Hagsjá

Breytingar á fjármálastefnu – erfiðir tímar framundan í fjármálum hins opinbera

Samkvæmt tillögu að fjármálaáætlun stefnir í að halli hins opinbera verði 12,5% af landsframleiðslu í ár. Vikmörk á óvissusvigrúmi í stefnunni hafa verið aukin og séu vikmörkin tekin með gæti hallinn í ár numið 14,5% af landsframleiðslu. Reiknað er með að það dragi úr hallanum á næstu árum og að hann verði kominn í u.þ.b. 10% af landsframleiðslu árið 2022.

1. september 2020  |  Hagfræðideild

Samantekt

Forsendur gildandi fjármálastefnu eru brostnar og Alþingi fjallar nú um breytingar á stefnunni fyrir árin 2018-2022. Þetta er í annað skipti sem breytingar eru gerðar á fjármálastefnu þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr. Sú fyrri var gerð þegar blikur fóru að sjást varðandi hagkerfið á síðasta ári. Nú er endurskoðun nauðsynleg vegna dýpstu efnahagslægðar sem sést hefur um langa hríð.

Fjárlög hvers árs byggja m.a. á fjármálastefnu stjórnartímabilsins. Því er ekki hægt að leggja fram fjárlagafrumvarp á grundvelli núgildandi stefnu þar sem allar meginforsendur hennar eru brostnar og því þarf ný fjármálastefna að liggja fyrir áður en fjárlagafrumvarp er lagt fram. Samkvæmt lögum á Alþingi að samþykkja fjármálastefnu og fjármálaáætlun að vori, en vegna mikillar óvissu það sem af er árinu er það ekki gert fyrr en nú.

Ríkissjóður hefur á síðustu mánuðum tekið á sig veruleg útgjöld og skuldbindingar vegna faraldursins og ljóst er að útgjöld hafa farið langt fram úr þeim markmiðum sem hafa gilt til þessa.

Samkvæmt fyrirliggjandi tillögum verður afkomu- og skuldamarkmiðum gildandi fjármálastefnu breytt á þann veg að þau endurspegli nýjar og breyttar horfur í efnahagsmálum og nauðsynlegar aðgerðir þeim tengdum.

Samkvæmt tillögu að fjármálaáætlun stefnir í að halli hins opinbera verði 12,5% af landsframleiðslu í ár. Fjármálaráðherra hefur nefnt að halli ríkissjóðs gæti orðið um 300 ma.kr. á árinu. Vikmörk á óvissusvigrúmi í stefnunni hafa verið aukin og séu vikmörkin tekin með gæti hallinn í ár numið 14,5% af landsframleiðslu. Reiknað er með að það dragi úr hallanum á næstu árum og að hann verði kominn í u.þ.b. 10% af landsframleiðslu árið 2022.
Skuldir hins opinbera hafa minnkað verulega á síðustu árum og voru orðnar tiltölulega lágar miðað við margar nágrannaþjóðir. Opinberar skuldir voru um 30% af landsframleiðslu á árinu 2019, en nú er reiknað með að þær verði komnar vel yfir 60% á árinu 2022.

Fyrri markmið um áframhaldandi lækkun skulda eru nú fyrir bí og á árinu 2022 er gert ráð fyrir að þær verði orðnar 35% hærri, sem hlutfall af landsframleiðslu, en reiknað var með í fyrri áætlunum.

Á þessu ári má reikna með að afkoma A-hluta hins opinbera verði um 14% lakari en reiknað var með í fyrri áætlunum sé miðað við hlutfall af landsframleiðslu. Staðan verður áfram lakari en reiknað var með og á árinu 2022 er reiknað með u.þ.b. 10% lakari stöðu en í fyrri áætlun.

Hlutverk hins opinbera í hagstjórn og efnahagslífinu verður mikið á næstu árum, og á það einkum við um ríkissjóð. Þrátt fyrir að áfallið sé mikið og að opinber fjármál verði þanin til hins ýtrasta er að finna smá ljós í myrkrinu í tillögunum um breytingar á fjármálastefnunni.

Í greinargerð með tillögunum segir að í öllum áföllum skapist tækifæri til umbóta og nýsköpunar. Þar segir einnig að stjórnvöld ætli sér að skapa skilyrði fyrir nýju vaxtar- og framfaraskeiði í verðmætasköpun efnahagslífsins með umfangsmiklu framkvæmdaátaki og arðbærum fjárfestingum í menntun, rannsóknum, nýsköpun, grænum lausnum og stafrænni opinberri þjónustu.

Þá má einnig benda á að fjármögnunarkjör ríkissjóðs eru nú með lægsta móti þannig að hallarekstur í nokkur misseri er ódýrari en oft hefur verið. T.d. er raunávöxtunarkrafan á verðtryggðum ríkisbréfum til sex ára nú orðin neikvæð.

Segja má að hið opinbera sé nú í bílstjórasætinu hvað hagstjórn varðar og verði það á næstu árum. Það ættu því að vera góð skilyrði fyrir stjórnvöld að koma stefnumiðum sínum í framkvæmd.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Breytingar á fjármálastefnu – erfiðir tímar framundan í fjármálum hins opinbera (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara.

ed74e3ff-ec33-11ea-9115-005056be2922

No filter applied

Tengdar greinar