Hagsjá

Áfram neikvæð tíðindi af vinnumarkaði – varla tímabundið ástand

Stytting vinnutíma ætti að öllu jöfnu að fela í sér að heildarlaun hækki minna en launavísitala þar sem yfirvinnutekjur skerðast. Heildarlaun alls hækkuðu um 5,8% milli 2. ársfjórðungs 2019 og 2020. Á sama tíma hækkaði launavísitalan um 6,7% þannig að stytting vinnutíma kemur greinilega fram í þróun heildarlauna. Þróun innan einstakra greina og markaða er mismunandi. Þannig hækkuðu heildarlaun í gisti- og veitingarekstri einungis um 1,4% á þessum tíma.

25. september 2020  |  Hagfræðideild

Samantekt

Samkvæmt niðurstöðum vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofu Íslands er áætlað að um 208.500 manns hafi verið á vinnumarkaði í ágúst, sem jafngildir 81,1% atvinnuþátttöku. Af fólki á vinnumarkaði voru um 195.900 þús. starfandi og um 12.400 atvinnulausir. Fjöldi starfandi fólks var óbreyttur milli ára og atvinnulausum fjölgaði um 5.100. Hlutfall starfandi var 76,2% í júlí og hafði aukist um 0,5 prósentustig frá ágúst 2019.

Töluverðar sveiflur geta orðið á milli mánaða í tölum um starfandi fólk á vinnumarkaði. Sé litið á 12 mánaða hlaupandi meðaltal hafði fjöldi starfandi ekki breyst mikið allt síðastliðið ár eftir nær stöðuga fjölgun í nokkur ár. Starfandi fólki hefur svo fækkað á þessu ári sé miðað við 12 mánaða meðaltal.

Í apríl var atvinnuþátttaka 75,8% og hafði ekki verið lægri a.m.k. frá árinu 2003 þegar vinnumarkaðskönnunin hófst. Atvinnuþátttaka hefur verið meiri síðustu mánuði og mældist 81,9% nú í ágúst. Sé miðað við 12 mánaða hlaupandi meðaltal fór atvinnuþátttaka hæst um mitt ár 2017, en þá fór hún upp í tæp 84%. Samsvarandi tala nú er 79,9% og hefur verið nær óbreytt síðustu 5 mánuði.

Samkvæmt vinnumarkaðskönnun voru um 12.400 atvinnulausir í ágúst, sem samsvarar 6% atvinnuleysi. Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar voru um 17.800 skráðir atvinnulausir í almenna bótakerfinu í lok ágúst (án skerts starfshlutfalls), sem samsvarar 8,5% atvinnuleysi. Almennt atvinnuleysi að viðbættu atvinnuleysi í hlutabótakerfinu var hins vegar 9,4% í ágúst.

Fjöldi starfandi á vinnumarkaði var sá sami í ágúst nú og í ágúst í fyrra. Venjulegar vinnustundir voru hins vegar 1,4 færri en var í ágúst 2019. Þetta þýðir að fjöldi unninna stunda, eða vinnuaflsnotkun, hefur farið minnkandi. Vinnutími hefur nú styst 5 mánuði í röð miðað við sama mánuð í fyrra sem hefur átt sinn þátt í fækkun heildarvinnustunda.

Stytting vinnutíma ætti að öllu jöfnu að fela í sér að heildarlaun hækki minna en launavísitala þar sem yfirvinnutekjur skerðast.

Nýjustu tölur Hagstofu Íslands um heildarlaun ná til 2. ársfjórðungs 2020. Þær tölur sýna að heildarlaun alls hækkuðu um 5,8% milli 2. ársfjórðungs 2019 og 2020. Á sama tíma hækkaði launavísitalan um 6,7% þannig að stytting vinnutíma kemur greinilega fram í þróun heildarlauna.
Þróun innan einstakra greina og markaða er mismunandi. Þannig hækkuðu heildarlaun í gisti- og veitingarekstri einungis um 1,4% á þessum tíma, sem kemur ekki á óvart miðað við stöðuna í þessum greinum. Heildarlaunin hækkuðu hins vegar um 9,4% í fjármála- og vátryggingarstarfsemi sem er vel umfram hækkun launavísitölu.

Heildarlaun á almenna vinnumarkaðnum hækkuðu um 6,7%, eða um jafn mikið og launavísitalan. Heildarlaun á opinbera markaðnum hækkuðu hins vegar um 5,4% á sama tíma.

Frá því að faraldurinn skall á hafa opinber úrræði til þess að draga úr afleiðingum áfallsins verið í sífelldri endurskoðun. Á sumarþingi var ákveðið að framlengja hlutabótaleiðina fram til áramóta og sama má segja um heimild til tímabundinna greiðslna vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví án þess að vera sýktir. Þá var tímabil tekjutengdra atvinnuleysisbóta lengt tímabundið úr þremur mánuðum í sex og möguleikar atvinnulausra til náms auknir.

Síðan faraldurinn hófst hafa stjórnvöld sagt að þau muni vera sífellt á verði og aðlagað aðgerðir að þörf og stöðu hverju sinni. Það hefur gengið vel fram að þessu, en fyrri væntingar um að hér sé einungis um tímabundið vandamál að ræða verða sífellt veikari. Það verður æ ljósara að íslenskt efnahagslíf, og þar með vinnumarkaður, þarf að breytast mikið á næstu misserum ef okkur á að takast að ná aftur fyrri styrk.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Áfram neikvæð tíðindi af vinnumarkaði – varla tímabundið ástand (PDF)

Póstlistar

Þú getur fengið reglulegar tilkynningar um nýtt útgáfuefni Landsbankans með því að skrá þig á póstlista. Bankinn gefur út fjölbreytt efni um fjármál, efnahagsmál, eignastýringu og ýmislegt fleira.

Skráðu þig á póstlista

Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér er unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær voru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara.

f285c2bb-ff03-11ea-9117-005056be2922

No filter applied

Tengdar greinar