Verulega hefur hægt á hækkun fasteignaverðs á síðustu mánuðum. Heildarhækkun húsnæðisverðs á höfuðborgarsvæðinu var 3,9% á einu ári fram til september 2018 og hefur hækkunartakturinn ekki verið lægri síðan vorið 2011.

31. október 2018

Verð á fjölbýli hafði í september hækkað um 3,4% á síðustu tólf mánuðum og verð á sérbýli um 4,4%. Mikil ró hefur því færst yfir þennan markað eftir hamaganginn sem ríkti fram á mitt ár 2017.

Þess er að vænta að framboð á nýjum íbúðum aukist næstu mánuði og líklegt að verð nýrra seldra íbúða haldi verðinu uppi.

Það sem af er árinu hefur fermetraverð á nýjum íbúðum á höfuðborgarsvæðinu verið um 16% hærra en á eldri íbúðum þannig að aukinn hluti nýrra íbúða af viðskiptum ætti að öllu jöfnu að draga verð upp á við.

 

 

 

 

 

Raunverð fasteigna stöðugt

Veruleg hækkun fasteignaverðs á síðustu misserum hefur orðið samhliða mjög lítilli verðbólgu og reyndar var verðbólga án húsnæðis neikvæð í langan tíma. Hækkun húsnæðisverðs mæld á föstu verðlagi án húsnæðis hefur því verið veruleg, en þó hefur hægt á árshækkuninni hægt og bítandi. Raunverð fasteigna nú í september var reyndar rúmlega 2% hærra en það var í september 2017. Hækkun raunverðs síðustu 12 mánuði er mun minni en árin þar á undan. Samsvarandi tölur voru 23,5% fyrir 2017 og 12,6% fyrir 2016.

 

 
 

 

Höfuðborgarsvæðið dregst aftur úr

Verðhækkanir hafa haldið áfram í stærri bæjum á landsbyggðinni samtímis því að dregið hefur verulega úr þeim á höfuðborgarsvæðinu. Þannig hafa hækkanir verið sérstaklega miklar í Reykjanesbæ og á Akureyri á síðustu ársfjórðungum.

Viðskipti fleiri en á sama tíma í fyrra

Fjöldi viðskipta með húsnæði á höfuðborgarsvæðinu hefur verið nokkuð stöðugur í sumar og mun meiri en á síðasta ári. Meðalfjöldi viðskipta síðustu fjóra mánuði fram til september var um 660 viðskipti til samanburðar við u.þ.b. 530 viðskipti á sama tíma á síðasta ári og um 590 á árinu 2016. Sumarið hefur því verið vel nýtt til fasteignaviðskipta.

 

 
 

 

Svipaður fjöldi viðskipta og var 2015

Sé litið á fjölda viðskipta yfir lengra tímabil má sjá að þeim fækkaði á milli ára í fyrra í fyrsta skipti í langan tíma. Viðskiptin á árinu 2017 voru álíka mikil og á árinu 2015. Fækkunin hefur haldið áfram á fyrstu mánuðum ársins 2018 og er meðalfjöldi viðskipta fyrstu fjóra mánuðina orðinn álíka mikill og var að meðaltali á árunum 2003-2017.

Viðskipti álíka mikil og var 2016

Viðskiptum með fasteignir fækkaði á milli áranna 2016 og 2017. Eftir fyrstu níu mánuðina í ár eru meðalviðskipti á mánuði orðin álíka mikil og á árinu 2016. Munurinn felst fyrst og fremst í meiri viðskiptum með íbúðir í fjölbýli og þar á aukið framboð nýrra íbúða stóran þátt.

 

 

 

Markaðurinn tiltölulega rólegur

Í sögulegu samhengi hefur fasteignamarkaðurinn verið mjög rólegur allt síðasta ár. Sé litið til tímabilsins frá aldamótum hefur meðalhækkun fasteignaverðs á ári verið í kringum 9% og meðalhækkun raunverðs um 5%. Hækkun nafnverðs um 3,4% á einu ári og hækkun raunverðs um 2,1% er langt fyrir neðan áðurnefnt langtímameðaltal.

Miklar breytingar eru ekki fyrirsjáanlegar í þessum efnum. Aukið framboð og sala nýrra íbúða mun væntanlega halda íbúðaverði uppi og reikna má með að óvissa í tengslum við kjarasamninga á næstu mánuðum muni halda markaðnum á rólegri endanum. Eftir að þeirri óvissu lýkur má ætla að fasteignamarkaðurinn leiti smám saman í svipað horf og verið hefur til lengri tíma.

Hagfræðideild spáir því að fasteignaverð hækki um 4,3% á árinu 2018, 4% á árinu 2019, 6% árið 2020 og 8% 2021.