Í júlí voru um 204.000 launþegar á íslenskum vinnumarkaði og hafði þeim fjölgað um 4.900 frá júní 2017, eða um 2,4%. Launþegum í fræðslustarfsemi og opinberri stjórnsýslu fjölgaði mest, eða um 2.200 (5%) og næst mest í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, um u.þ.b. 1.000 (8%).

31. október 2018

Á sama tímabili, þ.e. frá júní 2017 til júlí 2018, fækkaði launþegum um 400 í rekstri gististaða og veitingarekstri (-2%), um 300 í veitingasölu og þjónustu (-3%) og um 300 (-4%) í sjávarútvegi.

Sé litið á 12 mánaða hlaupandi meðaltal, frá júlí 2017 til júlí 2018, fengu að meðaltali um 192.000 einstaklingar greidd laun sem var aukning um 7.500 (4,1%) samanborið við 12 mánaða tímabil ári fyrr. Launþegum er enn að fjölga en í mun minni mæli en verið hefur á síðustu árum, eins og munurinn á milli breytinga ársmeðaltala og breytinga milli ára sýnir glögglega.

Spenna áfram á vinnumarkaði

Sé litið á meðaltal síðustu 12 mánaða hafa rúmlega 197.000 verið starfandi á íslenskum vinnumarkaði. Starfandi fólk var um 11.800 fleira nú í september en í september í fyrra. Fjölgun starfandi fólks á vinnumarkaði var mikil og stöðug fram á mitt síðasta ár sé miðað við 12 mánaða meðaltal.

 

 

 

 
 

 

Atvinnuþátttaka hefur minnkað

Í ágúst var áætlað að tæplega 203.000 manns á aldrinum 16–74 ára hafi að jafnaði verið á vinnumarkaði. Það jafngildir 80,8% atvinnuþátttöku og af þeim voru um 200.000 starfandi og rúmlega 3.000 án vinnu og í atvinnuleit. Atvinnuþátttaka í september í fyrra var 79,6%, þannig að atvinnuþátttaka hefur aukist á þennan mælikvarða.

Sé litið á 12 mánaða meðaltal jókst atvinnuþátttaka stöðugt frá upphafi ársins 2015 fram til vorsins 2017. Frá maí í fyrra hefur dregið úr atvinnuþátttöku um 1,8 prósentustig, sé miðað við 12 mánaða hlaupandi meðaltal. Á þann mælikvarða er atvinnuþátttaka nú svipuð og var í upphafi ársins 2015.

Vinnutími stöðugur

Vinnutími var ívið styttri í september en á sama tíma í fyrra. Sé miðað við 12 mánaða meðaltal hefur vinnutíminn verið mjög stöðugur síðustu mánuði, rúmar 39 stundir.

 

 

 

Vinnuaflsnotkun eykst

Eins og áður segir hefur fjöldi starfandi aukist töluvert á síðustu mánuðum á meðan vinnutími hefur verið nokkuð stöðugur. Vinnuaflsnotkun hefur því aukist nokkuð. Þar sem sveiflur í tölum eru töluverðar milli mánaða er erfitt að meta breytingar á vinnuaflsnotkun eftir mánuðum.

Sé litið á breytinguna milli 2. ársfjórðungs 2017 og 2018 er staðan sú að vinnutími styttist um 0,7% á meðan fjöldi starfandi jókst um 1,3%. Það þýðir að vinnuaflsnotkun eða heildarvinnustundum fjölgaði um 0,6% á þessu tímabili. Á 1. ársfjórðungi jókst vinnuaflsnotkun um 2,3%. Töluverður kraftur virðist því enn fyrir hendi á vinnumarkaðnum, þótt hann sé ekki eins mikill og á síðustu árum.

Atvinnuleysi í lágmarki

Sé litið á 12 mánaða hlaupandi meðaltal hefur atvinnuleysi verið nær óbreytt eftir samfellda lækkun fram á mitt síðasta ár. Meðalatvinnuleysi síðustu 12 mánaða miðað við mælingar Hagstofunnar var 2,8% í september. Atvinnuleysi hefur haldist óbreytt í eitt ár en það var einnig 2,8% í ágúst í fyrra. Meðalatvinnuleysi síðustu 12 mánaða samkvæmt skráningu Vinnumálastofnunar var 2,3% nú í september, en var 2,2% í september í fyrra. Atvinnuleysi virðist því hafa náð lágmarki og er ólíklegt að það dragi meira úr því.

 

 

 

Enn verulegur innflutningur á vinnuafli

Á 2. ársfjórðungi 2018 voru erlendir ríkisborgarar búsettir hér á landi rúmlega 41.000, eða um 12% þjóðarinnar, og er þetta hlutfall mun hærra á meðal fólks á vinnualdri. Á þessu ári hefur erlendum ríkisborgurum fjölgað um 4,3% miðað við sama tíma á síðasta ári. Á sama tíma hefur Íslendingum fjölgað um 0,8%.

Á fyrri hluta þessa árs voru aðfluttir útlendingar umfram brottflutta á aldrinum 20-59 ára rúmlega 3.200, um 11% fleiri en var á sama tíma síðasta árs. Það er því ljóst að ekkert lát er á tilflutningi vinnuafls, enda virðist ekki veita af.

Þótt innflutningur á erlendu vinnuafli sé enn mikill virðist hann hafa náð hámarki. Erlendu starfsfólki á vegum starfsmannaleiga og erlendra þjónustufyrirtækja hefur fækkað nokkuð og var það um 20% færra á öðrum ársfjórðungi en þegar mest var.

 

 

 

Enn vilja fleiri fyrirtæki fjölga starfsfólki en fækka

Sumarkönnun Gallup var gerð í maí og júní sl. meðal 400 stærstu fyrirtækja landsins. Samkvæmt niðurstöðum hennar vildu rúmlega 5,5% fleiri fyrirtæki fjölga starfsfólki en fækka á næstu sex mánuðum. Þetta hlutfall hefur ekki verið jafn lágt frá því sumarið 2015.

Samkvæmt sömu könnun taldi fjórðungur fyrirtækja sig búa við skort á starfsfólki og hefur það hlutfall ekki verið lægra síðan haustið 2015. Fyrirtækjum sem telja sig búa við skort á starfsfólki fækkar mest í iðnaði, sjávarútvegi og samgöngum en fjölgar í byggingariðnaði og verslun. Fyrirtækjum sem telja sig eiga í erfiðleikum með að mæta óvæntri eftirspurn hefur einnig fækkað.

Gerum ráð fyrir auknu atvinnuleysi

Atvinnuleysi virðist hafa náð lágmarki og í ljósi minnkandi hagvaxtar og spennu á vinnumarkaði reiknum við með að atvinnuleysi miðað við tölur Vinnumálastofnunar verði 2,2% í ár, 2,7% á næsta ári og 3% bæði árin 2020 og 2021.

Laun hækka áfram – en í lækkandi takti

Launavísitalan hækkaði um 0,6% milli ágúst og september. Í september hafði vísitalan hækkað samtals um 5,9% á síðustu 12 mánuðum. Hækkunartaktur launa á ársgrundvelli hafði verið nokkuð stöðugur í rúmlega 7% í u.þ.b. ár en hefur nú verið í kringum 6% frá því í maí. Meginskýring lækkunar á ársbreytingu vísitölunnar eru minni launabreytingar í maí í ár en í fyrra, en áfangahækkanir í almennum kjarasamningum voru í maí bæði í ár og í fyrra.

 

 

 

Kaupmáttur tekur stökk upp á við

Verulega hefur hægt á aukningu kaupmáttar launa frá því sem mest var og hafði kaupmáttur verið nokkuð stöðugur frá því um mitt ár 2017. Þar sem verðlag hækkaði einungis um hálft prósent samtals í maí og júní tók kaupmáttur stökk upp á við og jókst um 2,4% milli apríl og júní. Kaupmáttur launa var 3,1% meiri nú í september en hann var fyrir ári. Frá upphafi árs 2015 hefur kaupmáttur launavísitölu aukist um rúm 25%, eða u.þ.b. 7% á ári. Það er mikil aukning, bæði sögulega séð og í samanburði við önnur lönd.

Laun stóru hópanna

Sagan sýnir að launaþróun á opinbera og almenna markaðnum er yfirleitt mjög svipuð til lengri tíma. Yfir styttri tímabil er alltaf um einhverjar sveiflur að ræða en þær jafnast alla jafna út á lengra tímabili.

Sé litið á launabreytingar stóru hópanna á einu ári, milli 2. ársfjórðungs 2017 og 2018, má sjá að launahækkanir á almenna markaðnum hafa verið ívið meiri en á opinbera markaðnum, eða tæp 7% á móti tæpum 6% hjá hinu opinbera. Launahækkanir ríkisstarfsmanna hafa verið álíka og á almenna markaðnum en launahækkanir hjá sveitarfélögum hafa verið minnstar. Staða kjarasamninga einstakra hópa sem gerðir eru á mismunandi tímum skýrir yfirleitt þessa stöðu.

Sömu sögu má segja um launabreytingar milli fyrsta og annars ársfjórðungs 2018 en þá hækkuðu laun á almennum markaði mest.

 

 
 

 

Töluvert launaskrið í gangi

Sé litið á tímabilið frá janúar 2015 til maí 2018 má sjá að launavísitalan hefur hækkað töluvert umfram samningsbundnar hækkanir. Ef litið er á tímabilið frá janúar 2015 til ágúst 2018 má áætla gróflega að samningsbundnar hækkanir hafi verið tæp 20%, en launavísitalan hefur hækkað um 33% á sama tíma. Það þýðir að launavísitalan hefur hækkað um 11,5% umfram samningsbundnar hækkanir, eða að jafnaði um 0,35% umfram samningsbundnar hækkanir í hverjum mánuði.

Mögulegar skýringar gætu í fyrsta lagi verið að opinberir starfsmenn hafi fengið meira en almenni markaðurinn þar sem launavísitalan mælir líka laun þeirra, en það stenst ekki yfir lengra tímabil. Önnur skýring er að launakostnaður fyrirtækjanna hafi einfaldlega hækkað meira en samið var um í heildarkjarasamningi. Sú skýring passar vel við hagsveifluna á þessum tíma og þýðir að staðbundnir samningar og hreint launaskrið hafa hækkað launin um 11,5% umfram samningsbundnar hækkanir.