Hagsjá

Íbúðafjárfesting og talningar Samtaka iðnaðarins

Talningar Samtaka iðnaðarins á fjölda íbúða í byggingu hafa farið fram mun lengur á höfuðborgarsvæðinu en á öðrum svæðum. Séu talningar SI fyrir höfuðborgarsvæðið og hálfsárstölur um íbúðafjárfestingu bornar saman á vísitöluformi frá upphafi ársins 2014 kemur keimlík þróun í ljós, þó einhver munur sé á einstökum tímabilum, t.d. á árinu 2018.

10. desember 2019  |  Hagfræðideild

Samantekt

Samkvæmt nýjum tölum Hagstofunnar um þjóðhagsreikninga jókst fjárfesting í íbúðarhúsnæði um 38% að raungildi á fyrstu 9 mánuðum ársins, borið saman við sama tíma 2018. Sé litið á stöðuna á 3ja ársfjórðungi var aukningin 54% frá sama ársfjórðungi í fyrra.
Þetta eru stórar tölur og það kannast væntanlega fáir við að helmingi fleiri byggingarkranar hafi verið uppi á 3ja ársfjórðungi í ár en var í fyrra.

Tölfræði um fjölda íbúða í byggingu og íbúðafjárfestingu hafa verið frekar sveiflukenndar og óöruggar í gegnum árin og eðli málsins samkvæmt hafa spár um íbúðafjárfestingar gengið erfiðlega.

Miklar sveiflur hafa verið í íbúðafjárfestingu allt frá aldamótum. Á tímabilinu 2000-2018 hefur íbúðafjárfesting verið að meðaltali 3,9% af landsframleiðslu (VLF), eða um 95 ma.kr. á verðlagi ársins 2018. Lægst fór hlutfall íbúðafjárfestingar niður í 2,1% á árinu 2010 og þá var íbúðafjárfestingin um 49 ma.kr. á verðlagi ársins 2018. Á árinu 2007 var íbúðafjárfesting mest á tímabilinu, var þá 6,6% af VLF og 173 ma.kr. á verðlagi ársins 2018. Þótt byggingarstarfsemi sé í fullum gangi um þessar mundir var íbúðafjárfesting í fyrra einungis um 70% af því sem hún var 2007.

Eins og áður sagði jókst íbúðafjárfestingin um 38% á milli fyrstu 3ja ársfjórðunga 2018 og 2019. Alls nam fjárfesting í íbúðarhúsnæði um 129 mö.kr. á þessum tíma. Sé miðað við að algengur byggingarkostnaður sé um 420 þús. kr. á m2 jafngildir þessi upphæð u.þ.b. 3.800 fullbyggðum íbúðum að stærð 80 m2, eða 3.000 100 m2 íbúðum ef þessi fjárfesting er öll vegna nýbygginga. Hluti hennar kemur einnig til vegna endurbóta og viðhalds eldri bygginga.

Einu haldbæru upplýsingarnar um hversu mikið er verið að byggja hverju sinni eru talningar Samtaka iðnaðarins sem framkvæmdar eru tvisvar á ári, að vori og á hausti. Tölur um íbúðafjárfestingu eru svo mat á því hversu mikið byggingarstarfsemin kostar á hverjum tíma, á ársfjórðungi eða ári. Þær tölur eiga að ná yfir bæði nýbyggingar og breytingar og viðhald á eldra húsnæði.

Talningar SI hafa farið fram mun lengur á höfuðborgarsvæðinu en á öðrum svæðum. Séu talningar SI fyrir höfuðborgarsvæðið og hálfsárstölur um íbúðafjárfestingu bornar saman á vísitöluformi frá upphafi ársins 2014 kemur keimlík þróun í ljós, þó einhver munur sé á einstökum tímabilum, t.d. á árinu 2018.

Byggingarstarfsemi hefur tekið verulega við sér utan höfuðborgarsvæðisins á allra síðustu árum, ekki síst í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins. Sé litið á talningar Samtaka iðnaðarins á síðustu tveimur árum hefur hlutdeild íbúða í byggingu á suðvesturhorninu að jafnaði verið 80-83% á höfuðborgarsvæðinu og 17-20% í nágrannasveitarfélögunum. Fyrir utan þetta hefur byggingarstarfsemi aukist víða um land og hefur t.d. verið öflug á Akureyri.

Á það hefur verið bent að íbúðum á fyrstu byggingarstigum fari fækkandi og það sé merki um að brátt fari íbúðabyggingar að dragast saman. Á sama tíma eru stjórnvöld að vinna að ýmsum tillögum til þess að aðstoða skilgreinda hópa við íbúðakaup, t.d. með tillögum um hlutdeildarlán sem eiga að stuðla að uppbyggingu ákveðinnar tegundar íbúða.

Þær tölur sem hafa verið hér til umfjöllunar um íbúðafjárfestingu sýna að veruleg starfsemi er enn í greininni og virðist lítið ætla undan að láta. Í síðustu þjóðhagsspá Hagfræðideildar Landsbankans frá því í lok október reiknuðum við með 5% aukningu íbúðafjárfestingar í ár og óbreyttu háu stigi á næstu þremur árum. Tölur um fyrstu níu mánuði ársins benda til þess að starfsemin sé ennþá meiri en við höfðum reiknað með.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Íbúðafjárfesting og talningar Samtaka iðnaðarins (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara.

dd1bcdd8-1a9f-11ea-910f-005056be2922

No filter applied

Tengdar greinar