Hagsjá

Nýbyggðar íbúðir sjást ekki mikið í sölutölum enn sem komið er

Samkvæmt þinglýsingargögnum voru einungis seldar 515 eins og tveggja ára íbúðir á höfuðborgarsvæðinu á árinu 2016 og 532 á árinu 2015. Það sem af er árinu hafa einungis verið seldar um 250 nýjar íbúðir. Sé litið á samskonar tölur frá stærstu bæjunum á höfuðborgarsvæðinu á árinu 2007 sést að mun meira var selt af nýjum íbúðum á því ári.

31. ágúst 2017  |  Hagfræðideild

Samantekt

Mestallar upplýsingar Þjóðskrár Íslands um fasteignamarkaðinn á Íslandi byggja á þinglýstum kaup- og leigusamningum. Þar má nefna vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu, vísitölu leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu og tölur um ávöxtun af útleigu íbúðarhúsnæðis. Ætla má að nánast öllum samningum um viðskipti með íbúðarhúsnæði sé þinglýst og því gefa þessar upplýsingar góða mynd af því sem gerist á fasteignamarkaði.Það hefur einkennt umhverfi byggingastarfseminnar að opinberar tölur um hversu mikið er verið að byggja hverju sinni eru jafnan af skornum skammti. Þetta var sérstaklega áberandi á árunum 2005-2008 þegar byggingastarfsemi var veruleg og lítið gert af því að áætla þörf og viðhafa samstarf milli sveitarfélaga. Á þeim árum gerði Landsbankinn tilraun til þess að fylgjast með hvað var að gerast með beinum talningum og síðustu ár hafa Samtök iðnaðarins haldið samskonar talningum áfram. Opinberar tölur, t.d. frá sveitarfélögum, hafa hins vegar verið mikið á reiki.

Almennt er talið að það þurfi 1.800-2.000 nýjar íbúðir inn á markaðinn á höfuðborgarsvæðinu í venjulegu árferði en að meira þurfi einmitt nú til þess að mæta uppsafnaðri þörf. Ef litið er á fjölda eins og tveggja ára gamalla íbúða sem seldar eru á höfuðborgarsvæðinu á hverju ári eru þær ótrúlega fáar. Samkvæmt þinglýsingargögnum voru einungis seldar 515 eins og tveggja ára íbúðir á árinu 2016 og 532 á árinu 2015. Það sem af er árinu hafa einungis verið seldar um 250 nýjar íbúðir. Sé litið á samskonar tölur frá stærstu bæjunum á höfuðborgarsvæðinu á árinu 2007 sést að mun meira var selt af nýjum íbúðum á því ári.

Sé litið á hlutfall nýrra íbúða af öllum seldum íbúðum sést að staðan er mjög mismunandi eftir sveitarfélögum. Í Garðabæ var u.þ.b. 40% af sölu íbúða nýjar íbúðir árið 2016 og sama gildir um það sem af er 2017. Hlutfallið fyrir Reykjavík er hins vegar innan við 5%.

Það hlýtur að koma á óvart að þinglýstir kaupsamningar um sölu á nýjum íbúðum eru tiltölulega fáir. Samningar á árinu 2016 voru alls 515 sem er nokkuð langt frá áætlaðri þörf og þeirri umræðu um að mikil byggingastarfsemi sé í gangi. Miðað við mikla verðhækkun á markaðnum ættu nýjar íbúðir að seljast hratt og engar vísbendingar eru uppi um að erfitt sé að selja nýbyggðar íbúðir. Opinberar tölur um fjölda þinglýstra kaupsamninga ættu samt að gefa góða mynd af núverandi þróun.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Nýbyggðar íbúðir sjást ekki mikið í sölutölum enn sem komið er

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara

e658f298-8e26-11e7-96dd-0050568800ef

No filter applied

Tengdar greinar