Með nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar og fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2019 er greinilegt að reyna á að feta einhvers konar meðalveg.

31. október 2018

Kúrsinn virðist annars vegar liggja á milli þungrar kröfu um aukin útgjöld m.a. vegna kosningaloforða og hins vegar kröfu um styrka hagstjórn og jákvæða afkomu hins opinbera í samræmi við lög um opinber fjármál.

Útgjöld aukast meira en tekjur

Samkvæmt fjárlagafrumvarpi 2019 aukast heildarútgjöld ríkissjóðs um 6,9% frá fjárlögum síðasta árs og heildartekjur ríkissjóðs aukast um 6,1%. Þetta veldur því að heildarjöfnuður verður einungis um 1% af vergri landsframleiðslu (VLF) sem er lægra en þau 1,2% sem stefnt hefur verið að til þessa. Útgjaldavöxturinn er því við efri mörk hins mögulega eins og fjármálaráð hefur ítrekað bent á.

Tillögur um lækkun skatta

Þá er gert ráð fyrir minni skatttekjum á nokkrum sviðum, t.d. er lagt til að persónuafsláttur hækki meira en áður var gert ráð fyrir og að hækkun þrepamarka efra skattþreps verði miðuð við vísitölu neysluverðs í stað launavísitölu til þess að skapa meira jafnræði gagnvart skattkerfinu milli ólíkra tekjuhópa. Þá er einnig lagt til að tryggingagjald lækki tvisvar sinnum um 0,25 prósentustig, í ársbyrjun 2019 og 2020. Greinilegt er að þarna er verið að taka fyrstu skrefin að aðkomu ríkissjóðs að komandi kjarasamningum, en kröfur á hendur ríkisstjórninni eru greinilega miklar um þessar mundir.

 

 

 

 
 

 

Fjármálaráð hefur bent á að ríkisstjórnin standi fyrir útgjaldaaukningu sem eigi sér ekki hliðstæðu á síðustu áratugum. Jafnvel þótt stjórnvöld viðhaldi aðhaldsstigi við þensluaðstæður kalla aukin útgjöld jafnan á frekari tekjuöflun eða niðurskurð á öðrum útgjöldum, eða blöndu af hvoru tveggja. Sé ekkert af þessu gert af hálfu stjórnvalda eru þau, að öðru óbreyttu, í rauninni að velta ábyrgðinni á hagstjórninni að auknu leyti yfir á Seðlabankann.

Engu að síður virðist ljóst að eftir að byrjað var að vinna eftir nýjum ramma fjármálastefnu og fjármálaáætlunar hefur orðið meiri festa í opinberum fjármálum en hér hefur jafnan verið.

Sveitarfélögin

Samkvæmt lögum um opinber fjármál á fjármálaáætlun að taka jafnt til fjármála ríkis og sveitarfélaga, eins og nafn laganna ber með sér. Sveitarfélög eru þannig bundin af lögum um opinber fjármál. Einnig er þeim ætlað starfa eftir sérstökum sveitarstjórnarlögum þar sem m.a. er að finna fjármálareglur sveitarfélaga, en þær eru ekki þær sömu og í fjármálaáætlun og eru fyrst og fremst varúðarreglur.

 

 

 

Sveitarfélögin eru auðvitað umfangsmikil í rekstri hins opinbera. Útgjöld þeirra hafa verið um 31% af heildarútgjöldum hins opinbera og skuldir þeirra hafa numið um 14% af heildinni.

Áætlað er að rekstrarafkoma A-hluta sveitarfélaga hafi verið jákvæð um 1,2 milljarða króna á árinu 2017. Samkvæmt fjármálaáætlun verður rekstrarafkoman á yfirstandandi ári jákvæð um 0,1% af VLF og um 0,2% af VLF árið 2019. Næstu ár þar á eftir er gert ráð fyrir að afgangurinn verði nokkuð stöðugur um 0,2% af VLF.

Opinberar skuldir dragast saman

Hvað opinberar skuldir varðar er í fjármálastefnunni notaður annar mælikvarði. Í fjármálastefnunni eru lífeyrisskuldbindingar og viðskiptaskuldir undanskildar skuldum og sjóðir og bankainnstæður koma til frádráttar. Stefnan gerir ráð fyrir að heildarskuldir hins opinbera verði komnar undir 30% af VLF í lok árs 2020. Til að ná þessum markmiðum þurfa að koma til óreglulegar tekjur, t.d. af eignasölu og óreglulegum arðgreiðslum á næstu árum.

 

 

 

Skuldir ríkissjóðs skipta mestu fyrir heildarmyndina en þær hafa lækkað hratt síðustu ár. Heildarskuldir hafa lækkað um 658 milljarða króna á sex árum og hlutfall þeirra af landsframleiðslu lækkað úr 86%, þegar það var hæst árið 2011, í 23% í lok þessa árs. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi er reiknað með að heildarskuldir ríkissjóðs verði komnar í 22% af VLF í árslok 2019 og þar með undir viðmið fjármálareglna í fyrsta sinn. Þessari lækkun fylgir að útlit er fyrir að hrein vaxtagjöld verði um 26 milljörðum króna lægri árið 2019 en árið 2011.

Reiknað hefur verið með að á árunum 2018–2021 verði hægt að nýta tæplega 120 milljarða króna tekjur frá fyrirtækjum í ríkiseigu til að greiða niður skuldir ríkissjóðs.

 

 

 

Vaxandi samneysla á næstu árum

Samneysla jókst um 3,1% 2017 og hlutur hennar af VLF hækkaði þá í fyrsta skipti frá 2009. Á undanförnum ársfjórðungum hefur samneysla aukist stöðugt hjá ríki, sveitarfélögum og almannatryggingum og hefur aukningin t.d. verið nokkuð stöðug hjá sveitarfélögunum.

Hagfræðideild telur ólíklegt að takast muni að hemja samneysluútgjöld eins mikið og stefnt er að. Eins og áður segir er áætlað að samneyslan hafi aukist um 3,1% á síðasta ári, þrátt fyrir markmið um minni aukningu. Við teljum líklegt að samneyslan muni áfram aukast í svipuðum takti, sem verði aðeins minni en aukning landsframleiðslunnar. Við reiknum því með að samneysla aukist um 2,7% á yfirstandandi ári og að aukin útgjöld til heilbrigðismála og félags-, trygginga- og húsnæðismála vegi þar þungt. Samneyslan muni svo aukast um 2,6% á árinu 2019 m.a. vegna árframhaldandi útgjaldaaukningar í áðurnefnda málaflokka og aðkomu ríkissjóðs að kjarasamningum.

 

 

 

Við reiknum með að þrýstingur á ríkisútgjöld verði orðinn minni á árunum 2020 og 2021 og þá muni samneyslan aukast um 2,3 og 2,0%.

Framlög til samneyslu verða því aukin töluvert samkvæmt áætlunum stjórnvalda, og þróast í svipuðum takti og landsframleiðslan. Hlutfall samneyslu af VLF verður því nokkuð stöðugt í kringum 23% á næstu árum.