Einkaneyslan hefur náð sér á strik eftir mikinn samdrátt í kjölfar hrunsins. Einkaneysla í heild mældist í fyrra u.þ.b. 7% meiri en á toppi síðasta góðæris árið 2007, en mælt á hvern íbúa er útlit fyrir að hún nái fyrri toppi á þessu ári.

 31. október 2018

Vöxturinn hefur verið einkar mikill allra síðustu ár, í takt við spár Hagfræðideildar; 7,9% í fyrra og 7,2% árið 2016. Á fyrri hluta þessa árs hefur heldur hægt á vextinum sem mældist þó 5,3% samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Útlit er fyrir að enn frekar hægist um á seinni helmingi ársins og við gerum ráð fyrir að vöxtur einkaneyslu á árinu 2018 í heild verði um 4,3%.

Þróun einkaneyslunnar færist á ný í átt að þróun kaupmáttar launa

Aukin einkaneysla síðustu ár skýrist m.a. af vaxandi kaupmætti og fólksfjölgun. Allt þar til á síðasta ári var vöxtur einkaneyslu þó hægari en sem nam aukningu kaupmáttar launa. Er það til marks um að heimilin hafa sýnt meiri ráðdeild nú en á fyrri hagvaxtarskeiðum og ráðstafað hluta aukinna ráðstöfunartekna í sparnað.

Í fyrra jókst einkaneysla hins vegar talsvert meira en kaupmáttur, eða um 7,8%, á meðan kaupmáttur launa jókst að jafnaði um 5% yfir árið. Á fyrri helmingi ársins 2018 hækkaði vísitala kaupmáttar launa um 4,4% á meðan einkaneyslan jókst heldur meira, eða um ríflega 5%. Það er því útlit fyrir að góðærismerkin í einkaneyslunni í fyrra hafi verið tímabundin og þróun einkaneyslunnar sé smám saman að færast í átt að þróun kaupmáttar.

 

 

 

 
 

 

Lítill vöxtur kortaveltu innanlands á seinni helmingi ársins

Framan af árinu jókst greiðslukortavelta kröftuglega. Á haustmánuðum hægði hins vegar verulega á vextinum og útlit er fyrir að kortavelta Íslendinga í verslun innanlands dragist lítillega saman miðað við fyrra ár. Greiðslukortavelta Íslendinga erlendis vex hins vegar enn af töluverðum krafti. Erlend kortavelta er nú orðin u.þ.b. fjórðungur kortaveltunnar og hefur hlutfallið aldrei verið hærra.

Tölur um greiðslukortanotkun benda til þess að töluvert hafi hægt á vexti kortaveltu innlendra aðila í verslun innanlands. Fyrstu sex mánuði ársins jókst veltan um 4% samanborið við 6,7% á sama tíma í fyrra. Samanlögð velta á þriðja ársfjórðungi dróst hins vegar saman um 2,3% miðað við fyrra ár. Þetta er verulegur viðsnúningur á þróuninni miðað við síðustu ár en leita þarf aftur til fyrsta ársfjórðungs árið 2013 til að finna samdrátt í kortaveltunni hér innanlands yfir heilan ársfjórðung. Reyndar hefur kortaveltan innanlands dregist saman samfleytt frá því í maí en tæplega 14% vöxtur í apríl gerði það að verkum að um 3,2% aukning mældist á fjórðungnum. Það vekur athygli að samdráttur kortaveltu síðustu mánuði hefur aukist en alls dróst kortaveltan saman um 6% í september miðað við fyrra ár.

Horft yfir fyrstu þrjá ársfjórðunga ársins var kortaveltan hér innanlands þó um 1,9% meiri en á sama tíma í fyrra.

Veruleg aukning er hins vegar enn í kortaveltu Íslendinga erlendis og í erlendri netverslun, u.þ.b. 22% aukning á þriðja ársfjórðungi. Þessi aukning nægði til að vega upp samdráttinn hér innanlands á fjórðungnum og jókst heildarkortavelta Íslendinga um 2,7%. Horft einungis til septembermánaðar dugði 19% aukning í kortaveltu erlendis ekki til og dróst heildarkortaveltan saman um 0,8%.

 

 

 

Væntingar almennings á hraðri niðurleið

Væntingavísitala Gallup hefur nánast verið á stöðugri niðurleið allt frá upphafi ársins. Síðustu mánuði hefur vísitalan fallið hratt og í september voru aðeins tæplega 43% svarenda jákvæð gagnvart núverandi efnahagsaðstæðum og væntingum til næstu sex mánaða. Í desember í fyrra var samsvarandi hlutfall tæplega 69%.

Skuldir heimila vaxa hraðar það sem af er ári og eiginfjárstaðan lækkar

Heildarskuldir heimilanna jukust um 2,2% að raunvirði á síðasta ári. Það sem af er þessu ári, fram í júlí, jukust skuldir heimila töluvert meira, eða að jafnaði um 3,3% að raunvirði miðað við fyrra ár. Aukningin er þó enn innan tiltölulega hóflegra marka og skýrist eingöngu af vexti fasteignalána því önnur neytendalán hafa lítið aukist. Á sama tíma hefur hins vegar hægt á hækkun fasteignaverðs en í september hafði raunverð íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu aðeins hækkað um 2,1% frá fyrra ári. Hækkun skulda umfram hækkun eignaverðs er vísbending um að eiginfjárstaða heimila sé tekin að lækka á ný eftir umtalsverða hækkun síðustu ár, sem einkum má rekja til hækkunar fasteignaverðs. Við gerum ráð fyrir að hækkun fasteignaverðs verði hófleg á spátímanum og því ólíklegt að eigið fé heimila aukist í sama mæli á spátímanum og undanfarin þrjú ár.

 

 
 

 

Hægari hækkun eignaverðs hægir á einkaneyslu

Samspil þróunar skulda og eignaverðs hefur óbeint áhrif á einkaneyslu í gegnum svokölluð auðsáhrif. Síðustu ár hefur fasteignaverð að jafnaði hækkað langt umfram skuldir heimila og hafa fasteignaeigendur því að jafnaði upplifað sig efnaðri fyrir vikið. Það hefur almennt hvetjandi áhrif á neyslu, sérstaklega stærri neysluútgjöld svo sem ökutæki og utanlandsferðir. Skuldastaða heimila er þó enn lág í sögulegu samhengi og svigrúm fasteignaeigenda til aukinnar skuldsetningar því að jafnaði enn töluvert.

Við gerum þó ráð fyrir að uppgangurinn í bifreiðakaupum hafi náð hámarki og að hlutfall útgjalda heimila til bifreiðakaupa muni dragast saman á næstu árum. Kannanir á fyrirhuguðum stórkaupum heimila renna stoðum undir þessa kenningu. Hlutfall svarenda sem hyggst ráðast í bifreiðakaup næstu mánuði hefur lækkað lítillega frá sama tímabili fyrir ári síðan. Hlutfall einstaklinga sem áformar utanlandsferðir á komandi misseri er hins vegar svipað og fyrir ári síðan. Veiking krónunnar kann þó að setja strik í reikninginn, einkum ef flugfargjöld taka að hækka í takt við hækkun eldsneytisverðs.

 

 

 

Hóflegur vöxtur einkaneyslu framundan

Allt bendir til þess að vaxtarhraði einkaneyslunnar hafi náð hámarki. Hann verður þó væntanlega áfram kröftugur á yfirstandandi ári en svo hægir verulega á aukningunni á næstu árum. Það skýrist fyrst og fremst af því að það dregur úr þenslu í hagkerfinu og atvinnuleysi eykst lítillega. Í kjölfarið mun hægja á fjölgun erlendra ríkisborgara, auk þess sem kaupmáttaraukning launa mun líklega verða talsvert minni næstu þrjú ár en undanfarin þrjú ár, þegar hún var nánast fordæmalaus. Góð eignastaða heimila og lág skuldastaða mun á móti styðja við áframhaldandi vöxt.

Spá okkar gerir ráð fyrir að einkaneysla aukist um 4,3% á þessu ári, 3,2% á næsta ári, 3,0% 2020 og 3,5% 2021.