Verðbólguhorfur hafa batnað eftir því sem liðið hefur á árið. Við gerum nú ráð fyrir að verðbólga verði í stórum dráttum við markmið út spátímabilið enda gert ráð fyrir að hagvöxtur verði í takt við langtímaframleiðslugetu þjóðarbúsins.

 30. október 2019

Verðbólgan á 2. ársfjórðungi 2019 var aðeins hærri en við áttum von á í maí, 3,4% í stað 3,3%. Verðbólgan á 3. ársfjórðungi var hins vegar nokkuð undir maíspá okkar, 3,1% í stað 3,5%.


Veruleg eðlisbreyting á verðbólgunni

Verðbólgan hélst rétt undir 2% megnið af árinu 2017 en jókst nokkuð árið 2018 og endaði í 3,7% í lok árs. Það sem af er ári hefur hún hjaðnað á ný og var í október 2,8%. Samhliða þessari þróun hefur veruleg eðlisbreyting orðið á verðbólgunni.

Árið 2017 vógust tveir liðir á; húsnæði til hækkunar og innfluttar vörur til lækkunar. Framlag annarra liða til breytinga á verðbólgunni var óverulegt. Frá miðju ári 2017 hefur framlag húsnæðis til hækkunar dregist verulega saman samhliða því sem innfluttar vörur eru teknar að hækka í verði. Framlag innlendra vara og þjónustu hefur jafnframt aukist. Núna er staðan því þannig að verðþróun allra helstu undirliða vísitölu neysluverðs (VNV) vega til hækkunar á vísitölunni.Þegar skoðað er mesta niðurbrot VNV (169 undirliðir) sést að hlutfall þeirra liða sem hafa hækkað á tólf mánaða tímabili hefur aukist úr 45% um mitt ár 2017 í um 80% við síðustu mælingu.

Stýrivextir lækka

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hóf vaxtalækkunarferli á fundi sínum 20.-21. maí 2019, en það var fyrsti fundur nefndarinnar eftir að WOW air fór í greiðslustöðvun og endanlega varð útséð um loðnuveiði í ár. Nefndin hafði þá til hliðsjónar nýja verðbólgu- og þjóðhagsspá þar sem spáð var 0,4% samdrætti í landsframleiðslu í ár í stað 1,8% hagvaxtar líkt og reiknað var með í febrúarspá Seðlabankans. Allir fimm nefndarmenn voru sammála um að lækka vexti bankans um 0,5 prósentustig á þeim fundi.

Síðan þá hafa verið haldnir þrír fundir þar sem nefndin hefur lækkað vexti bankans um 0,25 prósentustig í hvert sinn. Meginvextir bankans, þ.e. vextir á sjö daga bundnum innlánum, eru nú 3,25% í samanburði við 4,5% fyrir fundinn í maí.

Þetta er nokkuð hraðari lækkun en við áttum von á í maíspá okkar, en við birtum hana vikuna áður en fyrsta vaxtalækkunin var tilkynnt. Þá áttum við von á að nefndin myndi lækka vexti um 0,25 prósentustig í maí, 0,25 prósentustig í júní og að meginvextir Seðlabanka Íslands yrðu þar með 4% í lok árs.

Meginvextir Seðlabanka Íslands eða svokallaðir stýrivextir hafa aldrei verið lægri. Milli febrúar og nóvember 2011 voru meginvextir 3,625% en meginvextir voru þá skilgreindir sem einfalt meðaltal vaxta á viðskiptareikningum og hámarksvaxta á innstæðubréfum með 28 daga binditíma. Raunstýrivextir út frá liðinni verðbólgu eru enn sem komið er jákvæðir, en þeir hafa nokkrum sinnum verið neikvæðir, seinast 2012.Veruleg lækkun á verðbólguvæntingum

Í byrjun árs var verðbólguálag á skuldabréfamarkaði, þ.e. munur á ávöxtunarkröfunni á óverðtryggðu og verðtryggðu bréfi af svipaðri lengd, á bilinu 4% til 4,5%. Þessi munur var kominn niður í um 3% þegar peningastefnunefnd hóf vaxtalækkunarferlið í maí og er núna í kringum 2,5%.

Niðurstöður úr könnunum Seðlabanka Íslands meðal markaðsaðila og könnun Gallup meðal 400 stærstu fyrirtækja auk heimila benda einnig til þess að verðbólguvæntingar hafi lækkað það sem af er ári. Til að mynda telja stjórnendur 400 stærstu fyrirtækja almennt að verðbólga verði við markmið eftir ár. Til samanburðar voru verðbólguvæntingar stjórnenda fyrirtækja til næstu 12 mánaða 4,0% á 4. ársfjórðungi 2018 og fyrsta fjórðungi 2019.

Lækkun verðbólguvæntinga í ár er meginforsenda vaxtalækkana það sem af er ári en að öllu öðru óbreyttu ættu lægri verðbólguvæntingar að gera Seðlabankanum kleift að ná verðbólgumarkmiði sínu með lægra nafnvaxtastigi en ella.

Verðbólga nálægt markmiði næstu ár

Verðbólguhorfur hafa batnað eftir því sem liðið hefur á árið og gerum við nú ráð fyrir að verðbólga verði í stórum dráttum í samræmi við markmiðið út spátímabilið enda er gert ráð fyrir að hagvöxtur verði í takt við langtímaframleiðslugetu þjóðarbúsins.Í maíspá Hagfræðideildarinnar gerðum við ráð fyrir verðbólgukúf sem myndi ná hámarki í 3,6% á fyrri árshelmingi 2020. Það eru fjórir þættir sem skýra þessa breytingu milli þessara tveggja spáa:

  • Verðbólgan hefur hjaðnað hraðar en útlit var fyrir í maí 2019.
  • Verðbólguvæntingar hafa lækkað síðan í maí, en slíkar væntingar hafa jafnan áhrif á verðbólguna. Til að mynda eru eðlileg viðbrögð fyrirtækja sem búast við kostnaðarhækkunum að hækka verð hjá sér.
  • Seðlabankinn hefur lækkað vexti mun hraðar en við áttum von á í maí. Það ætti að vera hvati fyrir fyrirtæki að stilla verðhækkunum í hóf til þess að viðhalda lægri vaxtastig.
  • Enn sem komið er sjást fá merki þess að launaskrið, umfram kjarasamningsbundnar hækkanir sé til staðar að nokkru marki.

Stýrivaxtaspá

Tveir fundir peningastefnunefndar eru eftir í ár. Við teljum líklegt að peningastefnunefnd muni lækka vexti um 0,25 prósentur á öðrum hvorum fundinum.

Á næsta ári fækkar þeim aðilum sem geta átt viðskiptareikning hjá Seðlabanka Íslands. Meðal þeirra aðila sem missa þennan aðgang er Íbúðalánasjóður. Í lok júní var sjóðurinn með innlán á viðskiptareikningi hjá Seðlabankanum upp á 77 ma.kr. Þessar breytingar munu því líklega hafa í för með sér aukið peningamagn í umferð sem að ákveðnu leyti er ígildi slökunar á peningastefnu. Líklegt er að peningastefnunefnd muni meðal annars horfa til þess og vilja bíða með frekari vaxtalækkanir á næsta ári þar til komin er reynsla á áhrif þessara breytinga á aðhaldsstig peningastefnunnar.

Þegar líður á 2020 ættu vonandi að sjást merki um að hagkerfið sé komið yfir versta hjallann. Meðal annars gerum við ráð fyrir því að búið verði að greiða úr vandamálum í tengslum við MAX vélar Icelandair sem mun hafa jákvæð áhrif á ferðaþjónustu. Gangi spá okkar um aukinn hagvöxt og lækkun atvinnuleysis 2021 eftir er líklegt að tímabært verði að draga úr slaka peningastefnunnar og hækka stýrivexti lítillega í byrjun árs 2022.