Hagsjá

Fasteignaverð stendur í stað – lækkun á sérbýli

Það er athyglisvert að skoða verðbreytingar á fasteignamarkaði fyrstu þrjá mánuði ársins nokkur ár aftur í tímann. Meðalbreyting fyrstu 3 mánuði ársins frá árinu 2012 var 2,6% hækkun. Breytingin fyrstu þrjá mánuðina í ár var 1,4% þannig að 2018 er vel undir meðallagi miðað við síðustu ár.

18. apríl 2018  |  Hagfræðideild

Samantekt

Samkvæmt tölum Þjóðskrár lækkaði fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu um 0,1% í mars. Þar af hækkaði verð á fjölbýli um 0,2% en verð á sérbýli lækkaði um 1,1%. Verð á fjölbýli hefur hækkað um 7,3% á síðustu 12 mánuðum og verð á sérbýli um 8,1%. Heildarhækkun húsnæðisverðs nemur 7,7%. Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hafði nú í mars hækkað um 1,1% á síðustu sex mánuðum, en hækkaði um 6,6% næstu sex mánuði þar á undan.

Þess er að vænta að framboð á nýjum íbúðum aukist næstu mánuði og því líklegt að vísitalan leiti upp á við. Fermetraverð á nýjum íbúðum er hærra en á eldri íbúðum þannig að aukinn hluti þeirra af viðskiptum ætti að öllu jöfnu að draga verð upp á við.

Veruleg hækkun fasteignaverðs á síðustu misserum hefur orðið samhliða mjög lítilli verðbólgu og reyndar hefur verðbólga án húsnæðis verið neikvæð í langan tíma. Raunhækkun húsnæðisverðs mæld á föstu verðlagi án húsnæðis hefur því verið veruleg, en verulega hefur þó hægt á árshækkuninni síðustu mánuði. Þannig var raunverð fasteigna nú í mars um 8,4% hærra en það var í mars 2017. Raunverð fjölbýlis var óbreytt milli febrúar og mars og raunverð sérbýlis lækkaði eilítið.

Það er athyglisvert að skoða verðbreytingar á fasteignamarkaði fyrstu þrjá mánuði ársins nokkur ár aftur í tímann. Meðalbreyting fyrstu 3 mánuði ársins frá árinu 2012 var 2,6% hækkun. Breytingin fyrstu þrjá mánuðina í ár var 1,4% þannig að 2018 er vel undir meðallagi miðað við síðustu ár. Árið 2017 sker sig mikið úr. Þá hækkaði verðið um 7,1% fyrstu þrjá mánuði ársins sem hefði þýtt tæplega 32% árshækkun ef sama þróun hefði haldið áfram. Verði hækkunin sú sama það sem eftir lifir ársins og hefur verið frá áramótum mun árshækkunin verða 5,7%.


Í mars voru viðskipti með fasteignir á höfuðborgarsvæðinu svipuð og næstu mánuði þar á undan, að febrúar undanskildum. Sé litið á fjölda viðskipta fyrstu 3 mánuði ársins voru þau 17% færri en á sama tíma 2017. Sé litið á fjölda viðskipta í lengra samhengi má sjá að þeim fækkaði á milli ára í fyrra í fyrsta skipti í langan tíma. Viðskiptin á árinu 2017 voru álíka mikil og á árinu 2015. Fækkunin heldur áfram á fyrstu mánuðum ársins 2018 og er meðalfjöldi viðskipta fyrstu þrjá mánuðina orðinn álíka mikill og var að meðaltali á árunum 2003-2017.

Þróun verðbólgu á næstu misserum verður væntanlega mest háð þróun launa og fasteignaverðs auk þess sem gengi krónunnar skiptir töluverðu máli. Á síðustu misserum hafa tveir meginþættir togast á sem áhrifaþættir verðbólgu, annars vegar fasteignaverð og hins vegar styrking gengis, sem mikið til hefur eytt áhrifum hækkandi launakostnaðar. Hefði fasteignaverð ekki hækkað með viðlíka hætti og raunin hefur verið er ljóst að verðhjöðnun hefði mælst hér á landi í töluverðan tíma. Stöðnun fasteignaverðs frá miðju síðasta ári breytti þessari þróun nokkuð og tölur um fasteignaverð í nóvember sneru stöðunni algerlega við þar sem fasteignaverðið fór þá frekar að draga verðlag, og þar með verðbólgu, niður á við. Tölur um fasteignaverð í mars styrkja þessa stöðu enn frekar. Eftir er að sjá hvort sú þróun muni halda áfram.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Fasteignaverð stendur í stað – lækkun á sérbýli (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara

cd4f20e0-4300-11e8-98e7-0050568800ef

No filter applied

Tengdar greinar