Verulega hefur hægt á vexti einkaneyslu frá árinu 2017 samhliða hægari kaupmáttaraukningu launa. Við gerum ráð fyrir að einkaneysla vaxi áfram hóflega á yfirstandandi ári og á árinu 2020 en að vöxturinn verði heldur kraftmeiri á seinni hluta spátímabilsins.

 30. október 2019

Einkaneysla jókst um 2,3% á fyrsta fjórðungi þessa árs og 2,2% á öðrum ársfjórðungi. Þetta var minnsti vöxtur einkaneyslu síðan á fyrsta ársfjórðungi 2014. Það hefur því hægt verulega á vexti einkaneyslu og hún þróast nú í auknum mæli í takt við kaupmáttarþróun launa. Kaupmáttur launa jókst um 2,5% milli ára á fyrsta ársfjórðungi og 1,9% á öðrum fjórðungi ársins, en frá upphafi árs 2017 hefur vöxtur einkaneyslu verið meiri en vöxtur kaupmáttar. Vöxtur einkaneyslu helst því betur í hendur við vöxt kaupmáttar sem bendir til þess að einstaklingar og fjölskyldur hugi nú í ríkara mæli að sparnaði og eyði ekki um efni fram. Kaupmáttur launa jókst um 1,2% milli ára á þriðja ársfjórðungi sem bendir til þess að vöxtur einkaneyslu verði áfram hóflegur næstu mánuði.Hægir á kortaveltu

Upplýsingar um kortaveltu benda einnig til þess að verulega hafi hægt á neyslu. Á þriðja fjórðungi ársins jókst veltan aðeins um 0,2% milli ára sem er minnsti vöxtur innan ársfjórðungs síðan á fyrsta fjórðungi 2013. Velta í verslunum innanlands á föstu verðlagi jókst um 1,1% en erlendis dróst veltan saman um 2,9% á föstu gengi. Til samanburðar var vöxturinn á þriðja ársfjórðungi í fyrra 15,4% erlendis og 4,4% í verslunum innanlands.

Á sama tíma og hægt hefur á kortaveltu hefur samsetning veltunnar tekið ákveðnum breytingum. Frá því á vormánuðum hefur mælst samdráttur í kortaveltu Íslendinga erlendis miðað við sömu mánuði árið áður sem skýrist m.a. af færri utanlandsferðum Íslendinga. Einnig hefur orðið breyting á samsetningu innlendrar kortaveltu. Eldsneytiskaup og útgjöld tengd viðhaldi bifreiða hafa dregist saman sem gæti verið vísbending um að bílaflotinn sé að yngjast en einnig að fólk sé í auknum mæli að nýta sér aðra orkugjafa en eldsneyti til að knýja bifreiðar.

Samdráttur í sölu nýrra bíla

Sala nýrra bíla hefur dregist verulega saman upp á síðkastið. Á fyrri helmingi árs mældist samdráttur upp á 17% að raunvirði milli ára, samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum, og hefur veltan minnkað samfleytt frá því á vormánuðum 2018. Vera má að landsmenn haldi að sér höndum þegar kemur að bílakaupum en einnig gæti verið að margir hafi nýlega fest kaup á bíl. Velta í bílasölu var mjög mikil fyrir nokkrum árum og jókst til að mynda um 52% milli ára á seinni hluta árs 2015. Það ber að hafa í huga að bílaleigur eru hér meðtaldar og minni velta er því einnig tilkomin vegna fækkunar ferðamanna.Minna flutt inn af neysluvörum

Á fyrstu 8 mánuðum árs dróst verðmæti innfluttra neysluvara saman um 6% sem er enn önnur vísbending um minni neyslu. Mestu munar um innflutning á hálf-varanlegum neysluvörum, svo sem fatnaði, sem skýra 5% stig af samdrættinum. Þetta er talsverð breyting miðað við þróun síðustu ára. Árið 2016 jókst innflutningur neysluvara til dæmis um 22%.

Mat á núverandi stöðu betri en framtíðarhorfur

Væntingavísitala Gallup bendir til þess að í september séu nánast jafn margir bjartsýnir og svartsýnir á efnahags- og atvinnuástandið. Væntingar hafa þokast örlítið upp á við frá því í sumar og er það helst sökum þess að væntingar til næstu 6 mánaða hafa batnað, en þær eru samt sem áður lægri en mat fólks á núverandi stöðu.

Það er athyglisvert að skoða þróun á annars vegar væntingum til næstu mánaða og hins vegar mat á núverandi stöðu. Frá því í september 2004 fram til mars 2008 voru væntingar til næstu 6 mánaða lægri en mat á núverandi stöðu, sem þótti frekar góð. Að því loknu tók við um 8 ára tímabil frá mars 2008 til mars 2016 þar sem væntingar til næstu 6 mánaða mældust ofar mati fólks á núverandi stöðu, sem þótti heldur slök, enda hagkerfið að vinna sig upp úr miklum samdrætti.

Þetta snérist svo aftur við í mars 2016 þegar núverandi staða þótti betri en framtíðarhorfurnar og hefur það mat verið viðvarandi síðan. Allt frá því í mars 2016 hefur fólk talið stöðuna vera góða en jafnframt að hún muni fara versnandi á komandi mánuðum.