Samkvæmt tölum Hagstofunnar er áætlað að 206.500 manns hafi verið á vinnumarkaði í september 2019, sem jafngildir 80,3% atvinnuþátttöku. Af þeim voru um 199.900 manns starfandi og 6.700 atvinnulausir. Atvinnulausir voru 3.600 fleiri en í september 2018 og var atvinnuleysi 3,2% af vinnuafli þann mánuð samanborið við 1,5% í september í fyrra.

 30. október 2019

Skráð atvinnuleysi þokast upp á við

Atvinnuleysi samkvæmt mælingum Hagstofunnar hefur ekki aukist að ráði síðustu mánuði og sveiflast mikið milli mánaða að vanda. Skráð atvinnuleysi samkvæmt mælingum Vinnumálastofnunar hefur hins vegar aukist töluvert á síðustu mánuðum, eða um 1,2 prósentustig frá því í september 2018, úr 2,3% í 3,5% nú í september. Atvinnuleysi hefur aukist mest milli ára á Suðurnesjum, eða um 3,1 prósentustig, og þar á eftir á höfuðborgarsvæðinu, um 1,3 prósentustig. Breytingar eru mun minni á öðrum svæðum.

Sé litið á 12 mánaða hlaupandi meðaltal hefur atvinnuleysi samkvæmt mælingum Hagstofunnar verið nokkuð stöðugt í næstum tvö ár, en þokast örlítið upp á við síðustu mánuði. Tölur Vinnumálastofnunar um skráð atvinnuleysi hafa hins vegar hækkað nokkuð á síðustu mánuðum. Skráð atvinnuleysi var þannig 3,5% nú í september samanborið við 2,2% í september 2018.

Ýmis neikvæð teikn á lofti

Fyrr á árinu var reiknað með auknu atvinnuleysi eftir því sem liði á árið og að staða á vinnumarkaði myndi versna. Tölur Hagstofunnar hafa sveiflast mikið að vanda, en langtímaþróunin er hæg upp á við. Skráð atvinnuleysi er nú 1,2 prósentustigum hærra en það var fyrir ári síðan og langtímaþróunin því einnig upp á við þar. Vinnuaflsnotkun á 3. ársfjórðungi var nokkuð minni en fyrir ári síðan.

Uppsagnir í september voru verulega fleiri en hefur verið í langan tíma, bæði nokkrar stórar og svo fleiri minni. Það er því líklegt að afleiðingar þess muni koma fram í tölum um atvinnuleysi á næstu mánuðum.

Atvinnuþátttaka minnkar áfram

Atvinnuþátttaka minnkaði töluvert frá vori 2017 fram á mitt ár 2018 og var 81,1% á 3. ársfjórðungi í ár samanborið við 82,4% á sama tíma í fyrra.

Sé litið á 12 mánaða meðaltal dróst atvinnuþátttaka saman um 0,3 prósentustig frá september 2018 til sama tíma 2019. Á þennan mælikvarða er atvinnuþátttaka nú svipuð og var í upphafi ársins 2015. Þá tók hún að aukast mikið en dróst síðan saman aftur á síðasta ári.

Mikil minnkun atvinnuþátttöku kann að vera ákveðið merki um dulið atvinnuleysi þar sem jaðarhópar á vinnumarkaði kjósa að fara út af markaðnum í stað þess að standa í erfiðri leit að störfum.

Vinnutími stöðugur

Vikulegur vinnutími var að jafnaði 38,7 stundir í september sem er 0,8 stundum meira en fyrir ári. Sé miðað við 12 mánaða meðaltal var vinnutíminn nú í september 39,1 stundir sem er 0,1 stundum styttra en í september 2018.

Áframhaldandi aukning í vinnuaflsnotkun á 3. ársfjórðungi

Séu breytingar á fjölda starfandi og vikulegum vinnutíma teknar saman jókst vinnuaflsnotkun samfellt á árinu 2018 og einnig á 1. og 2. ársfjórðungi 2019. Meginskýringuna var að finna í sífellt auknum fjölda starfandi á vinnumarkaði. Þannig jókst fjöldi unninna stunda um 2,6% milli ára á fyrsta ársfjórðungi í ár og 2,7% á öðrum. Vinnutími styttist hins vegar á báðum tímabilum. Aukning vinnuaflsnotkunar er jafnan talin merki um sterkan vinnumarkað.

Á 3. ársfjórðungi snerist þróunin nokkuð við. Fjölda starfandi fækkaði um 0,4% milli ára og er það í fyrsta sinn síðan á 4. ársfjórðungi 2011 sem fjöldi starfandi dregst saman milli ára. Meðalfjölda vinnustunda fjölgaði hins vegar um 0,1% milli ára. Alls dróst fjöldi unninna vinnustunda því saman um 0,3% á þessu tímabili.

Útlendingar skipta miklu máli

Mikill kraftur hefur verið í innflutningi erlends vinnuafls á síðustu árum. Frá fyrsta ársfjórðungi 2016 til og með annars ársfjórðungs 2019 voru aðfluttir erlendir ríkisborgarar umfram brottflutta á aldrinum 20-59 ára alls um 18.600 samkvæmt tölum Hagstofunnar. Utanumhald yfir tölfræði brottfluttra er ekki jafn áreiðanlegt og yfir aðflutta. Tölur Hagstofunnar sýna hins vegar að erlendum ríkisborgurum hér á landi á öllum aldri hefur fjölgað um u.þ.b. 20 þúsund manns á þessum tíma þannig að þar er um ágætt samræmi að ræða.

Á sama tíma hefur starfandi fólki samkvæmt vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar fjölgað um u.þ.b. 18 þúsund. Það lítur því út fyrir að erlent starfsfólk eigi verulegan hlut í fjölgun starfandi fólks á tímabilinu.

Aðfluttum erlendum ríkisborgurum umfram brottflutta var enn að fjölga á 2. ársfjórðungi í ár og því virðist núverandi samdráttur í efnahagslífinu ekki hafa haft mikil áhrif á þátttöku erlendra starfsmanna, allavega ekki enn sem komið er.

Aukin svartsýni stjórnenda fyrirtækja

Niðurstöður síðustu könnunar Gallup meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins frá því í september sýna að 14% fyrirtækja búast við fjölgun starfsmanna á næstu sex mánuðum og 24% við fækkun.

Þannig gæti starfsmönnum fyrirtækja í landinu fækkað um 0,5% á næstu sex mánuðum ef marka má könnunina en þriggja mánaða gömul könnun gaf til kynna áform um 0,4% fækkun. Fyrir allan almenna vinnumarkaðinn þýðir þetta að störfum gæti fækkað um 700 á næstu sex mánuðum. Fjölgunin yrði þannig um 200 hjá þeim sem áforma fjölgun en fækkunin um 900 hjá þeim sem áforma fækkun.

Séð úr annarri átt birti Hagstofa Íslands nýlega tölur um að u.þ.b. 4.500 störf hafi verið laus á vinnumarkaði hér á landi á þriðja ársfjórðungi 2019. Á sama tíma er talið að um 237.000 störf hafi verið mönnuð. Miðað við þetta er hlutfall lausra starfa tæplega 2% um þessar mundir.

Töluverð óvissa framundan um vinnumarkað

Fjöldi uppsagna í lok 3. ársfjórðungs hefur væntanlega aukið nokkuð á svartsýni um þróun vinnumarkaðar. Í þessu sambandi beinast augun fyrst og fremst að ferðaþjónustu, en einnig að byggingamarkaði. Spurningin um næstu loðnuvertíð skiptir líka miklu sums staðar á landinu.

Líklegt má telja að atvinnuleysi muni aukast eitthvað á næstu misserum, þó ekki eins mikið og reikna mátti með á tímabili. Hagfræðideild reiknar með að skráð atvinnuleysi verði 3,6% í ár, 4% á árinu 2020 og 3,5% á árunum 2021 og 2022.Launaþróun áfram með svipuðum hætti

Eftir kröftuga hækkun launa síðustu ár hefur þróun launa verið mun hóflegri það sem af er ári. Samkvæmt tölum Hagstofunnar hækkaði launavísitalan um 4,3% milli 3. ársfjórðungs 2018 og 2019 en það er minnsta ársbreyting frá því í upphafi ársins 2010. Hækkunartaktur launa á ársgrundvelli hafði verið nokkuð stöðugur í rúmlega 7% í u.þ.b. ár, frá vori 2017 fram á vor 2018, en lækkaði þá niður í kringum 6% og er nú kominn niður í 4%. Kjarasamningar á almenna markaðnum í vor lögðu línurnar fyrir þróun næstu ára og því gerum við ráð fyrir að laun þróist áfram með svipuðum hætti og verið hefur síðustu mánuði.

Kaupmáttur stöðugur - aldrei verið meiri

Þrátt fyrir minni launabreytingar hefur kaupmáttur launa verið stöðugur undanfarna mánuði, en hann jókst lítillega eftir að samningarnir voru gerðir. Kaupmáttur var þannig 1,2% meiri nú í september en í september 2018. Frá ársbyrjun 2015 hefur kaupmáttur launavísitölu aukist um 26,2%, eða u.þ.b. 6% á ári. Það er verulega mikil aukning, bæði sögulega séð og í samanburði við önnur lönd. Séð í lengri tíma samhengi hefur kaupmáttur launa aldrei verið meiri. Nú í september var kaupmáttur þannig um 26% hærri en hann var mestur á árunum fyrir hrun.

Nýgerðir kjarasamningar

Í byrjun apríl náðust kjarasamningar milli stærstu félaganna innan ASÍ og samtaka atvinnulífsins. Samningarnir fólu í sér krónutöluhækkanir, ákvæði um styttingu vinnutíma og þar að auki gaf ríkisstjórnin út yfirlýsingu um bætt kjör á ýmsum sviðum, m.a. lækkun skatta þar sem fyrstu skrefin verða tekin nú um áramót.

Samningurinn er til tæplega fjögurra ára, til 1. nóvember 2022. Launahækkanir eru með tvennum hætti, annarsvegar 90 þús. kr. hækkun á lægstu mánaðarlegu kauptöxtum á öllu tímabilinu og hinsvegar 68 þús. kr. hækkun annarra mánaðarlauna á sama tímabili. Segja má að allur almenni markaðurinn hafi fylgt þeim ramma sem þessi samningur stefndi að.

Ætla má að áhrif beinna launahækkana vegna samningsins verði að meðaltali 3-4% á ári. Enn sem komið er eru ekki mikil merki um launaskrið í kjölfar samningsins.

Fjöldi kjarasamninga eftir

Þrátt fyrir að kjarasamningar á almenna markaðnum séu stór áfangi verður ekki fram hjá því litið að mestallur opinberi markaðurinn er nú með lausa samninga og hefur hvorki gengið né rekið í viðræðum víðast hvar á þeim vettvangi frá því í vor.

Það hefur komið í ljós að stórir hópar á opinberum markaði hafa ekki mikinn áhuga á að nota samningana á almenna markaðnum sem fyrirmynd. Svo virðist sem einkum sé rætt um styttingu vinnutíma í þeim viðræðum sem hafa verið í gangi.

Laun stóru hópanna

Sé litið á launabreytingar stóru hópanna á vinnumarkaði á einu ári, frá 2. ársfjórðungi 2018 til 2. ársfjórðungs 2019, má sjá að launahækkanir á almenna markaðnum voru ívið minni en á þeim opinbera. Munurinn nemur u.þ.b. 0,3 prósentustigum.

Kjarasamningar á almenna markaðnum runnu út í lok síðasta árs og nýr samningur var gerður fyrir stærstan hluta markaðarins í byrjun apríl. Samningar á opinbera markaðnum runnu flestir út á 1. og 2. ársfjórðungi og hafa nýir samningar ekki verið gerðir enn. Launabreyting milli 1. og 2. ársfjórðungs í ár var því eðli málsins samkvæmt mun meiri á almenna markaðnum en á þeim opinbera. Munurinn er um 2 prósentustig.

Sagan sýnir ótvírætt að launaþróun á opinbera og almenna markaðnum er mjög svipuð til lengri tíma litið. Yfir styttri tímabil er alltaf um einhverjar sveiflur að ræða en þær hafa tilhneigingu til að jafnast út. Sé miðað við breytingu frá upphafi ársins 2015 höfðu laun opinberra starfsmanna hækkað um 36,4% á meðan þau höfðu hækkað um 39% á almenna markaðnum. Munurinn á þeim tímapunkti var þannig 2,6 prósentustig sem nú skýrist alfarið af mismunandi tímapunktum kjarasamninga þessara hópa. Það má því slá því föstu að laun stóru hópanna á vinnumarkaði muni jafnast og halda áfram að þróast með svipuðum hætti.

Verði niðurstaða samninga opinberra starfsmanna álíka og á almenna markaðnum hvað almennar launahækkanir áhrærir gerum við ráð fyrir að launavísitalan hækki um 4,7% í ár, 4,2% á næsta ári, 6% á árinu 2021 og 4,9% á árinu 2022.

Skattkerfisbreytingar munu skipta máli

Um næstu áramót verða fyrstu skrefin stigin í átt að því að koma á fót þriggja þrepa skattkerfi með nýju lágtekjuþrepi. Miðað er við að þær breytingar muni lækka skattgreiðslur tekjulægsta hópsins um 10 þúsund krónur á mánuði.

Sé litið einangrað á áhrif kjarasamningsins á fyrsta rúma árinu, þ.e. tvær fyrstu launahækkanirnar og áætlaðar breytingar á tekjuskatti og miðað við 350 þús. kr. mánaðartekjur, segir lauslegt mat að launin muni hækka beint um 11,7% og ráðstöfunartekjur um 12,9% á þessu rúma ári, verði skattbreytingarnar komnar til framkvæmda. Miðað við verðbólguspár mun þetta fela í sér verulega kaupmáttaraukningu fyrir hópa með tekjur á þessu bili. Aukning kaupmáttar bæði launa og ráðstöfunartekna minnkar svo eftir því sem laun og tekjur eru hærri. Bæði kjarasamningurinn og lægri skattar á lægstu tekjur nýtast því lágtekjufólki betur en öðrum hópum.