sveitarfélögunum var líka mjög mismunandi á árinu 2016, allt frá 22% á Seltjarnarnesi niður í 4% í Reykjanesbæ. Hlutfall fjármagnstekna af heildartekjum var að meðaltali um 9% á árinu 2016, sem er sama hlutfall og á landinu öllu.

Helsta niðurstaðan er sú að rauntekjur hafa aukist töluvert á síðustu árum eftir verulegt fall í kjölfar hrunsins. Á allra síðustu árum hafa rauntekjur aukist af ýmsum ástæðum. Laun hafa hækkað, atvinnuþátttaka aukist, vinnutími lengst og verðbólga verið lítil. Það sem greinir stöðuna nú frá svipuðum tímabilum á umliðnum árum er að verðlag hefur verið mjög stöðugt sem gerir það að verkum að jákvæða tekjuþróunin hefur haldið raungildi sínu betur en oft áður.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Tekjuþróun landsmanna á réttri leið eftir mikið fall

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara.

cc8829b0-af29-11e7-8be4-0050568800ef

No filter applied

Tengdar greinar