Mikill vöxtur útflutnings á síðustu árum vegna uppgangs í ferðaþjónustu hefur aukið mjög næmni hagkerfisins fyrir breytingu í útflutningi. Við gerum ráð fyrir að útflutningur dragist verulega saman á þessu ári vegna niðursveiflu í ferðaþjónustu.

 30. október 2019

Eitt af einkennum núverandi efnahagsuppsveiflu hefur verið mikill vöxtur í útflutningi og má rekja hann að langmestu leyti til þess ævintýralega vaxtar sem verið hefur í íslenskri ferðaþjónustu á síðustu árum. Frá árinu 1980 til og með 2008 lá hlutfall útflutnings af landsframleiðslu á tiltölulega þröngu bili, 26-32%. Með gengisfallinu hækkaði þetta hlutfall upp í 37% árið 2009. Vöxturinn í ferðaþjónustu hefur haldið áfram að ýta undir hækkun hlutfallsins og fór það upp í 45% árið 2017 sem er rúmlega helmingi hærra að meðaltali en á árunum 1980 til 2008. Hlutfallið lækkaði örlítið í fyrra en var samt sem áður mjög hátt í sögulegu ljósi, eða tæp 44%. Hagvaxtarþróun hér á landi er því orðin umtalsvert næmari fyrir þróun í útflutningi landsins og þá sérstaklega næmari gagnvart breytingum í ferðaþjónustu.

Mikill samdráttur í ferðaþjónustu

Vöxtur útflutnings nam 1,7% á síðasta ári og þarf að fara aftur til ársins 2010 til að finna minni vöxt. Öfugt við árin þar á undan var vöxtur síðasta árs borinn af aukningu vöruútflutnings, sem jókst um 3,5%. Þjónustuútflutningur jókst einungis um 0,1% sem er minnsti vöxtur þjónustu frá árinu 2008 þegar mældist 8,3% samdráttur. Lítill vöxtur þjónustuútflutnings skýrist af mun minni vexti ferðaþjónustu á síðasta ári en við höfum átt að venjast árin þar á undan. Þannig nam fjölgun erlendra ferðamanna einungis 5,5% sem er minnsta fjölgun ferðamanna síðan árið 2010 þegar ferðamönnum fækkaði um 1,1%. Aukinn vöruútflutningur í fyrra skýrist að mestu leyti af mikilli aukningu útflutnings sjávarafurða og þá helst þorsks. Þá aukningu má síðan að hluta rekja til grunnáhrifa vegna sjómannaverkfallsins sem stóð yfir fyrstu tvo mánuði ársins 2017. Á fyrri hluta árs 2019 dróst heildarútflutningur saman um 2,8% milli ára. Þessi samdráttur skýrist einungis af samdrætti í þjónustuútflutningi en aukning varð í vöruútflutningi. Samdrátturinn í þjónustuútflutningi skýrist aftur fyrst og fremst af samdrætti í ferðaþjónustu.

Mikil breyting frá maíspá

Útflutningsspáin okkar fyrir þetta ár hefur tekið litlum breytingum frá því í maí. Við gerum ráð fyrir 5,7% samdrætti í útflutningi á þessu ári sem skýrist fyrst og fremst af gjaldþroti WOW air og samdrætti í ferðaþjónustu. Þetta er ívið meiri samdráttur en við gerðum ráð fyrir í maí en þá spáðum við 5,5% samdrætti. Munurinn felst fyrst og fremst í því að nú gerum við ráð fyrir meiri samdrætti í útflutningi áls. Á næsta ári spáum við 0,2% vexti í útflutningi og verður hann borinn af vexti í ferðaþjónustu. Lítill vöxtur á næsta ári skýrist að hluta af grunnáhrifum vegna mikils útflutnings á farþegaþotum á þessu ári en WOW air seldi Air Canada fjórar þotur fyrir um 17,3 ma.kr. á fyrsta ársfjórðungi. Árin 2021 og 2022 gerum við ráð fyrir áframhaldandi hóflegum vexti útflutnings sem verður borinn af vexti í ferðaþjónustu.

Mikil óvissa í ferðaþjónustu

Mikil óvissa er um vöxt íslenskrar ferðaþjónustu á næstu árum. Sú óvissa snýr einna helst að flugframboði til landsins sem er mjög ráðandi þáttur í komum erlendra ferðamanna hingað til lands. Nú liggja fyrir áætlanir Icelandair og erlendra flugfélaga um flug til og frá Leifsstöð á þessu ári. Óvissan um fjölda ferðamanna á þessu ári er því fremur lítil. Á fyrstu 9 mánuðum ársins fækkaði erlendum ferðamönnum um 14,3% milli ára og gerir spá okkar ráð fyrir 14% fækkun yfir árið í heild. Það sem dregið hefur úr fækkun sætaframboðs sem brotthvarf WOW air olli er að Icelandair hefur aukið mjög vægi erlendra farþega sem koma til landsins á kostnað skiptifarþega. Á fyrstu 9 mánuðum ársins flutti Icelandair 27% fleiri erlenda ferðamenn til landsins en á sama tímabili í fyrra.

Einungis liggja fyrir áætlanir um flug til og frá landinu til og með mars á næsta ári og því ríkir meiri óvissa um þróun ferðaþjónustunnar frá þeim tíma. Samkvæmt áætlun Isavia má gera ráð fyrir að framboð flugsæta til landsins á fyrsta ársfjórðungi verði 2,3% meira hjá erlendu félögunum en á sama fjórðungi á þessu ári. Hlutfallsleg aukning milli sömu tímabila hjá Icelandair nemur 5,1%. Líklegt er að þessar tölur setji tóninn fyrir heildarframboðsvöxt flugsæta yfir allt næsta ár. Við byggjum spár okkar um fjölgun erlendra ferðamanna á næsta ári á þessum tölum. Við gerum ráð fyrir 3% fjölgun erlendra ferðamanna til landsins á næsta ári, 5% fjölgun árið 2021 og aftur 2022. Ef spáin gengur eftir verður fjöldi erlendra ferðamanna á þessu ári tæplega 2 milljónir og tæplega 2,3 milljónir árið 2022. Þetta eru lítillega færri ferðamenn en í fyrra en það ár heimsótti metfjöldi ferðamanna landið.

Meðmælaskor gefur tilefni til bjartsýni til næstu ára

Til lengri tíma litið er ástæða til að vera bjartsýn á áframhaldandi hóflega fjölgun erlendra ferðamanna. Meðmælaskor erlendra ferðamanna og ferðaskrifstofa hefur þróast í jákvæða átt að undanförnu. Þannig sýnir landamærakönnun Ferðamálastofu að meðmælaskor sem erlendir ferðamenn gefa Íslandi sem áfangastað hefur verið mun betri á þessu ári en á sama tíma í fyrra. Þannig hefur Ísland skorað hærra alla fyrstu 8 mánuði ársins borið saman við sömu mánuði í fyrra. Könnun sem Íslandsstofa framkvæmdi í júní meðal erlendra söluaðila á ferðaþjónustu hér á landi benti til þess að bókunarstaða væri betri nú en á sama tíma í fyrra. Tæplega 3 af hverjum 4 fyrirtækjum telja að bókanir verði jafnmiklar eða meiri fyrir komandi vetur en á sama tíma í fyrra.

Margir óvissuþættir geta haft áhrif á þróun ferðaþjónustunnar

Margir óvissuþættir geta haft áhrif á vöxt útflutnings ferðaþjónustu á næstu árum. Hér má nefna nokkra:

  • Flugbann MAX-þotanna hefur sett verulegt strik í flugáætlun Icelandair á þessu ári og er óvíst hvenær vélarnar komast í gagnið. Flestir aðilar gera þó ráð fyrir að það verði einhvern tíma á næsta ári.
  • Gengi krónunnar hefur mikil áhrif á ferðaþjónustu líkt og annan útflutning. Gengisþróun mun hafa áhrif á eftirspurn og tekjur íslenskrar ferðaþjónustu.
  • Á alþjóðavísu hafa flugfargjöld leitað niður á við á síðustu árum, samfara lækkun á heimsmarkaðsverði olíu. Lækkun flugfargjalda hefur stutt við áframhaldandi vöxt ferðalaga í heiminum. Hækki þau á ný mun það líklega draga úr ferðalögum hingað til lands, að öðru óbreyttu.
  • Töluvert meiri svartsýni ríkir í alþjóðlegum efnahagsmálum en oft áður og eru auknar líkur taldar á samdrætti í Bandaríkjunum á næsta ári. Hagvöxtur í heiminum hefur jafnan töluverð áhrif á þróun í heimsferðamennsku og er skemmst að minnast að ferðalög í heiminum drógust saman um 4,2% í alþjóðafjármálakreppunni 2009.

Loðnubrestur og dökkt útlit fyrir næsta ár

Þróun vöruútflutnings á þessu ári markast að nokkru leyti af loðnubresti. Enginn kvóti var gefinn út fyrir þessa vertíð og eru horfurnar fyrir næsta ár fremur dökkar, enda hefur nýliðun stofnsins verið slök. Þetta eru ekki góðar fréttir, enda hefur loðnan verið einn mikilvægasti fiskistofninn þegar kemur að útflutningsverðmæti sjávarafurða á síðustu áratugum. Vegna mikillar óvissu um framhaldið er í spánni gert ráð fyrir að loðnuvertíð næsta árs verði svipuð og á þessu ári.

Óvissa um kísilútflutning á næstu árum

Brösuglega hefur gengið í starfsemi þeirra tveggja kísilvera sem reist hafa verið hér á landi á síðustu árum. United Silicon fór í þrot og framleiðsla PCC á Bakka hefur ekki verið án vandkvæða. Í nokkur ár hafa forsvarsmenn Thorsil stefnt að því að reisa annað kísilver í Helguvík og gerum við ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á næsta ári. Ef það gengur eftir má gera ráð fyrir að framleiðsla hefjist árið 2022. Áhrif af framleiðslu Thorsil, þegar og ef sú verksmiðja kemst í gagnið, eru fremur lítil á heildarútflutning frá landinu og þar með á hagvöxt.Innflutningur dregst verulega saman á þessu ári

Á fyrri hluta ársins dróst heildarinnflutningur vöru og þjónustu saman um 10,6% miðað við sama tímabil í fyrra. Þetta er mesti samdrátturinn á fyrri árshelmingi síðan árið 2009 þegar innflutningurinn dróst saman um 34,2%. Samdrátturinn skýrist bæði af samdrætti í innflutningi þjónustu og innflutningi vara.

Innflutningur þjónustu dróst saman um 4,9% á fyrri helmingi árs. Samdráttinn má skýra með miklum samdrætti í liðnum "önnur viðskiptaþjónusta" en innflutningur undir þeim lið dróst saman um 16,4 ma.kr. á föstu gengi, eða 65%. Annað sem hafði áhrif til lækkunar á þjónustuinnflutningi voru lægri útgjöld Íslendinga vegna ferðalaga erlendis en brottfarir Íslendinga frá Leifsstöð voru 4,9% færri á fyrri árshelmingi en á sama tímabili í fyrra.

Brotthvarf WOW air dregur úr innflutningi þotueldsneytis

Vöruinnflutningur dróst saman um 5,9% á fyrri helmingi árs. Þann samdrátt má fyrst og fremst skýra með samdrætti í innflutningi fólksbíla, flugvéla og eldsneytis sem síðan má að einhverju leyti rekja til samdráttar í ferðaþjónustu. Minni innflutningur á fólksbílum skýrist að hluta til af minni fjárfestingu bílaleiga í nýjum bílum. Minni innflutningur eldsneytis er að miklu leyti tilkominn vegna minni innflutnings þotueldsneytis vegna gjaldþrots WOW air. Innflutningur á þotueldsneyti dróst saman um 37,4% á fyrri hluta ársins mælt í tonnum en innflutningur á þotueldsneyti á fyrri árshelmingi árið 2018 nam 27 mö.kr.

Vöxtur innflutnings hefur aukist á síðustu árum samfara efnahagsuppganginum. Vöxtur innflutnings reyndist þó lítill á síðasta ári þrátt fyrir myndarlegan vöxt einkaneyslu og vöxt í atvinnuvegafjárfestingu en þessir tveir liðir hafa jafnan mjög mikil áhrif á innflutning.

Á þessu ári gerum við ráð fyrir 6,4% samdrætti í innflutningi. Sögulega séð hefur breyting í innflutningi markast að miklu leyti af breytingu í annars vegar einkaneyslu og hins vegar atvinnuvegafjárfestingu. Við teljum að þessir tveir þættir muni verða veigamestu áhrifavaldar í innflutningsþróuninni frá og með næsta ári, en þá gerum við ráð fyrir 4% vexti innflutnings. Honum verður síðan fylgt eftir með 3,3% vexti árið 2021 en á lokaári spátímabilsins gerum við ráð fyrir 4,5% vexti.