Í nýjustu spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) frá því um miðjan október er gert ráð fyrir bæði minni hagvexti og minni verðbólgu í helstu viðskiptalöndum Íslands en sjóðurinn spáði í apríl.

 30. október 2019

AGS birtir greiningu á stöðu efnahagsmála í heiminum tvisvar á ári, í apríl og október. Sjóðurinn spáir núna 3% hagvexti fyrir heiminn í heild í ár, sem er 0,3 prósentustigum lægra en sjóðurinn spáði í apríl. Gangi þetta eftir verður það minnsti hagvöxtur á heimsvísu síðan alþjóðlega fjármálakreppan reið yfir 2008 til 2009. Að mati sjóðsins hægði nokkuð á hagvexti í heiminum í heild á síðustu þremur ársfjórðungum 2018 og vöxturinn það sem af er ári hefur verið veikur. Aukin spenna í alþjóðaviðskiptum endurspeglast m.a. í stigmagnandi innleiðingu á tollum milli Bandaríkjanna og Kína. Á móti kemur að lausara taumhald peningastefnu meðal annars í Bandaríkjunum, sem hefur einnig gripið til skattalækkana, hefur að einhverju leyti vegið upp á móti.

Minni hagvöxtur í viðskiptalöndum Íslands

AGS lækkaði hagvaxtarspá sína fyrir árið 2019 fyrir helstu viðskiptalönd Íslands úr 1,8% í apríl niður í 1,6% nú í október en spáin í október í fyrra hljóðaði upp á 2,2%1. Sjóðurinn hefur hins vegar lítið breytt spá sinni fyrir næsta ár, en þá gerir hann ráð fyrir 1,8% hagvexti.Einnig minni verðbólga

Sjóðurinn breytti ekki verðbólguspánni fyrir helstu viðskiptalönd Íslands í ár milli apríl og október, en hann gerir enn ráð fyrir 1,6% verðbólgu í ár. Hann lækkaði á hinn bóginn spá sína um verðbólgu á næsta ári í 1,8% úr 1,9% í apríl og 2,1% í október í fyrra.Vextir hafa lækkað

Vextir í helstu viðskiptalöndum Íslands hafa lækkað nokkuð það sem af er ári. Frá áramótum hefur ávöxtunarkrafa á bandarísk ríkisskuldabréf til fimm ára lækkað um tæpt prósentustig, þýsk ríkisskuldabréf um 0,4 prósentustig og bresk um 0,5 prósentustig.

Íslenska ríkið hefur notið góðs af þessari lækkun. Þegar það gaf út skuldabréf fyrir 500 milljónir evra í júní var það selt á kröfunni 0,122%. Þetta var um 0,8% álag miðað við þýskt ríkisskuldabréf til sambærilega langs tíma. Í síðustu útgáfu íslenska ríkisins þar á undan, í desember 2017, var bréf selt á kröfunni 0,56% og var álagið þá svipað og í júní.Verð á olíu og áli hefur lækkað milli ára

Meðalverð á olíu fyrstu níu mánuði ársins 2019 var um 63 Bandaríkjadollarar á fatið, sem er 12% lægra en meðalverð ársins 2018. Við gerum ráð fyrir að olíuverð lækki um 11% milli 2018 og 2019 en hækki um 2% á næsta ári.Álverð hefur einnig lækkað. Það var að meðaltali 1.830 Bandaríkjadalir á tonnið fyrstu 9 mánuði ársins, sem er 14% lægra en í fyrra. Við gerum ráð fyrir að álverð lækki um 13% milli 2018 og 2019 en hækki síðan um 4% á næsta ári.

1 Hagvöxtur einstakra landa er veginn með hlutdeild þeirra í utanríkisviðskiptum við Ísland.