Eitt af einkennum efnahagsuppsveiflu síðustu ára hefur verið mikil aukning í útflutningi. Aukninguna má að langmestu leyti rekja til þess ævintýralega vaxtar sem verið hefur í íslenskri ferðaþjónustu á síðustu árum.

31. október 2018

Frá 1980 til og með ársins 2008 lá hlutfall útflutnings af landsframleiðslu á tiltölulega þröngu bili, 26-32%. Með gengisfallinu hækkaði þetta hlutfall upp í 37% árið 2009. Vöxturinn í ferðaþjónustu hefur haldið áfram að ýta undir hækkun hlutfallsins og árið 2017 var það komið upp í 45%. Það er rúmlega helmingi hærra hlutfall en var að meðaltali á árunum 1980 til 2008. Hagvaxtarþróun hér á landi er því orðin umtalsvert næmari fyrir þróun í útflutningi landsins og þá sérstaklega gagnvart breytingum í þróun og umfangi ferðaþjónustu.

Vöxtur ferðalaga verður lítill á árinu

Á síðasta ári jókst heildarútflutningur vöru og þjónustu um 5,5%. Það er nokkuð minni vöxtur en síðustu tvö ár þar á undan þegar hann var á bilinu 9,1-10,9%. Vöxtur bæði vöru- og þjónustuútflutnings reyndist nokkuð minni en árin 2015 og 2016. Vöxtur vöruútflutnings nam 1,4% borið saman við 3,3-3,7% síðustu tvö ár þar á undan. Lítill vöxtur á síðasta ári helgast m.a. af minni þorskveiðum sem rekja má að töluverðu leyti til sjómannaverkfallsins í byrjun þess árs. Vöxtur þjónustuútflutnings nam 8,8% á síðasta ári en hann lá á bilinu 15,7-18,7% á árunum 2015 og 2016. Minni vöxt má að mestu leyti rekja til mun minni neysluaukningar ferðamanna á milli ára sem skýrist að stórum hluta af verðhækkunum hér á landi í erlendri mynt, bæði vegna gengisstyrkingar og verðhækkana í krónum.

 

 

 

 

 

Við gerum ráð fyrir að útflutningur aukist um 3,7% á þessu ári og að hann verði borinn af vexti farþegaflutninga. Framlag ferðalaga verður væntanlega mun minna á þessu og næstu árum en verið hefur síðustu ár. Áfram mun hægja á vextinum á árinu 2019 en þá verða farþegaflutningar einnig megin drifkrafturinn. Áhrif ferðalaga verða töluvert minni. Árin 2020 og 2021 mun áfram draga úr vexti útflutnings. Þannig er gert ráð fyrir 1,7% vexti árið 2020 og 1,4% árið 2021. Þessi tvö ár er gert ráð fyrir að vöxtur ferðaþjónustu verði fremur lítill, hvort sem horft er til ferðalaga eða farþegaflutninga.

 

 

 

Tímabili kröftugs vaxtar í ferðaþjónustu lokið

Af þróun síðustu fjórðunga má draga þá ályktun að sjö ára löngu sprengjuvaxtartímabili í íslenskri ferðaþjónustu sé lokið og við taki mun hægari en jafnframt sjálfbærari vöxtur. Þetta má sjá greinilega þegar litið er til þróunar á fjölda ferðamanna og fjölda gistinátta ferðamanna.

Fjölgun gistinátta erlendra ferðamanna á hótelum, gistiheimilum og Airbnb-íbúðum hefur á síðustu misserum verið ögn meiri en sem nemur fjölgun ferðamanna. Þetta endurspeglar lengri dvalartíma ferðamanna hér á landi. Það sem hefur haldið uppi fjölguninni í heildarfjölda gistinátta hefur verið mikil fjölgun gistinátta í gegnum Airbnb. Á síðasta ári fjölgaði gistinóttum á hótelum, gistiheimilum og í gegnum Airbnb um rúma 1,8 milljón, eða um 30%. Airbnb skýrir um 78% af fjölguninni og af því má ráða að ef Airbnb hefði ekki notið við hefði fjölgun gistinátta einungis verið 6,6% að öðru óbreyttu. Á síðasta ári fjölgaði erlendum ferðamönnum um 24,2% og því er ljóst að lengri dvalartíma ferðamanna á síðasta ári má fyrst og fremst rekja til aukningar í Airbnb.

 

 

 

Dvalartími ferðamanna að styttast á öðrum fjórðungi

Nú á öðrum fjórðungi ársins styttist dvalartími ferðamanna miðað við sama tímabil í fyrra í fyrsta sinn eftir að tölur frá Airbnb komu inn í heildarfjölda gistinátta. Á fyrstu tveimur mánuðum þriðja fjórðungs þessa árs hélt sú þróun áfram. Hluta af þessari þróun má án efa skýra með því að erlendir ferðamenn eru að mæta sterkri krónu með því að dvelja skemur hér á landi. Þetta þýðir einnig að jafnvel þó að ferðamönnum kunni að halda áfram að fjölga á næstu misserum er það ekki endilega ávísun á vöxt í ferðaþjónustu hér á landi.

Lítil fjölgun ferðamanna á spátímabilinu

Við gerum ráð fyrir að fjölgun ferðamanna verði 6% á þessu ári en að fjölgunin verði 2% á hverju ári á tímabilinu 2019-2021. Þetta er talsvert minni fjölgun en sem nemur sögulegum meðalvexti í komum ferðamanna hingað til lands en hann er tæplega 10%. Það er ljóst að styrkur krónunnar er nú loks farinn að bíta á fjölgun ferðamanna enda verð á íslenskri ferðaþjónustu orðið mjög hátt í samanburði við flest lönd. Þrátt fyrir að krónan hafi gefið aðeins eftir á síðustu vikum er raungengi krónunnar á mælikvarða verðlags nálægt sterkustu gildum sem mælst hafa síðustu 40 ár.

 

 

 

Við gerum ráð fyrir að krónan veikist á þessu ári og að hún muni veikjast lítillega áfram út spátímabilið. Gangi það eftir mun sú þróun vissulega hafa jákvæð áhrif á vöxt ferðaþjónustu og fjölgunina til lengri tíma litið. Gengisbreytingin er hins vegar það lítil að ætla má að áhrifin verði fremur léttvæg á vöxt ferðaþjónustu og að verð á íslenskri ferðaþjónustu muni því áfram haldast hátt í samanburði við flest önnur lönd.

Mikil óvissa um formerkið á fjöldaþróuninni

Óvissan um fjölgunina á þessu ári er augljóslega fremur lítil í ljósi þess hve langt er liðið á árið en óvissan um fjölgun næstu ára er töluvert mikil. Óvissan um þróunina markast m.a. af þáttum eins og gengisþróun krónunnar og flugframboði til landsins. Þannig verða að teljast umtalsverðar líkur á því að ferðamönnum kunni að fækka á einhverjum af næstu árum ef krónan helst áfram tiltölulega sterk. Gefi krónan verulega eftir á næstu misserum mun það styðja við áframhaldandi fjölgun ferðamanna og gistinátta hér á landi. Gengisveiking myndi líklegast einnig ýta undir aukið flugframboð til landsins. Hin hliðin á peningnum er að ef veiking krónunnar fer saman við aukna verðbólgu er ekki sjálfgefið að raungengið lækki. Hækkun innlends verðlags í krónum talið gæti því dregið verulega úr þeirri kaupmáttaraukningu erlendra ferðamanna í heimagjaldmiðli sem fylgir veikara nafngengi krónunnar.

Hin hliðin á útflutningi ferðaþjónustunnar er farþegaflutningar og þar vegur starfsemi Icelandair og WOW air langþyngst. Við gerum ráð fyrir að félögin muni auka flugframboð sitt nokkuð á næstu mánuðum en að það hægist á aukningunni næsta vor. Það verða því farþegaflutningar sem munu drífa vöxtinn í útflutningi ferðaþjónustu á næsta ári. Litið lengra fram í tímann gerum við ráð fyrir mjög hóflegum vexti, eða undir 5%, bæði árin 2020 og 2021.

 

 

 

Óvissa um kísilútflutning á næstu árum

Nokkur óvissa hefur ríkt um stóriðjuframkvæmdir tengdar kísilmálmverksmiðjum hér á landi og áhrif þeirra á útflutning. Starfsemi United Silicon liggur niðri og á þessari stundu er óvíst hvenær og yfirhöfuð hvort starfsemi hefjist þar á nýjan leik. Upphaflega átti að gangsetja PCC á Bakka við Húsavík í desember 2017 en formleg gangsetning var hins vegar í byrjun maí 2018. Töluverð óvissa ríkir um uppbyggingu kísilvers Thorsil og þá einnig hvenær framleiðsla hefjist. Framleiðsla Thorsil mun þó hafa lítil áhrif á vöxt heildarútflutnings.

Þorskveiðar ná sér á strik

Við gerum ráð fyrir töluverðri aukningu í þorskútflutningi á þessu ári og helgast það að mestu leyti af sjómannaverkfallinu á fyrstu tveimur mánuðum síðasta árs. Það setti stórt strik í reikninginn í þorskveiðum á síðasta ári og því útlit fyrir að þær muni aukast nokkuð verulega á þessu ári. Á fyrstu níu mánuðum ársins höfðu þorskveiðar aukist um 14%, eða um tæplega 26.000 tonn, frá því á sama tíma í fyrra. Sú aukning og gott betur kom reyndar öll til á fyrstu tveimur mánuðum ársins.

Áfram mun draga úr vexti innflutnings

Mikil aukning hefur verið í vexti innflutnings á síðustu árum samfara efnahagsuppganginum. Innflutningurinn jókst um 12,5% á síðasta ári, sem er ívið minni vöxtur en árin 2015 og 2016, en töluvert meira en meðalvöxtur innflutnings frá árinu 1997.

 

 
 

 

Innflutningsspáin markast að mestu leyti af spá um þróun einkaneyslu annars vegar og atvinnuvegafjárfestingar hins vegar, enda skýra breytingar í þeim liðum nær allan sögulegan breytileika í vexti innflutnings hér á landi. Þróunin síðustu ár hefur verið sú að vöxtur innflutnings hefur reynst meiri en má skýra með aukningu einkaneyslu og atvinnuvegafjárfestingar út frá þessu sögulega sambandi. Hvað einkaneysluna varðar má gera ráð fyrir að meiri innflutningur skýrist hreinlega af því að mikil fjölgun utanlandsferða Íslendinga hefur aukið vægi einkaneyslu Íslendinga erlendis. Þessu til viðbótar má gera ráð fyrir að aukin ferðalög erlendra ferðamanna hingað til lands hafi aukið innflutning á hvers kyns varningi.

Við gerum ráð fyrir að innflutningur muni vaxa nokkuð hægar á þessu ári en síðustu ár og að vöxturinn verði 5% í ár, en muni síðan halda áfram að dragast saman. Við spáum 3% vexti árið 2019, 2,6% vexti árið 2020 og 1,4% á lokaári spárinnar.

Spáð er ögn minni hagvexti en meiri verðbólgu í viðskiptalöndunum

Spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS), sem birt var í október, gerir ráð fyrir heldur minni hagvexti í helstu viðskiptalöndum Íslands á þessu ári en reiknað var með í apríl síðastliðnum. AGS gerir nú ráð fyrir að meðalhagvöxtur í helstu viðskiptalöndum okkar verði 2,3% í stað 2,6%. Spáin fyrir árið 2019 hefur einnig verið færð niður, úr 2,3% í 2,2%.

 

 

 

Helsti áhrifavaldurinn til lækkunar spárinnar miðað við apríl er þróunin á evrusvæðinu, en það vegur um helming af heildarviðskiptum Íslands við önnur lönd. Þannig er gert ráð fyrir að hagvöxtur á evrusvæðinu verði 2% á þessu ári í stað 2,4%, eins og spáð var í apríl. Spá fyrir evrusvæðið á næsta ári hefur einnig verið færð niður, úr 2% í 1,9%.

Spá um hagvöxt í öðrum helstu viðskiptalöndum okkar eins og Bandaríkjunum, Bretlandi, Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Japan hefur einnig verið færð niður en breytingin er í öllum tilfellum fremur lítil. Spáin fyrir Bretland hefur verið færð mest niður, eða úr 1,6% hagvexti í 1,3%.

Af viðskiptalöndum Íslands verður mesti vöxturinn á þessu ári í Kína, eða 6,6%. Ef marka má spá sjóðsins verður lítið lát á miklum hagvexti í Kína en þó er gert ráð fyrir að smátt og smátt dragi úr honum og að hann verði 5,5% árið 2023.

 

 

 

Ögn hærri verðbólga skýrist af meiri verðbólgu á evrusvæðinu

Verðbólga í helstu viðskiptalöndum Íslands tók við sér á síðasta ári eftir að hafa verið mjög lítil á árabilinu 2014-2016. Þannig nam verðbólga 1,7% á síðasta ári eftir að hafa legið á bilinu 0,5-1% á árunum 2014-2016.

Mjög lítil breyting hefur orðið á verðbólguspá AGS fyrir viðskiptalönd Íslands. Hún hefur þó verið hækkuð örlítið. Gert er ráð fyrir 1,9% verðbólgu í viðskiptalöndunum á þessu ári borið saman við spá upp á 1,85% frá því í apríl. Spáin fyrir næsta ár hefur farið úr 1,88% og í 1,91%. Hækkun á verðbólguspá viðskiptalandanna fyrir þetta og næsta ár má eingöngu rekja til væntinga um hærri verðbólgu á evrusvæðinu en spáð var í apríl. Gert er ráð fyrir 1,7% verðbólgu á þessu ári í stað 1,53% í apríl. Spáin fyrir næsta ár hefur verið færð úr 1,63% og upp í 1,7%.

 

 

 

Viðskiptakjörin halda áfram að gefa eftir

Eftir að hafa batnað gríðarlega mikið árin 2014 og 2015 hafa viðskiptakjör þjóðarinnar gefið eftir á allra síðustu árum. Á fyrri hluta þessa árs héldu þau áfram að versna borið saman við meðaltal ársins í fyrra. Það sem helst hefur grafið undan viðskiptakjörunum á þessu og síðasta ári er mikil hækkun á heimsmarkaðsverði olíu en það var einmitt mikil lækkun á olíu sem átti hvað stærstan þátt í mikilli bót viðskiptakjara árið 2015. Það sem hefur þó dregið úr áhrifum olíuverðshækkunar á viðskiptakjörin er að álverð hefur hækkað töluvert á síðustu misserum. Á síðasta ári hækkaði álverð um 23% borið saman við fyrra ár og það sem af er þessu ári hefur álverð verið að meðaltali 9,3% hærra en það var allt árið í fyrra.

 

 

 

Áframhaldandi afgangur af viðskiptajöfnuði

Samanlagður afgangur af viðskiptum við útlönd milli áranna 2014-2017 var rúmlega 550 ma.kr., eða um 140 ma.kr. á ári að meðaltali. Þessar fjárhæðir eru háar og eru einsdæmi í hagsögu landsins. Viðvarandi afgangur af viðskiptum við útlönd hefur m.a. gert það að verkum að erlend staða þjóðarbúsins hefur batnað verulega á þessum árum auk þess sem Seðlabankinn hefur byggt upp veglegan gjaldeyrisforða.

Mun hægari vöxtur útflutnings á komandi árum gerir það að verkum að afgangur af viðskiptum við útlönd verður minni á næstu árum en síðustu ár. Samkvæmt spá okkar verður viðskiptajöfnuður jákvæður um 50 ma.kr. á yfirstandandi ári og um 30 ma.kr. að meðaltali næstu þrjú ár. Þetta er heldur minni afgangur en við gerðum ráð fyrir í spá okkar frá því í maí 2018 og skýrist breytingin að mestu leyti af því að viðskiptakjör hafa versnað meira en við bjuggumst við í maí.