Við búumst við áframhaldandi afgangi af viðskiptum við útlönd út spátímabilið. Við hækkum spá okkar um afgang í ár nokkuð, en afgangurinn á fyrri helmingi ársins var aðeins meiri en við bjuggumst við. Nokkuð gott jafnvægi virðist núna ríkja milli inn- og útflæðis gjaldeyris og ekkert sem bendir sérstaklega til þess að það raskist næstu misseri. Við búumst því við tiltölulega stöðugu gengi krónunnar á spátímabilinu.

 30. október 2019

Eftir að hafa legið á bilinu 120-130 krónur fyrir hverja evru megnið af árinu 2018 veiktist krónan haustið 2018 og endaði árið í um 140 krónum. Það sem af er 2019 hefur krónan sveiflast eitthvað, en hefur að mestu haldist á frekar þröngu bili, á milli 135 og 140 krónum gagnvart evru.

Frá áramótum hefur Seðlabankinn 12 sinnum gripið inn í á markaði, 10 sinnum til að selja evrur og tvisvar til að kaupa þær. Nettó sala Seðlabankans á gjaldeyri í ár er um 9,5 ma.kr.

Erlend staða þjóðarbúsins hefur batnað það sem af er ári

Samkvæmt mati Seðlabankans var hrein staða þjóðarbúsins við útlönd, þ.e.a.s. erlendar eignir Íslendinga umfram skuldir, jákvæð um 628 ma.kr. í lok júní, eða sem nemur 21,8% af VLF. Frá áramótum batnaði staðan um 300 ma.kr., eða sem nemur 10% af VLF. Þar af má rekja 182 ma.kr. til gengis- og verðbreytinga á fyrsta ársfjórðungi, en um 12% verðhækkun varð á erlendum verðbréfamörkuðum á tímabilinu. Batnandi stöðu má einnig rekja til aukinna kaupa íslenskra lífeyrissjóða á erlendum verðbréfum.

Bætt erlend staða þjóðarbúsins tengist greiðslujöfnuði við útlönd gegnum þáttatekjujöfnuð, sem við búumst við að verði jákvæður um kringum 15 ma.kr. á ári á spátímabilinu. Við gerum hins vegar ráð fyrir um 10 ma.kr. halla á rekstrarframlögum.

Afgangur af vöru- og þjónustujöfnuði.

Við búumst við að afgangurinn af þjónustujöfnuði verði um 215 ma.kr. í ár og 230 ma.kr. 2020. Við gerum ráð fyrir áframhaldandi halla á vöruskiptajöfnuði, 155 mö.kr. í ár og 175 mö.kr. 2020. Samantekið verður þá afgangurinn af vöru- og þjónustuviðskiptum um 60 ma.kr. í ár og 55 ma.kr. 2020.

Áfram verulegt greiðsluflæði inn á gjaldeyrismarkað vegna viðskiptajafnaðar

Við gerum því ráð fyrir að afgangur af viðskiptajöfnuði verði um 65 ma.kr. í ár og 60 ma.kr. á næsta ári.

Hluti af afganginum af viðskiptajöfnuði í ár er vegna útflutnings á skipum og flugvélum, en í flestum tilfellum er greiðsluflæði inn á gjaldeyrismarkað afar takmarkað í þessháttar viðskiptum. Leiðrétt fyrir þennan útflutning er áætlað greiðsluflæði inn á gjaldeyrismarkað í ár um 45 ma.kr. Áætlað greiðsluflæði vegna viðskiptajafnaðar 2020 verður svipað og viðskiptajöfnuðurinn, eða um 60 ma.kr.

Gjaldeyrisviðskipti vegna erlendra fjárfestinga lífeyrissjóðanna

Lífeyrissjóðir hafa verið mjög virkir á kauphliðinni á gjaldeyrismarkaði síðustu ár. Í fyrra keyptu þeir gjaldeyri fyrir rúmlega 100 ma.kr. og á fyrri árshelmingi 2019 námu hrein gjaldeyriskaup þeirra um 67 mö.kr. þannig að enn sem komið er bendir ekkert til þess að þeir séu byrjaðir að hægja á kaupunum. Hlutfall erlendra eigna í eignasafni þeirra hefur hækkað hratt samhliða þessum kaupum og er nú að nálgast 30%. Meðal annars vegna takmarkaðra fjárfestingakosta hér á landi er líklegt að lífeyrissjóðirnir horfi áfram til útlanda til þess að dreifa áhættu.

Gjaldeyrisviðskipti SÍ

Uppsöfnuð kaup Seðlabanka Íslands á gjaldeyri frá byrjun árs 2014 eru yfir 840 ma.kr. og er gjaldeyrisforðinn að frádregnum öllum erlendum skuldum SÍ og ríkissjóðs um 580 ma.kr. Það er yfirlýst stefna SÍ að nota ekki forðann til að reyna að hafa áhrif á gengið heldur einungis til að koma í veg fyrir spíralmyndun á markaði.

Skráðar nýfjárfestingar

Fyrir utan viðskipti með Arion banka var erlend nýfjárfesting fyrstu níu mánuði ársins um 25 ma.kr. sem er svipað og allt árið í fyrra.

Öll félögin á aðallista Kauphallarinnar, nema Heimavellir, voru nýlega tekin inn í lista FTSE fyrir vaxtarmarkaði. Það gæti haft í för með sér aukinn áhuga erlendra aðila á innlendum hlutabréfum þegar fram í sækir. Lækkandi vaxtamunur við útlönd gerir það ólíklegra að við munum sjá mikið nýflæði erlends fjármagns inn í íslensk ríkisskuldabréf.

Annað þekkt fjármagnsflæði

Inni í þessum lið eru meðal annars ný erlend lántaka innlendra aðila og afborganir erlendra lána. Á síðasta ári var afborgun erlendra lána umfram nýja lántöku um 27 ma.kr. Við búumst ekki við miklum mun á þessu tvennu á spátímabilinu.

Breyting á gjaldeyrisstöðu stóru viðskiptabankanna þriggja

Gjaldeyrisjöfnuður allra þriggja stóru viðskiptabankanna er nokkurn vegin í jafnvægi. Við búumst ekki við breytingu þar á.

Gjaldeyrisviðskipti vegna breytingu á gjaldeyrisstöðu annarra innlendra aðila

Frá árslokum 2016 hafa innlán innlendra aðila á gjaldeyrisreikningum aukist um 121 ma.kr. og voru í lok ágúst 280 ma.kr. (reiknað á föstu gengi miðað við lok ágúst). Vaxtamunur við útlönd hefur lækkað nokkuð síðustu mánuði, sem gerir það hlutfallslega ódýrara en áður að geyma fé í erlendum gjaldeyri.

Ný útlán viðskiptabankanna í erlendum gjaldmiðlum til innlendra aðila námu einungis 15 mö.kr. á síðasta ári samkvæmt mati Seðlabankans. Miðað við almennan samdrátt í bæði fjármunamyndun og útflutningi í ár er ólíklegt að við sjáum mikla aukningu hér á næstu árum. Hins vegar gæti þetta aukist á síðari hluta spátímabilsins.

Gjaldeyrisflæði vegna aflandskróna

Í byrjun mars voru fjármagnshöft á eftirstæðum aflandskrónum losuð. Samkvæmt Seðlabanka Íslands lækkaði upphæðin um 11 ma.kr. strax í kjölfar þess. Upphæðin hefur lækkað um 10 ma.kr. síðan og er núna um 62 ma.kr.

Seðlabankinn hefur lýst því yfir að hann ætli ekki að láta þennan fortíðarvanda hafa áhrif á framtíðargengi krónunnar. Gjaldeyrisforði Seðlabankans er rúmur og getur auðveldlega mætt fjármagnsútflæði vegna þessara aflandskróna.

Eigum von á að evran kosti áfram milli 135 og 140 krónur

Samantekið virðist sem markaðurinn verði áfram nokkurn veginn í jafnvægi og við búumst ekki við miklum hreyfingum á gengi krónunnar til næstu ára þó að einhverjar sveiflur muni alltaf eiga sér stað.

Við gerum því ráð fyrir að evran kosti áfram 135 til 140 krónur út spátímabilið. Spá okkar gerir ráð fyrir að evran kosti 138 krónur í lok þessa árs og 139 krónur í lok árs 2020.
Raungengið

Það sem af er ári hefur raungengið lækkað miðað við síðasta ár og var 7,5% lægra á 2. ársfjórðungi en í fyrra. Gangi spá okkar að öðru leyti eftir lækkar raungengið fyrir árið í heild um 7% milli ára í ár, helst nokkurn veginn óbreytt milli ára 2020, en hækkar um 1,5% árið 2021.