Eftir langt tímabil með kröftugan hagvöxt samfara lágri og stöðugri verðbólgu er útlit fyrir að hægja muni verulega á hagvexti á komandi árum á sama tíma og verðbólga eykst. Efnahagshorfurnar eru engu að síður jákvæðar því gert er ráð fyrir hóflegum en viðvarandi hagvexti á spátímanum.

 31. október 2018

Verðbólguhorfur hafa hins vegar versnað allnokkuð þar sem gengi krónunnar hefur gefið töluvert eftir á sama tíma og viðsnúningur hefur orðið í þróun innflutningsverðs og kostnaðarþrýstingur virðist almennt fara vaxandi innanlands.

Núverandi hagvaxtarskeið er á sínu áttunda ári og útlit er fyrir áframhaldandi jákvæðan hagvöxt allt spátímabilið, sem nær út árið 2021. Við gerum ráð fyrir að hagvöxtur verði 3,9% á þessu ári, studdur vexti einkaneyslu, fjárfestinga og útflutnings. Við spáum hóflegum vexti einkaneyslu samfellt allt tímabilið. Á hinn bóginn verði framlag atvinnuvegafjárfestingar hlutlaust á þessu ári en neikvætt næstu þrjú árin. Við reiknum með nokkuð kröftugum vexti í íbúðafjárfestingu og opinberri fjárfestingu allt spátímabilið. Þá gerum við ráð fyrir u.þ.b. 3% árlegum vexti samneyslu á spátímanum og verður framlag hennar til hagvaxtar því jákvætt allt spátímabilið. Samantekið verður árlegur hagvöxtur frá og með næsta ári rétt um 2% á ári út spátímabilið. Það er svipaður vöxtur og reiknað er með að meðaltali í þróuðum ríkjum á komandi árum.

 

 

 

 

Verðbólguhorfur versna allnokkuð

Verðbólguhorfur hafa versnað nokkuð síðan við birtum uppfærða þjóðhags- og verðbólguspá til 2020 í maí sl. Við spáum nú meiri verðbólgu og gerum ráð fyrir að hún verði yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans allt spátímabilið.

Megindrifkraftarnir á bak við lakari verðbólguhorfur eru skörp veiking krónunnar og hækkandi innflutningsverð. Eldsneytisverð skiptir þar verulegu máli. Óvissan varðandi verðbólguspána er töluvert meiri að þessu sinni en oft áður. Þar vegur þungt að nánast ómögulegt er að spá réttilega fyrir um þróun gengis krónunnar og olíuverðs. Aukið flökt á bæði krónunni og olíuverði gerir það verkefni ekki viðráðanlegra. Eins er mikil óvissa um niðurstöður komandi kjaraviðræðna aðila vinnumarkaðarins . Verði almennt samið um hækkun launa langt umfram framleiðnivöxt í þjóðarbúinu mun það, að öðru óbreyttu, leiða til töluvert verri verðbólguhorfa en hér er gert ráð fyrir.

Samantekið gerum við ráð fyrir að verðbólga eigi eftir að aukast nokkuð á næsta ári og verði mest 3,75% um mitt næsta ár.

Hagspá Landsbankans: Samantekt

Samantekt á helstu niðurstöðum nýrrar þjóðhags-og verðbólguspár Landsbankans. 

 

 

Erfiðar ákvarðanir bíða peningastefnunefndar

Eftir tiltölulega rólegt og átakalítið tímabil við stjórn peningamála síðustu ár, lengst af í skjóli fjármagnshafta, er peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands nú ákveðinn vandi á höndum. Verðbólgan er komin upp fyrir verðbólgumarkmið Seðlabankans, eftir næstum fjögurra ára tímabil stöðugrar verðbólgu sem hefur haldist við eða rétt undir verðbólgumarkmiðinu.

Hækkun verðbólgunnar síðustu mánuði má fyrst og fremst rekja til verðahækkana á innfluttum vörum, bæði vegna veikingar krónunnar og mikillar hækkunar á olíuverði. Ef trúverðugleiki Seðlabankans væri mikill myndi það endurspeglast í stöðugum verðbólguvæntingum til næstu fimm og tíu ára sem væru nálægt markmiðinu þrátt fyrir tímabundna hækkun verðbólgunnar vegna þátta utan áhrifasviðs Seðlabankans. Við þannig aðstæður gæti Seðlabankinn horft framhjá tímabundinni aukningu verðbólgunnar og haldið stýrivöxtum óbreyttum. Ef verðbólguvæntingarnar haldast hins vegar háar, eða hækka jafnvel enn frekar, mun peningastefnunefndin þurfa að bregðast við með hækkun stýrivaxta til að vinna á svokölluðum annarrar umferðar áhrifum vegna veikingar krónunnar og hækkunar eldsneytisverðs.

 

 

 

Sú þróun sem er lýst hér að ofan kemur á fremur óheppilegum tíma fyrir vaxtahækkanir. Hagkerfið er að koma út úr tímabili mikils hagvaxtar og framleiðsluspennu inn í nýtt tímabil hóflegs hagvaxtar og framleiðsluslaka. Undir venjulegum kringumstæðum, þ.e.a.s. með verðbólguvæntingum kirfilega kjölfestum við verðbólgumarkmiðið í 2,5%, þá væri peningastefnunefndin líklega að setja sig í vaxtalækkunarstellingar til að mæta minnkandi spennu í þjóðarbúskapnum.

Tvær reglulegar vaxtaákvarðanir eru eftir á þessu ári, í nóvember og desember. Við teljum líklegt að peningastefnunefndin ákveði að hækka vexti Seðlabankans um 0,25 prósentustig á öðrum hvorum fundinum og að meginvextir bankans, þ.e. innlánsvextir á 7 daga bundnum innlánum, verði 4,5%. Við teljum ólíklegt að 0,25 prósentustiga vaxtahækkun verði nóg til að þrýsta verðbólguvæntingum niður í átt að markmiði og því megi búast við áframhaldandi vaxtahækkunum á næsta ári. Því teljum við að vænta megi frekari hækkunar stýrivaxta um 0,5 prósentustig á næsta ári.

Þessar vaxtahækkanir samfara auknum slaka í þjóðarbúinu ættu að bíta að fullum krafti á síðari hluta spátímabilsins. Við gerum því ráð fyrir að það hægi á verðbólgunni eftir því sem líður á spátímabilið og að hún stefni á ný í átt að verðbólgumarkmiðinu í lok spátímans.

 

Yfirlit yfir þjóðhagsspá Hagfræðideildar Landsbankans

  Í ma. kr.   Magnbreytingar frá fyrra ári
Landsframleiðsla og helstu undirliðir hennar 2017 2018 2019 2020 2021
Verg landsframleiðsla 2.615 3,9 (4,1) 2,4 (2,4) 2,2 (2,4) 1,9
Einkaneysla 1.316 4,3 (5,5) 3,2 (3,5) 3,0 (3,5) 3,5
Samneysla 610 2,7 (2,5) 2,6 (2,0) 2,3 (2,0) 2,0
Fjármunamyndun 582 6,9 (7,4) 0,8 (5,1) 2,3 (2,3) -1,9
- Atvinnuvegafjárfesting 401 0,1 (1,8) -2,8 (0,9) -2,4 (-2,5) -6,7
- Fjárfesting í íbúðarhúsnæði 98 25,0 (20,0) 5,0 (15,0) 10,0 (10,0) 5,0
- Fjárfesting hins opinbera 83 18,0 (19,0) 10,0 (10,0) 10,0 (10,0) 5,0
Þjóðarútgjöld alls 2.508 4,5 (5,2) 2,5 (3,5) 2,7 (2,9) 1,9
Útflutningur vöru og þjónustu 1.206 3,7 (4,9) 2,9 (2,6) 1,7 (2,9) 1,4
Innflutningur vöru og þjónustu 1.099 5,0 (7,4) 3,0 (5,0) 2,6 (4,0) 1,4
           
 
Stýrivextir og verðbólga   2018 2019 2020 2021
Stýrivextir (lok árs, %) - útlánavextir   5,25 (5,00) 5,75 (5,25) 5,50 (5,00) 4,75
- innlánavextir   4,50 (4,25) 5,00 (4,50) 4,75 (4,25) 4,00
Verðbólga (ársmeðaltal, %)   2,6 (2,3) 3,7 (2,7) 3,4 (2,9) 2,9
Gengi evru (ársmeðaltal)   127 (122) 137 (120) 139 (121) 139
Fasteignaverð (breyting milli ársmeðaltala, %)   4,3 (5,2) 4,0 (6,0) 6,0 (6,0) 8,0
   
Ársmeðaltal
Vinnumarkaður   2018 2019 2020 2021
Kaupmáttur launa (breyting frá fyrra ári, %)   3,6 (4,9) 1,1 (3,1) 0,9 (1,9) 1,3
Atvinnuleysi (hlutfall af vinnuafla, %)   2,2 (2,1) 2,7 (2,1) 3,0 (2,2) 3,0
   
Hlutfall af landsframleiðslu
Viðskiptajöfnuður   2018 2019 2020 2021
Vöru- og þjónustujöfnuður   1,7 (3,1) 1,2 (2,8) 0,8 (2,3) 0,8
Viðskiptajöfnuður   1,2 (2,7) 0,7 (2,4) 0,3 (2,0) 0,3

Tölur innan sviga eru spá Hagfræðideildar frá maí 2018

 

Framtíðin ætíð óviss

Efnahagsspár eru ávallt háðar mikilli óvissu sem snýr að þróun fjölda innlendra og erlendra þátta. Óvissan í spánni nú er mikil, ekki síst hvað varðar verðbólguhorfurnar. Það snýr m.a. að óvissu um gengi krónunnar, kjölfestu verðbólguvæntinga og niðurstöður komandi kjaraviðræðna aðila vinnumarkaðarins. Hvað hagvaxtarhorfurnar varðar er óvissan m.a. bundin við þróunina í ferðaþjónustunni á næstu árum. Það er einnig óvíst að hve miklu leyti hið opinbera mun nýta sér það svigrúm sem nú er að skapast til að ráðast í opinberar framkvæmdir sem setið hafa á hakanum undanfarin ár vegna mikillar spennu í þjóðarbúskapnum.

Að lokum er fjöldi erlendra óvissuþátta fyrir utan áhrifasvið íslenska hagkerfisins, svo sem efnahagshorfur í helstu viðskiptalöndum okkar, mögulegar breytingar á olíuverði og verði á öðrum hrávörum sem getur haft veruleg áhrif á bæði verðbólgu- og efnahagshorfur hér á landi.

Hagspá Landsbankans: Efnahagsmál

Rætt við forystufólk úr atvinnulífinu um stöðu og horfur í íslenskum efnahagsmálum.

 

 

 

Einkaneyslan hægir á sér

Einkaneysla jókst af miklum krafti í fyrra, eða um 7,9%. Á fyrri hluta þessa árs hefur heldur hægt á vextinum sem mældist þó 5,3% samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Útlit er fyrir að enn frekar hægist um á seinni helmingi ársins og við gerum ráð fyrir að vöxtur einkaneyslu á árinu 2018 í heild verði um 4,3%.

Allt bendir til þess að vaxtarhraði einkaneyslunnar hafi náð hámarki. Hann verður þó væntanlega áfram kröftugur á yfirstandandi ári en svo hægir verulega á aukningunni á næstu árum. Það skýrist fyrst og fremst af því að það dregur úr þenslu í hagkerfinu og atvinnuleysi eykst lítillega. Í kjölfarið mun hægja á fjölgun erlendra ríkisborgara, auk þess sem kaupmáttaraukning launa mun líklega verða talsvert minni næstu þrjú ár en undanfarin þrjú ár, þegar hún var nánast fordæmalaus. Góð eignastaða heimila og lág skuldastaða mun á móti styðja við áframhaldandi vöxt.

Spá okkar gerir ráð fyrir að einkaneysla aukist um 3,2% á næsta ári, 3,0% 2020 og 3,5% 2021.

 

 

Merki um meira jafnvægi á vinnumarkaði

Síðustu ár hefur atvinnuleysi minnkað jafnt og þétt, en verulega hefur hægt á þeirri þróun, enda er atvinnuleysi orðið afar lítið. Meðalatvinnuleysi síðustu 12 mánaða samkvæmt skráningu Vinnumálastofnunar var 2,2% nú í ágúst, sama hlutfall og í ágúst í fyrra. Atvinnuleysi virðist því hafa náð lágmarki og er ólíklegt að það dragi frekar úr því.

Vinnutími var ívið lengri í ágúst en á sama tíma í fyrra. Sé miðað við 12 mánaða meðaltal hefur vinnutíminn verið mjög stöðugur síðustu mánuði, rúmar 39 stundir.

Sé litið á breytinguna milli 2. ársfjórðungs 2017 og 2018 hefur vinnutími styttist um 0,7% á meðan fjöldi starfandi jókst um 1,3%. Það þýðir að heildarvinnustundum fjölgaði um 0,6% á þessu tímabili. Á 1. ársfjórðungi fjölgaði heildarvinnustundum um 2,3%. Töluverður kraftur virðist því enn fyrir hendi á vinnumarkaðnum, þótt hann sé ekki eins mikill og á síðustu árum.

 

 

 

Laun hækka áfram – en í lækkandi takti

Launavísitalan hækkaði um 0,6% milli ágúst og september. Í september hafði vísitalan hækkað samtals um 5,9% á síðustu 12 mánuðum. Hækkunartaktur launa á ársgrundvelli hafði verið nokkuð stöðugur í rúmlega 7% í u.þ.b. eitt ár en hefur nú verið í kringum 6% frá því í maí. Meginskýring lækkunar á ársbreytingu vísitölunnar eru minni launabreytingar í maí í ár en í fyrra, en áfangahækkanir í almennum kjarasamningum voru í maí bæði í ár og í fyrra.

Verulega hefur hægt á aukningu kaupmáttar launa frá því sem mest var og hefur kaupmáttur verið nokkuð stöðugur frá því um mitt ár 2017. Þar sem verðlag hækkaði einungis um hálft prósent samtals í maí og júní tók kaupmáttur stökk upp á við og jókst um 2,4% milli apríl og júní. Kaupmáttur launa var 3,3% meiri nú í ágúst en hann var fyrir ári. Frá upphafi árs 2015 hefur kaupmáttur launavísitölu aukist um rúm 25%, eða u.þ.b. 7% á ári. Það er mikil aukning, bæði sögulega séð og í samanburði við önnur lönd.

Flestir kjarasamningar í landinu renna út á tímabilinu frá áramótum til loka mars. Heildarkjarasamningur Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins rennur út um áramót. Síðasta samningstímabil hefur verið sérstakt að því leyti að öll markmið kjarasamninga um kaupmáttaraukningu og stöðugleika í kaupmætti hafa náðst og hefur aukning kaupmáttar á tímabilinu verið nær einstök.

Ætla mætti að ánægja ætti að ríkja með stöðu kjaramála við lok samningstímans, en svo er alls ekki. Þær kröfur sem hafa komið fram við upphaf samningaviðræðna eru meiri en sést hafa í áratugi og beinast jafnt að samtökum atvinnurekenda og ríkissjóði. Sérstaklega hefur verið horft til nýlegra úrskurða kjararáðs í þessu sambandi sem valdið hafa mikilli ólgu.

Umræður og yfirlýsingar um stöðu kjaramála hafa verið með harðara móti að undanförnu og ljóst er að mikið starf er framundan við að ná niðurstöðu. Ekki er útilokað að við eigum eftir að sjá vinnudeilur í tengslum við kjarasamningsgerðina að þessu sinni.

 

 

 

Rólegra á fasteignamarkaði

Verulega hefur hægt á hækkun fasteignaverðs á síðustu mánuðum. Heildarhækkun húsnæðisverðs á höfuðborgarsvæðinu var 3,9% á einu ári fram til september 2018 og hefur hækkunartakturinn ekki verið lægri síðan vorið 2011. Verð á fjölbýli hafði í september hækkað um 3,4% á síðustu tólf mánuðum og verð á sérbýli um 4,4%. Mikil ró hefur því færst yfir þennan markað eftir mikinn hamagang fram á mitt ár 2017.

Miklar breytingar eru ekki fyrirsjáanlegar í þessum efnum. Aukið framboð og sala nýrra íbúða mun væntanlega halda íbúðaverði uppi og reikna má með að óvissa í tengslum við kjarasamninga á næstu mánuðum muni halda markaðnum á rólegri endanum. Eftir að þeirri óvissu lýkur má ætla að fasteignamarkaðurinn leiti smám saman í svipað horf og verið hefur til lengri tíma.

Hagfræðideild spáir því að fasteignaverð hækki um 4,3% á árinu 2018, 4% á árinu 2019, 6% árið 2020 og 8% 2021.

 

 

 

Hægur vöxtur fjármunamyndunar á næstu árum

Fjárfesting hefur aukist töluvert á síðustu árum samfara uppgangi í efnahagslífinu. Fjárfesting er sveiflukenndasti liðurinn í þjóðhagsreikningum og vex jafnan hlutfallslega hratt í uppsveiflu og dregst að sama skapi skarplega saman í niðursveiflum.

Á síðasta ári jókst heildarfjármunamyndun í hagkerfinu um 9,5% og er það nokkuð minni vöxtur en síðustu þrjú ár þar á undan, þegar hann lá á bilinu 16-22%. Skýrist minni aukning fjármunamyndunar að mestu leyti af hægari vexti atvinnuvegafjárfestingar. Hann nam rúmlega 4,8% borið saman við á bilinu 17-31% síðustu þrjú ár þar á undan. Á fyrri hluta þessa árs nam vöxtur atvinnuvegafjárfestingar 5,6% sem er í ágætu samræmi við síðasta ár. Þetta gefur vísbendingu um að mesti krafturinn í aukningu fjárfestingar í núverandi uppsveiflu sé að baki.

Drifkraftar fjármunamyndunar í hagkerfinu á næstu árum verður íbúðafjárfesting og fjárfesting hins opinbera en framlag atvinnuvegafjárfestingar verður að okkar mati neikvætt næstu þrjú ár. Við gerum ráð fyrir að heildarfjármunamyndun í hagkerfinu verði 6,9% á þessu ári og nær einungis borin uppi af vexti opinberrar fjárfestingar og íbúðafjárfestingar. Næstu tvö árin verður fjármunamyndun á bilinu 0,8-2,3% en vöxturinn mun markast af neikvæðu framlagi atvinnuvegafjárfestingar. Á lokaári spárinnar gerum við ráð fyrir að fjármunamyndun dragist saman um 1,9% en þá mun neikvætt framlag atvinnuvegafjárfestingar vega þyngra en jákvætt framlag bæði íbúðafjárfestingar og fjárfestingar hins opinbera.

 

 

 

Minni vöxtur útflutnings

Á síðasta ári jókst heildarútflutningur um 5,5%. Það er nokkuð minni vöxtur en síðustu tvö ár þar á undan þegar hann var á bilinu 9,1-10,9%.

Við gerum ráð fyrir að útflutningur aukist um 3,7% á þessu ári og að hann verði borinn uppi af vexti í farþegaflutningum í ferðaþjónustu.

Verulega hægir á fjölgun ferðamanna

Við gerum ráð fyrir að ferðamönnum fjölgi um 6% á þessu ári en að fjölgunin verði 2% á árunum 2019-2021. Þetta er talsvert minni fjölgun en sem nemur sögulegum meðalvexti á fjölda ferðamanna hingað til lands en hann er tæplega 10%.

Framlag ferðalaga verður væntanlega mun minna á þessu og næstu árum en verið hefur síðustu ár. Áfram mun hægja á vexti útflutnings á árinu 2019 en þá verða farþegaflutningar einnig megindrifkrafturinn. Áhrif ferðalaga verða töluvert minni. Árin 2020 og 2021 mun áfram draga úr vexti útflutnings. Þannig er gert ráð fyrir 1,7% vexti árið 2020 og 1,4% árið 2021. Þessi tvö ár er gert ráð fyrir að vöxtur ferðaþjónustu verði fremur lítill, hvort sem horft er til ferðalaga eða farþegaflutninga.

Langmesta óvissan í spánni um vöxt útflutnings á næstu árum snýr að vexti í ferðaþjónustu. Jafnvel þó að ákveðnir vaxtarbroddar séu til staðar í öðrum greinum, líkt og t.d. í fiskeldi, eru þeir hlutfallslega það litlir að þeir hafa ekki teljandi áhrif á vöxt heildarútflutnings á tímabilinu. Það eina sem hefur bolmagn til þess að hreyfa eitthvað verulega við spánni eru hinar útflutningsstoðirnar tvær, stóriðja og sjávarútvegur. Vaxtarmöguleikar þeirra eru þó takmarkaðir. Ráðast þyrfti í mikla fjárfestingu í stóriðju til að auka verulega framlag hennar til útflutningsvaxtar. Við gerum þó ráð fyrir að framlag stóriðju til vaxtar útflutnings á spátímabilinu verði jákvætt öll árin. Það helgast af þeirri uppbyggingu sem hefur átt sér og útlit er fyrir að muni eiga sér stað á næstu árum.

Framlag sjávarútvegs verður töluvert á þessu ári sökum umtalsvert betri þorskveiða en í fyrra. Einnig er gert ráð fyrir hóflegri aukningu í útflutningi sjávarafurða á árunum 2019-2021.

Hagspá Landsbankans: Ferðamenn

Rætt við forystufólk í ferðaþjónustu um stöðu og horfur í atvinnugreininni.

 

 

 

Stígandi samneysla á næstu árum

Samkvæmt fjárlagafrumvarpi 2019 aukast heildarútgjöld ríkissjóðs um 6,9% frá fjárlögum síðasta árs og heildartekjur ríkissjóðs aukast um 6,1%. Þetta veldur því að heildarjöfnuður verður einungis um 1% af vergri landsframleiðslu (VLF) sem er lægra en þau 1,2% sem stefnt hefur verið að til þessa. Útgjaldavöxturinn er því við efri mörk hins mögulega eins og fjármálaráð hefur ítrekað bent á.

Áætlað er að rekstrarafkoma A-hluta sveitarfélaga hafi verið jákvæð um 1,2 ma.kr. á árinu 2017. Samkvæmt fjármálaáætlun verður rekstrarafkoman á yfirstandandi ári jákvæð um 0,1% af VLF og um 0,2% af VLF árið 2019. Næstu ár þar á eftir er gert ráð fyrir að afgangurinn verði nokkuð stöðugur um 0,2% af VLF.

Samneysla jókst um 3,1% árið 2017 og hlutur hennar af VLF hækkaði þá í fyrsta skipti frá 2009. Á undanförnum ársfjórðungum hefur samneysla aukist stöðugt hjá ríki, sveitarfélögum og almannatryggingum og hefur aukningin verið nokkuð stöðug hjá sveitarfélögunum.

Hagfræðideild telur ólíklegt að takast muni að hemja samneysluútgjöld eins mikið og stefnt er að. Eins og áður segir er áætlað að samneyslan hafi aukist um 3,1% á síðasta ári, þrátt fyrir markmið um minni aukningu. Við teljum líklegt að samneyslan muni áfram aukast í svipuðum takti, sem verði aðeins minni en aukning landsframleiðslunnar. Við reiknum því með að samneysla aukist um 2,7% á yfirstandandi ári og vegi aukin útgjöld til heilbrigðismála og félags-, trygginga- og húsnæðismála þar þungt. Samneyslan muni svo aukast um 2,6% á árinu 2019, m.a. vegna árframhaldandi útgjaldaukningar til áðurnefnda málaflokka og aðkomu ríkissjóðs að kjarasamningum. Við reiknum með að þrýstingur á ríkisútgjöld verði orðinn minni á árunum 2020 og 2021 og þá muni samneyslan aukast um 2,3% og 2,0%.

Efnahagshorfur í helstu viðskiptalöndunum svipaðar og í maí

Spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) sem birt var í október gerir ráð fyrir heldur minni hagvexti í helstu viðskiptalöndum Íslands á þessu ári en reiknað var með í apríl síðastliðnum. AGS gerir nú ráð fyrir að meðalhagvöxtur í helstu viðskiptalöndum okkar verði 2,3% í stað 2,6%. Spáin fyrir árið 2019 hefur einnig verið færð niður, úr 2,3% í 2,2%.

Helsti áhrifavaldurinn til lækkunar á spánni miðað við apríl er þróunin á evrusvæðinu, en það vegur um helming af heildarviðskiptum Íslands við önnur lönd. Þannig er gert ráð fyrir að hagvöxtur á evrusvæðinu verði 2% á þessu ári í stað 2,4%, eins og spáð var í apríl. Hagvaxtarspá fyrir evrusvæðið á næsta ári hefur einnig verið færð niður, úr 2% í 1,9%.

Verðbólga í helstu viðskiptalöndum Íslands tók við sér á síðasta ári eftir að hafa verið mjög lítil á árunum 2014-2016. Þannig nam verðbólga 1,7% á síðasta ári eftir að hafa legið á bilinu 0,5-1% á árunum 2014-2016.

Mjög lítil breyting hefur orðið á verðbólguspá AGS fyrir viðskiptalönd Íslands, en gert er ráð fyrir u.þ.b. 1,9% verðbólgu í viðskiptalöndunum á þessu og næsta ári.

 

 

Viðskiptakjörin halda áfram að gefa eftir

Eftir að hafa batnað gríðarlega mikið árin 2014 og 2015 hafa viðskiptakjör þjóðarinnar gefið eftir á allra síðustu árum. Á fyrri hluta þessa árs héldu þau áfram að versna borið saman við meðaltal ársins 2017. Það sem helst hefur grafið undan viðskiptakjörunum á þessu og síðasta ári er mikil hækkun á heimsmarkaðsverði olíu en það var einmitt mikil lækkun á olíu sem átti hvað stærstan þátt í mikilli bót viðskiptakjara árið 2015. Það sem hefur þó dregið úr áhrifum olíuverðshækkunar á viðskiptakjörin er að álverð hefur hækkað töluvert á síðustu misserum. Á síðasta ári hækkaði álverð um 23% borið saman við fyrra ár og það sem af er þessu ári hefur álverð verið að meðaltali 9,3% hærra en það var allt árið í fyrra.

 

Samhljómur í spám um áframhaldandi hagvöxt og vaxandi verðbólgu

Spá Hagfræðideildar fyrir næstu þrjú ár gerir ráð fyrir 2,2% meðalhagvexti á spátímabilinu, sem er töluvert minni vöxtur en Seðlabankinn sér í kortunum fyrir næstu tvö árin. Ágústspá Seðlabankans gerir ráð fyrir 2,9% meðalhagvexti árin 2019 og 2020. Nýjasta spá Hagstofunnar er til þriggja ára og gerir ráð fyrir 2,6% meðalhagvexti til ársins 2021. Nýleg spá Arion banka gerir ráð fyrir 4,6% hagvexti á yfirstandandi ári og 2,1% meðalhagvexti næstu þrjú ár. Í september spáði Íslandsbanki 3,4% hagvexti á þessu ári en 2,2% meðalhagvexti á næstu tveimur árum.

Nokkur samhljómur er einnig í verðbólguspám helstu spáaðila. Allar spárnar, nema ágústspá Seðlabankans og spá AGS, gera ráð fyrir að verðbólga verði yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans allt spátímabilið. Allar spárnar, nema spá Arion banka, eiga það sammerkt ekki er gert ráð fyrir að verðbólgan fari upp fyrir 4,0% að meðaltali yfir árið. Spá Arion gerir ráð fyrir að verbólgan verði að meðaltali 4,4% árið 2019. Fari verðbólga yfir 4,0% innan árs ber Seðlabankanum lagaleg skylda til að gera ríkisstjórninni opinberlega grein fyrir ástæðum þess og leiðum til úrbóta.

 
 

Hvorki Seðlabankinn né Hagstofa Íslands birta stýrivaxtaspár sýnar opinberlega. Það gera hins vegar viðskiptabankarnir. Spá Arion banka gerir ráð fyrir að vextir hækki um 0,5 prósentustig fyrir lok árs, hækki frekar um 0,5 prósentustig á næsta ári en lækki á ný í 4,25% árið 2020 og verði óbreyttir árið 2021. Íslandsbanki spáði í september að vextir yrðu óbreyttir út þetta ár en myndu svo lækka um 0,25 prósentustig á næsta ári og haldast síðan óbreyttir út spátímabilið. Hagfræðideild Landsbankans gerir hins vegar ráð fyrir að vextir muni hækka um 0,25 prósentustig fyrir árslok og 0,5 prósentustig til viðbótar á næsta ári. Við spáum því að vextir lækki á ný á seinni hluta spátímans og verði 4,0% í lok tímabilsins.