Eftir samfelldan jákvæðan vöxt fjármunamyndunar á síðustu árum spáum við samdrætti á þessu ári. Það yrði í fyrsta skiptið síðan 2010 að samdráttur mælist í þessum lið þjóðhagsreikninga. Samdrátturinn skýrist eingöngu af miklum samdrætti atvinnuvegafjárfestingar enda gerum við ráð fyrir bæði vexti í opinberri fjárfestingu og íbúðafjárfestingu.

 30. október 2019

Rétt eins og jafnan gerist í uppsveiflum hefur fjárfesting í hagkerfinu aukist verulega mikið á síðustu árum. Fjárfesting er sveiflukenndasti liðurinn í þjóðhagsreikningum og vex jafnan hlutfallslega hratt í uppsveiflu og dregst að sama skapi hlutfallslega skarpt saman í niðursveiflum. Á seinni árshelmingi síðasta árs dróst fjármunamyndun í hagkerfinu saman um 3% miðað við sama tímabil árið áður og var það í fyrsta skiptið síðan á fyrri árshelmingi 2013 að fjármunamyndun dróst saman. Samdrátturinn jókst síðan á fyrri árshelmingi þessa árs og var hann 13,8%. Samdráttinn á fyrri árshelmingi þessa árs og seinni árshelmingi síðasta árs má í báðum tilfellum rekja til samdráttar í atvinnuvegafjárfestingu. Á sama tíma jukust bæði opinber fjárfesting og íbúðafjárfesting. Atvinnuvegafjárfesting dróst saman um 15,7% á seinni árshelmingi síðasta árs og um 30,3% á fyrri árshelmingi þessa árs sem er mesti samdráttur í atvinnuvegafjárfestingu síðan á öðrum árshelmingi 2009.

Fjárfestingarstigið lækkaði á síðasta ári

Vöxtur fjárfestinga á síðustu árum hefur verið langt umfram hagvöxt og því hefur hlutfall atvinnuvegafjárfestingar af landsframleiðslu farið vaxandi. Árið 2017 var hlutfall atvinnuvegafjárfestingar án stóriðju um 12,5% af landsframleiðslu og hefur hlutfallið ekki verið hærra á þessari öld, ef frá er talið árið 2006 þegar það nam 13,4%. Til samanburðar var þetta hlutfall 4,4% árið 2009. Vegna samdráttar í atvinnuvegafjárfestingu í fyrra lækkaði þetta hlutfall niður í 11,5% á árinu 2018 og gerum við ráð fyrir enn frekari lækkun á þessu ári.Mesti samdráttur fjármunamyndunar síðan 2009

Við spáum 9,5% samdrætti í fjármunamyndun hagkerfisins á þessu ári. Ef sú spá gengur eftir verður um að ræða mesta samdrátt í fjármunamyndun síðan 2009. Samdráttinn á þessu ári má rekja alfarið til mikils samdráttar í atvinnuvegafjárfestingu en við spáum vexti í fjárfestingum hins opinbera og íbúðafjárfestingum. Við spáum aftur á móti að fjármunamyndun aukist á nýjan leik á næsta ári. Þá gerum við ráð fyrir 8,9% aukningu og vexti í öllum undirliðum fjármunamyndunar; atvinnuvegafjárfestingu, fjárfestingu hins opinbera og íbúðafjárfestingu. Við gerum ráð fyrir tiltölulega litlum vexti fjármunamyndunar á árunum 2021 og 2022 en að hann verði borinn af aukinni atvinnuvegafjárfestingu. Opinberar fjárfestingar munu þó einnig leggja sitt lóð á vogaskálarnar.

Mikill samdráttur atvinnuvegafjárfestingar

Við spáum því að atvinnuvegafjárfesting dragist saman um 21,2% á árinu 2019. Ef spáin gengur eftir verður þar einnig um að ræða mesta samdrátt frá árinu 2009. Hefð er fyrir því að skipta atvinnuvegafjárfestingu upp í stóriðjufjárfestingu, fjárfestingu í skipum og flugvélum og að síðustu almenna atvinnuvegafjárfestingu en síðastnefndi liðurinn er langstærstur. Heildarsamdrátturinn í atvinnuvegafjárfestingu á þessu ári skýrist fyrst og fremst af samdrætti í almennri atvinnuvegafjárfestingu og fjárfestingu í skipum og flugvélum. Áhrif af því fyrrnefnda eru þó ívið meiri. Samdráttinn í fjárfestingu í skipum og flugvélum má að mestu leyti rekja til sölu WOW air á fjórum farþegaþotum til Air Canada í byrjun árs en salan kemur til frádráttar í fjárfestingu á skipum og flugvélum.

Á næsta ári sjáum við fyrir okkur að atvinnuvegafjárfesting aukist um 9,3% og verður sá vöxtur borinn af aukinni fjárfestingu í fiskiskipum. Við gerum ráð fyrir vexti bæði árin 2021 og 2022 og verður hann öllu meiri á síðarnefnda árinu. Spáð er 1,6% aukningu árið 2021 sem verður einungis borin af vexti almennrar atvinnuvegafjárfestingar en áhrif af stóriðju annars vegar og skipa og flugvéla hins vegar verða neikvæð. Árið 2022 gerum við ráð fyrir að almenn atvinnuvegafjárfesting vaxi um 7% en 6% vexti í atvinnuvegafjárfestingu í heild sinni.

Hýrnar yfir stjórnendum fyrirtækja

Væntingar stjórnenda og mat þeirra á efnahagslífinu hafa tekið kipp upp á við á síðustu ársfjórðungum samkvæmt könnunum Gallup. Væntingarnar voru mjög litlar sumarið 2018 og fram yfir áramót. Til dæmis lágu meðalvæntingar til næstu sex mánaða á bilinu 13-29 stig1 frá júní á síðasta ári og fram í febrúar á þessu ári. Á þessum tíma voru stjórnendur mun svartsýnni en þegar verst lét í hruninu. Líklega má rekja þessa svartsýni til óvissu um stöðu ferðaþjónustunnar og WOW air og um niðurstöður kjaraviðræðna á almenna markaðnum sem lauk í vor. Í september voru væntingar til næstu sex mánaða komnar upp í 83 stig og hafa þær ekki verið jafn miklar síðan í júní 2017. Mat á núverandi stöðu efnahagslífsins fór niður í 91 stig í febrúar og hafði þá ekki verið jafn lágt síðan í desember 2013. Matið var nú í september komið upp í 133 stig.

Samdráttur atvinnuvegafjárfestingar víða hafinn á síðasta ári

Árið 2018 drógu fleiri geirar atvinnulífsins saman seglin í fjárfestingum milli ára en þeir geirar sem juku fjárfestingu sína. Það að meirihluti geira atvinnulífsins skuli draga úr fjárfestingu milli ára hafði ekki gerst síðan árið 2010. Dæmi um stóra geira atvinnulífsins sem drógu úr fjárfestingum á síðasta ári eru: sala og rekstur fasteigna, byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, matvæla- og drykkjarvöruiðnaður, fiskveiðar og -vinnsla, flutningaþjónusta, starfsemi ferðaskrifstofa og flutningamiðlun.

Mikill samdráttur í nýjum útlánum til atvinnulífsins

Stór hluti hverju sinni er fjármagnaður með lánsfé. Þróun útlána bankakerfisins til fyrirtækja getur því gefið góða vísbendingu um þróun fjárfestinga. Ný útlán til atvinnulífsins umfram uppgreiðslur hafa dregist verulega saman frá því í fyrra. Þannig námu ný útlán umfram uppgreiðslur um 82,6 mö.kr. á fyrstu 8 mánuðum ársins borið saman við 172,3 ma.kr. á sama tímabili í fyrra. Samdrátturinn nemur 52%. Gögnin ná aftur til ársins 2013 og er þetta langmesti samdrátturinn á tímabilinu. Samdráttinn á þessu ári má fyrst og fremst rekja til samdráttar í nýjum útlánum til fiskveiða og -vinnslu annars vegar og verslunar- og fasteignafélaga hins vegar en útlán til allra þessara greina drógust mikið saman milli ára. Ný útlán umfram uppgreiðslur voru neikvæð um 1,4 ma.kr. hjá þjónustu fasteignafélaga borið saman við 35,2 ma.kr. á sama tímabili í fyrra. Útlán til fiskveiða og -vinnslu og verslunar drógust saman um á bilinu 86-92% milli ára. Útlán til annarra greina jukust á hinn bóginn um 6,5 ma.kr., eða 9,3%.

Hvaða áhrif hefur gengisstyrking á fjárfestingu í hagkerfinu?

Styrkur krónunnar og framtíðarþróun hennar er lykilþáttur þegar kemur að ákvörðunum um fjárfestingar hjá mörgum fyrirtækjum. Sögulega séð hefur almenn atvinnuvegafjárfesting fylgt gengisþróun krónunnar nokkuð vel. Þannig hafa jafnan farið saman aukin fjárfesting og styrking krónunnar, bæði með þeim hætti að aukin fjárfesting komi á sama tíma og styrking krónunnar en einnig þannig að aukin fjárfesting fylgi styrkingu krónunnar eftir með eins árs töf. Ástæðan fyrir þessu sambandi liggur meðal annars í því að mjög stór hluti atvinnuvegafjárfestingar felur í sér innflutning. Gengisstyrking krónu lækkar fjárfestingarkostnað í krónum talið og því hafa margir nýtt sér þau tækifæri sem falist hafa í sterkari krónu til að auka fjárfestingu. Krónan gaf lítillega eftir á síðasta ári miðað við árið áður og á það sinn þátt í því að atvinnuvegafjárfesting dróst saman milli ára. Meðalgengi krónunnar það sem af er ári er umtalsvert veikara en meðalgengi síðasta árs og mun það þrýsta á að almenn atvinnuvegfjárfesting dragist saman á þessu ári.

Sala WOW air á fjórum farþegaþotum vegur þungt

Landslagið í flugrekstri hér á landi hefur breyst mjög mikið með brotthvarfi WOW air sem hætti rekstri í lok mars. Í þeim mikla vexti sem félagið upplifði á síðustu árum var félagið ansi stórtækt í flugvélafjárfestingum.

Fjárfesting í flugvélum er innflutningur og hefur því engin áhrif á hagvöxt. Að sama skapi hefur sala flugvéla úr landi þau áhrif að draga úr fjárfestingu án þess að hreyfa við hagvexti. Á fyrsta ársfjórðungi 2019 mældist 17,3 ma.kr. útflutningur á flugvélum en þar var um að ræða þær fjórar þotur sem WOW air seldi til Air Canada. Þessi sala mun hafa mikil áhrif á skipa- og flugvélafjárfestingu fyrir þetta ár en leita þarf ansi mörg ár aftur í tímann til að finna viðlíka sölu á flugvélum úr landinu.

Icelandair fékk á síðasta ári afhentar þrjár Boeing 767 Max þotur og þrjár núna í vor. Þessar vélar hafa allar verið kyrrsettar vegna vandræða með stýribúnað. Upphaflega stóð til að Icelandair myndi kaupa hluta af þessum þotum og hefðu þær þá komið sem fjárfesting inn í þjóðhagsreikninga. Þær voru aftur á móti keyptar og seldar jafnharðan til áframleigu og færast því ekki sem fjárfesting í þjóðhagsreikningum. Við gerum ráð fyrir að aðrar 767 Max þotur sem upphaflega var gert ráð fyrir að Icelandair myndi kaupa á næstu árum verði allar teknar á kaupleigu.

Miklu fjárfestingatímabili í fiskiskipum ekki lokið

Miklum fjárfestingakúf í íslenskum fiskiskipum á síðustu árum er ekki lokið því gert er ráð fyrir að nokkur ný skip bætist við flotann á þessu og næstu árum. Þessi fjárfesting, ásamt fjárfestingu síðustu ára, mun hafa töluvert mikil áhrif til endurnýjunar fiskiskipaflotans og lækkar meðalaldur hans verulega. Töluvert hefur einnig verið um sölu á skipum úr landi það sem af er ári. Þannig hafa verið flutt úr landi fiskiskip fyrir að andvirði 9,2 ma.kr. og er það mesti útflutningur á skipum síðan árið 2014, þegar hann nam 10,6 mö.kr.

Óvissa um stóriðjufjárfestingu

Töluverð óvissa er enn um uppbyggingu kísilverksmiðju Thorsil í Helguvík. Áætluð fjárfesting Thorsil er um 275 milljónir Bandaríkjadala, eða um 33,6 ma.kr., en ekki hefur tekist að fjármagna alla fjárfestinguna.

Í spánni er gert ráð fyrir að uppbygging Thorsil verði að veruleika á næsta ári þrátt fyrir að veruleg óvissa sé um niðurstöðu verkefnisins. Vænt arðsemi af verkefninu frá því að það kom fyrst fram er væntanlega eitthvað lægri í dag sökum styrkingar á gengi krónunnar sem hefur dregið úr samkeppnishæfni útflutnings. Þessu til viðbótar hræða sporin líklega mögulega fjárfesta en báðar þær verksmiðjur sem reistar hafa verið, PCC á Bakka og United Silicon, hafa gengið í gegnum mikla erfiðleika í starfseminni og endaði síðarnefnd verksmiðjan á því að fara í þrot. Hvort sem verður af smíði verksmiðjunnar eða ekki er ljóst að áhrifin á landsframleiðslu og hagvöxt eru fremur lítil til bæði skemmri og lengri tíma.

Ekki er loku fyrir það skotið að fjárfesting í United Silicon verði færð niður að einhverju leyti í þjóðhagsreikningum Hagstofunnar enda liggur starfsemi fyrirtækisins niðri og óvíst hvort og þá hvenær starfsemi hefst að nýju. Um það hefur hins vegar ekki verið tekin nein ákvörðun og er því ekki gert ráð fyrir niðurfærslu á fjárfestingu í United Silicon í spánni að þessu sinni.Veruleg aukning framboðs íbúða á höfuðborgarsvæðinu

Samkvæmt tölum Hagstofunnar var lokið við að byggja um 2.300 íbúðir á landinu öllu á árinu 2018, sem er rúmlega 500 íbúðum meira en árið 2017. Í fyrra var aftur á móti byrjað að byggja um 2.500 íbúðir sem var um 300 íbúðum minna en árið 2017.Upplýsingastreymi um byggingarstarfsemi hefur ekki batnað mikið í núverandi uppsveiflu og enn renna menn jafnt blint í sjóinn og áður með byggingarmagn, staðsetningu og tegundir húsnæðis í byggingu.

Talningar Samtaka iðnaðarins skásta heimildin

Samtök iðnaðarins (SI) hafa um árabil talið íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu og í helstu byggðakjörnum landsins tvisvar á ári. Niðurstöður SI hafa á síðustu árum verið einu áreiðanlegu heimildirnar um byggingu íbúðarhúsnæðis.

Nýjustu upplýsingar SI um byggingamagn eru frá því í september 2019. Samkvæmt þeim er bygging íbúðarhúsnæðis á þessu ári að aukast frá fyrra ári, en heldur hefur þó hægst á vextinum. Engu að síður voru um 200 fleiri íbúðir á ýmsum byggingarstigum í byggingu nú í september en fyrir ári síðan. Þrátt fyrir það virðist sem innflutningur á mikilvægum byggingarefnum eins og járni og sementi hafi dregist saman að undanförnu sem bendir til þess að tekið sé að hægja á.

Nýjustu upplýsingar SI um byggingamagn eru frá því í september 2019.

Hvað er framundan?

Samkvæmt síðustu spá Samtaka iðnaðarins á grundvelli talninga er gert ráð fyrir nokkuð stöðugri fjölgun fullkláraðra íbúða á næstu árum. Þannig er reiknað með að u.þ.b. 2.300 íbúðir komi árlega inn á markaðinn á höfuðborgarsvæðinu á næstu árum. Spá SI hefur þó lækkað miðað við spá þeirra fyrir ári síðan.

Stórar tölur hafa verið nefndar í tengslum við meinta eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði á svæðinu. Jafnvel þótt um nokkurt ofmat á þörf geti verið að ræða er ljóst að á næstu árum mun framboð á markað aukast sem ætti að koma verulega til móts við eftirspurnina.

Staðsetning og stærð passa ekki

Hagfræðideild Landsbankans hefur margoft bent á að ekki sé verið að byggja þær tegundir íbúða sem mest eftirspurn er eftir um þessar mundir, þ.e. minni, einfaldari og ódýrari íbúðir. Þá höfum við einnig bent á að eftirspurn eftir stærri og íburðarmeiri íbúðum í miðborginni hefur að öllum líkindum verið ofmetin þannig að sala á íbúðum á þessu svæði hefur gengið hægar en framkvæmdaaðilar gerðu ráð fyrir.

Í Fjármálastöðugleika 2019/2, riti Seðlabankans, er fjallað um þessa stöðu sem áhættuþátt. Þar er bent á að nýbyggingar hafi selst hægar en áður, einkum á miðsvæði Reykjavíkur. Þannig telur Seðlabankinn að offramboð geti myndast á næstu mánuðum á ákveðnum svæðum.

Mun skapast mikið ójafnvægi?

Mikil byggingarstarfsemi er enn í gangi víðs vegar um land, en sums staðar er tekið að hægja á eins og á höfuðborgarsvæðinu. Athyglisverð viðbót við hefðbundnar íbúðabyggingar er skipuleg uppbygging leiguíbúða. Þannig stefnir íbúðafélagið Bjarg t.d. að því að byggja um 1.400 leiguíbúðir á næstu fjórum árum. Um 70 íbúðir eru þegar komnar í útleigu, um 560 eru í byggingu og tæplega 500 eru í hönnunarferli.

Líklegt að aukið framboð húsnæðis mæti eftirspurn á næstu árum

Samantekið reiknum við með 15% aukningu íbúðafjárfestingar í ár og 7% aukningu á næsta ári. Árin 2021 og 2022 gerum við ráð fyrir litlum breytingum milli ára. Það mun því draga úr þeirri aukningu íbúðafjárfestingar sem við höfum upplifað síðustu ár. Töluverð gróska er eftir sem áður í kringum byggingaráformum í tengslum við yfirlýsingar vegna kjarasamninga sem gætu haft nokkur áhrif á framvinduna ef yfirlýsingarnar raungerast í meira mæli en nú liggur fyrir.Mikil aukning í fjárfestingu hins opinbera

Heildarfjárfestingar hins opinbera jukust um 28,3% að raungildi í fyrra og 23,3% árið 2017. Aukningin á síðustu tveimur árum hefur því verið veruleg. Þetta eru þó ekki allt verklegar framkvæmdir. Afhending Hvalfjarðarganga til ríkisins á 4. ársfjórðungi 2018 taldist t.d. opinber fjárfesting sem hafði mikil áhrif á tölurnar og mun einnig hafa áhrif á samanburð milli 2018 og 2019.Samkvæmt fjármálaáætlun mun opinber fjárfesting verða mikil og jöfn á næstu árum. Helstu verkefni sem eru í gangi og stefnt er að eru bygging nýs Landspítala, átak í samgöngumálum, kaup á þyrlum fyrir Landhelgisgæsluna og uppbygging hjúkrunarheimila. Auk þess benda fjárhagsáætlanir sveitarfélaga almennt til aukinnar fjárfestingar.

Þörf fyrir aukna fjárfestingu í innviðum er augljós og hefur verið mikið í umræðunni. Samkvæmt áætlunum hefur staðið til að leggja áhersla á auknar opinberar innviðafjárfestingar samhliða því sem spenna minnkar í hagkerfinu og almenn atvinnuvegafjárfesting fer minnkandi.

Viðamikill samgöngusáttmáli

Nýlega var undirritaður nýr samgöngusáttmáli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og ríkissjóðs. Í sáttmálanum er gert ráð fyrir framkvæmdum upp á 120 ma.kr. á næstu 15 árum. Gert er ráð fyrir að ríkissjóður fjármagni 45 ma.kr. af framkvæmdunum, sveitarfélögin 15 ma.kr., og að 60 ma.kr. komi úr sérstakri fjármögnun sem á eftir að ákveða nánar. Hluti af áætluðum fjármunum til þessara verkefna er nú þegar kominn inn í fjármálastefnu og áætlanir næstu ára þannig að ekki er alfarið um viðbót að ræða miðað við það sem rætt hefur verið.

Birtar hafa verið tímasettar áætlanir um framkvæmdir við stofnvegi og borgarlínu á næstu árum en enn sem komið er hafa engar ákvarðanir verið teknar.

Framlög til fjárfestinga í samgönguinnviðum hafa aukist á síðustu árum og hafa t.d. ekki verið meiri að raunvirði frá 1998 að undanskildum árunum 2008 og 2009. Gert hefur verið ráð fyrir að hluti arðgreiðslna frá fjármálafyrirtækjum, að hluta eða að fullu í eigu ríkisins, renni til samgönguframkvæmda.

Verður aukning opinberrar fjárfestingar nægileg?

Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga 2020 er gert ráð fyrir að fjárfestingar ríkisins í efnislegum eignum aukist um u.þ.b. 12 ma.kr. milli 2019 og 2020, eða um 20% að nafnvirði.

Samkvæmt fjármálaáætlun er gert ráð fyrir að opinber fjárfesting aukist umtalsvert á næstu tveimur árum. Þannig fari opinber fjárfesting úr 3% af vergri landsframleiðslu 2018 upp í 3,6-3,7% á árunum 2020-2021. Í ljósi umræðunnar telur Hagfræðideild líklegt að þróunin verði eitthvað hraðari, bæði vegna mikils pólitísks þrýstings á viðhald og endurnýjun innviða, en einnig vegna þess að atvinnuvegafjárfesting dregst töluvert saman og því myndast svigrúm fyrir hið opinbera.

Óvissa er töluvert mikil í efnahagslífinu nú um stundir og hagkerfið hefur tekið á sig töluverð áföll. Atvinnuvegafjárfesting hefur dregist mikið saman, mun gera það áfram í ár og verður sögulega lítil á næstu árum. Það er því áleitin spurning hvort hið opinbera þurfi ekki að koma að fjárfestingu fyrr og af meiri krafti. Sagan segir að hagkerfið muni rétta úr sér aftur og það er ekki heppileg staða að hið opinbera verði þá á fullu í framkvæmdum sem tekið hefur langan tíma að undirbúa.

Hagfræðideild gerir því ráð fyrir að opinber fjárfesting aukist um 6% í ár. Þar vega grunnáhrif frá tilfærslu Hvalfjarðarganganna í fyrra upp á u.þ.b. 10 ma.kr. einnig þungt því hún var skráð sem opinber fjárfesting, þannig að í raun er nýfjárfesting að aukast meira ef horft er framhjá þeirri eignatilfærslu. Á næsta ári gerum við ráð fyrir um 10% aukningu og 5% árin 2021 og 2022. Opinber fjárfesting mun vaxa töluvert meira en landsframleiðslan á þessum árum þannig að hlutfall hennar af landsframleiðslu mun halda áfram að aukast.

1 Skalinn nær frá 0 til 200 þar sem gildið 100 þýðir að jafn margir svarenda eru bjartsýnir og svartsýnir