Frá árinu 1995 til 2017 jókst losun gróðurhúsalofttegunda langmest í ferðaþjónustu og akstri ferðamanna, en þar var losunin á árinu 2017 næstum 23 sinnum meiri en á árinu 1995. Næstmesta aukningin var í landflutningum og geymslu, 12 sinnum meiri 2017 en var 1995. Í tveimur greinum var losunin minni 2017 en 1995 samkvæmt tölum Hagstofunnar. 

 27. janúar 2020 - Ari Skúlason

Í síðustu viku birti Hagstofan bráðabirgðatölur um losun CO2 ígilda þeirra greina sem losa mest hér á landi. Stóra fréttin var að losun frá flugsamgöngum minnkaði mikið milli 2018 og 2019 og losun úr stóriðju minnkaði eilítið. Ástæður þessa eru augljósar, brotthvarf WOW air og minni framleiðsla og bilanir í álverksmiðjum1. Þarna var því ekki um skipulagðan samdrátt í losun samkvæmt markmiðum að ræða.

Margt fer ekki í bókhaldið

Hér er ekki endilega um að ræða sérlega góðar fréttir fyrir okkur vegna þess að hvorki flugsamgöngur né stóriðja eru með í vegferð þjóðarinnar varðandi markmið í loftslagsmálum.

Ari Skúlason


Bókhald um losun gróðurhúsalofttegunda er flókið, t.d. varðandi uppsprettu losunarinnar og skuldbindingar ríkja. Þannig eru alþjóðaflug og alþjóðasiglingar undanskildar skuldbindingum ríkja í Kýótóbókuninni. Sumt fellur undir skuldbindingar sem íslensk stjórnvöld bera beina ábyrgð á, annað undir samevrópskt viðskiptakerfi með losunarheimildir (ETS) og enn annað heyrir undir alþjóðlegar stofnanir, t.d. á sviði flugmála og siglinga. Þannig heyrir stóriðja undir ETS, og þar bera fyrirtækin sjálf ábyrgð á losun sinni og þurfa að útvega sér heimildir til losunar, t.d. með kaupum á markaði. Losun alþjóðaflugs er enn sem komið er sér á parti og heyrir ekki undir íslensk stjórnvöld.


Losun frá málmframleiðslu lækkaði um tæp 110 kílótonn CO2 ígilda á milli 2018 og 2019 en losun CO2 ígilda frá kísilverum jókst hins vegar um nær sama magn á sama tíma.

Tvær greinar langstærstar

Á árinu 2017 var losunin mest frá flugsamgöngum, um 2.650 kílótonn kolefnisígilda, sem þá var um 34% allrar losunar í landinu. Næst kom framleiðsla málma með um 24% losunar. Um 58% losunar landsins var því vegna þessara tveggja greina. Á árinu 2017 stóðu 6 stærstu greinarnar fyrir um 88% losunar í landinu.

Þróunin á síðustu árum er mjög mismunandi eftir greinum. Nær stöðugur vöxtur hefur verið í sumum greinum en aðrar hafa hagað sér öðruvísi.

Sé litið á magntölur sést að losun vegna flugsamgangna jókst verulega allt til ársins 2018 og þá hefur losun vegna flutninga á sjó aukist stöðugt. Losun frá stóriðju hefur hins vegar verið nær óbreytt frá árinu 2008 eftir að hafa aukist mikið á árunum þar á undan.

Sé litið á breytingu innan hverrar greinar fyrir sig birtist annar veruleiki þar sem greinarnar eru mismunandi stórar hvað losun varðar. Hlutfallsleg losun hefur aukist langmest í ferðaþjónustu og akstri ferðamanna, en þar var losunin á árinu 2017 næstum 23 sinnum meiri en á árinu 1995. Næstmesta aukningin var í landflutningum og geymslu, 12 sinnum meiri 2017 en var 1995.

Í tveimur greinum var losunin minni 2017 en 1995 samkvæmt tölum Hagstofunnar. Þetta eru fiskveiðar og fiskeldi annarsvegar, og landbúnaður og matvælaframleiðsla hinsvegar. Þannig var losun frá fiskveiðum og fiskeldi um 50% minni 2017 en var 1995.Stór hluti losunar ekki á ábyrgð stjórnvalda

Eins og áður segir heyrir stór hluti losunar gróðurhúsalofttegunda innan íslenska hagkerfisins ekki beint undir stjórnvöld hér á landi. Baráttan gegn losun snýr því meira að greinum sem losa minna. Þá kemur það heldur ekki á óvart að mikill vöxtur í ferðaþjónustu skapar mikla aukningu í losun gróðurhúsalofttegunda, og má þar sérstaklega benda á flug og akstur innanlands.